Grein

Jón Arnarr, ráðgjafi í Byrginu | 03.05.2003 | 07:09Hafa skal það er sannara reynist

Kristinn H. Gunnarsson lýkur ritdeilum sínum við Ásthildi Cesil Þórðardóttur með því að segja: „Nú er komið að lokum í ritdeilu við Ásthildi Cesil Þórðardóttur. Hún fór fram í upphafi með árás á Framsóknarflokkinn og endar með því að draga í land í öllum atriðum“ – og þykist nokkuð góður. Bætir síðan við litlu síðar: „Niðurstaðan er að Framsóknarmenn hafa staðið að fullu við sín fyrirheit og sýnt mikinn vilja til þess að vinna að úrbótum í þessum erfiða málaflokki.“
Hér rak mig í rogastans því hér eru fullyrðingar sem með engu móti fást staðist. Vilji er eitt, framkvæmd er annað, og mig langar því til að rifja upp fyrir Kristni nokkur atriði sem virðast hafa fallið í gleymskunnar dá hjá honum. Mikið hefur verið fjallað um Byrgið í þessum ritdeilum. Ég hef unnið þar á þriðja ár og þekki því starfsemina nokkuð vel og vil því koma með nokkrar athugasemdir við þessar fullyrðingar.

Við afgreiðslu fjárauka- og fjárlaga í desember síðastliðnum var ákveðið á Alþingi að Byrgið fengi ekkert á fjáraukalögum en 12,7 mkr. á fjárlögum og ákveðið að ríkisstjórnin skyldi taka á fortíðarfjárhagsvanda Byrgisins, ásamt því að finna starfseminni nýtt húsnæði vegna fyrirhugaðs flutnings frá Rockville og að lokum að tryggja rekstrargrundvöll starfseminnar til framtíðar. Þessu skyldi hraðað og bendi ég Kristni á ummæli formanns fjárlaganefndar og annarra alþingismanna við afgreiðslu fjárlaga. Viljayfirlýsingarnar skorti ekki, en hvar eru efndirnar?

Í fyrsta lagi hefur fortíðarfjárhagsvandi Byrgisins ekki verið leystur. Hann er allur er til kominn vegna gríðarlegs uppbyggingarkostnaðar á húseignum í Rockville frá því Byrgið fékk svæðið til umráða. Hér er ekki um stórar fjárhæðir að ræða eða á bilinu 15-20 milljónir króna.

Í öðru lagi var keypt eign sem hýsa átti starfsemina í framtíðinni að Efri-Brú í Grímsnesi og ber að þakka það. En það var gert án þess að álits væri leitað hjá forsvarsmönnum Byrgisins um hvort húsakosturinn fullnægði þörfum starfseminnar. Húsnæði á staðnum dugar einungis til að vista helming þeirra vistmanna sem dvalið hafa að meðaltali í Byrginu á síðastliðnu ári. Úr þessu má þó bæta með auknum húsakosti eins og á Vífilsstöðum og er fullur vilji til þess. En það er öllu verra að þessar eignir hafa ekki verið afhentar Byrginu enn, þó varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins hafi 30. apríl síðastliðinn afhent forsvarsmönnum Byrgisins bréf þess efnis, að þeir skuli vera farnir frá Rockville eigi síðar en 1. júní næstkomandi.

Í þriðja lagi hefur félagsmálaráðuneytið eingöngu lagt fram tillögu að samningi fyrir forsvarsmenn Byrgisins sem byggist á úttektarskýrslu sem ráðuneytið lét Aðalstein Sigfússon gera. Í henni var reikningsskekkja sem forsvarsmenn Byrgisins hafa komið með leiðréttingu og breytingatillögu á, en þeim hefur ekki verið svarað enn og þar af leiðandi er ekki búið að ganga frá rekstrargrundvelli starfseminnar til framtíðar.

Þegar þetta er ritað er 1. maí og því miður ekki sá dagur hátíðarhalda sem vistmenn og forsvarsmenn vonuðust til. Það er enn rúm vika til stefnu fyrir sitjandi ríkisstjórn landsins að standa við gefnar viljayfirlýsingar og koma þeim í framkvæmd. Það er nefnilega tvennt ólíkt að vilja og að framkvæma. Ef Kristinn H. Gunnarsson kallar þetta að „að standa að fullu við fyrirheit“, þá hefur hann annan skilning á því en ég.

Ánægjulegt er að Kristinn er sammála Ásthildi um að það megi gera betur. Ég er honum sammála um það.

Virðingarfyllst.

– Jón Arnarr, ráðgjafi.

Byrgið, kristilegt líknarfélag

Sjá fyrri greinar í þessari rökræðu:

bb.is 02.05.2003
Ásthildur Cesil Þórðardóttir: Litlu verður Vöggur feginn – lokasvar til Kristins H. Gunnarssonar

bb.is 30.04.2003
Kristinn H. Gunnarsson: Lokasvar til Ásthildar Cesil Þórðardóttur: Framsókn til framfara

bb.is 26.04.2003
Ásthildur Cesil Þórðardóttir: Betur má ef duga skal

bb.is 22.04.2003
Kristinn H. Gunnarsson: Staðið við fyrirheitin

bb.is 19.04.2003


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi