Grein

Sigurður Filippusson.
Sigurður Filippusson.

Sigurður Filippusson | 05.05.2003 | 15:02Réttur sjávarjarða I.

Lögin um stjórn fiskveiða standast ekki. Stjórnvöldum sást yfir að það var eignarréttur fyrir á auðlindinni er þeir settu lögin. Í stað þess að leiðrétta stærsta klúður Alþingis frá upphafi Íslandsbyggðar ætla þau að þegja sig frá málinu. Lítum á hvernig veiðirétti jarða innan netlaga er háttað samkvæmt eldri lögum. Þar ber fyrst að nefna að í veiðitilskipun frá 20. júní 1849 stendur í 3. grein: „Ef jörð liggur að sjó á eigandi veiði á haf út 60 faðma frá stórstraumsfjörumáli og eru það netlög hans.“
Nánast eins ákvæði eru í Rekabálki Jónsbókar frá 1281, sem enn er í fullu gildi. Einnig voru sömu ákvæði í Grágás, sem byggðu á eignarrétti eins og hann var í Noregi fyrir árið 900, sem sé fasteignatengd eignarréttindi sem búin eru að vera hér í gildi allt frá landnámi, en eru ekki virt í lögum nr. 38 frá 15. maí 1990 um stjórn fiskveiða. Með þeim er nánast allur veiðiréttur tekinn af sjávarjörðum með ólögmætum hætti og settur á báta sem síðan hafa iðulega verið seldir burtu í svokölluðu hagræðingarskyni en eftir standa heilu byggðarlögin sem rústir einar og húseignir íbúanna nánast einskis virði.

Á þessum samanburði má ljóst vera, að stjórnvöldum hafa orðið á allalvarleg mistök við setningu laga um stjórn fiskveiða þar sem hvorki atvinnuréttindi né eignarréttindi þeirra er á sjávarjörðum búa eru virt. Það er sem sé búið að hirða nærri allan rétt til sjávarins af þeim er á sjávarjörðum búa. Þar er nánast ekkert eftir, að mér sýnist. En lögin um stjórn fiskveiða standast ekki utan netalaga heldur. Meira um það síðar.

Margsinnis hefur Sigurður Líndal vakið athygli á þessum málum. Þessu til frekari stuðnings skal bent á lögfræðiálit tveggja manna.

Annars vegar lögfræðiálit Más Péturssonar (sjá www.rala.is/sjavarjardir) og hins vegar lögfræðiálit Skúla Magnússonar lektors. Í áliti Skúla, kafla 2.1 stendur: „Fiskveiðiréttur landeiganda í netlögum er hins vegar meðal þeirra heimilda sem hann hefur frá öndverðu átt samkvæmt íslenskum lögum“. Í kafla 3.4. stendur: „Réttur landeiganda til veiða innan netlaga jarðar sinnar nýtur ótvírætt verndar eignarréttarákvæðis 72.gr. stjórnarskrár.“ Þessar fullyrðingar lektorsins getur enginn hrakið.

Þessu til frekari stuðnings, sem einnig kemur vel inn á sögulega þáttinn, er doktorsritgerð Ole Lindquist og margt fleira sem ekki verður talið upp hér. Á þessum forna rétti, sem enn er í fullu gildi, innan sem utan netlaga, hafa sjávarbyggðirnar á Íslandi, þar með talin sjávarþorp og bæir, byggt afkomu sína og menningu á í gegnum tíðina. En þetta er mönnum meinað að nota í dag vegna laga um stjórn fiskveiða.

Þessi forni réttur innan sem utan netlaga hefur verið nefndur útræði eða heimræði og mjög langt er síðan stjórnvöld ákváðu að hér væri um fasteignatengdan eignarrétt að ræða: „Á Íslandi hefur alla tíð gilt óðalsréttur jarða“, – en með lögum um stjórn fiskveiða var veiðirétturinn tekinn með ólögmætum hætti af jörðum og settur á báta: „Bátar eru bara veiðitæki.“ Til þess höfðu stjórnvöld enga heimild.

Alþingi Íslendinga, og engum öðrum, ber að leiðrétta eigin vitleysu. Vel má vera að það sé hagkvæmt að tvö til þrjú risastór útgerðarfélög eignist allan veiðirétt á Íslandsmiðum, eins og virðist stefna í. En ég veit samt ekki um neinn sem hefur þá draumsýn að slíkt gerist. Það eru ekki margir sem vilja leggja megnið af Íslandi í eyði, en þó eru þeir til. Langstærsta byggðamálið í dag er að réttur sjávarbyggða til sjávarins sé virtur á ný.

– Sigurður Filippusson,
bóndi á Dvergasteini í Seyðisfirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi