Grein

Pétur Bjarnason.
Pétur Bjarnason.

Pétur Bjarnason | 01.05.2003 | 12:14Úrillur Kristinn H.

Undanfarið hefur íhaldið endurvakið hræðsluáróðurinn sem beitt var óspart fyrir síðustu kosningar: Að tillögur Frjálslynda flokksins í sjávarútvegsmálum væru hættulegar þeim fáu stórútgerðum sem enn finnast í Norðvesturkjördæminu. Gott ef þær ættu ekki að vera komnar á hausinn strax í haust! Á sama tíma skammast Kristinn H. yfir tillögunum, en á allt annan veg. Hann telur Frjálslynda flokkinn sérstakan vin stórútgerðarinnar og hefur allt á hornum sér.
Kjósandi góður – hvort tveggja er alrangt!

Hið rétta er, að tillögur Frjálslynda flokksins stefna alls ekki að því að rústa útgerð eða fiskvinnslu í landinu, heldur þvert á móti að eflingu þeirra. Við viljum taka skrefin í áföngum og byrja á því sem byggðunum kemur best, efla strandveiðar og vinnslu í landi.

Við munum afmarka stærsta útgerðarflokkinn, þar sem eru frystitogarar og nóta- og flotvörpuveiðiskip, og hindra að hann geti náð til sín frekari heimildum úr öðrum flokkum eða aukið kvóta sinn á kostnað þeirra. Þessi skip veiða m.a. úr sameiginlegum stofnum þjóða í Norður-Atlantshafi og eru því að hluta háðir alþjóðlegum kvótum. Lesa má nánar um þetta á heimasíðu okkar: www.xf.is

Ef einhver hætta steðjar að þeim sem starfa hjá stóru fyrirtækjunum, þá er hún frekar fólgin í því að þau flytji einn góðan veðurdag úr plássinu. Næg eru dæmin, því enn á ný hóta eigendur fyrirtækja að flytja úr héraði ef kvótabraskið verður stoppað. Við í Frjálslynda flokknum vöruðum við því fyrir síðustu kosningar að Básafell á Ísafirði kynni að riða til falls. Það var hlegið að okkur en menn sjá nú hvað varð um Básafell.

Þegar Þorbjörn hf. tók við rekstri í Bolungarvík sagði Matthías Bjarnason í viðtali: „Ég vona bara að Grindvíkingar verði Bolvíkingum góðir.“ Raunin varð önnur eins og menn þekkja. Dæmin eru mýmörg og sorgleg.

Kristinn H. og Magnús Stefánsson leiðtogi hans hafa nú auglýst nýjan óskalista Framsóknarflokks, þar sem eina úrræðið í sjávarútvegsmálum er aukinn byggðakvóti, ölmusustýring stjórnvalda, sem lofa einstaklingum viðbót í kvóta gegn stuðningi við valdhafa.

Fyrir síðustu kosningar sýndi Kristinn þó lit á að lofa kjósendum ýmsu í bæklingi sínum, sem hann dreifði um Vestfirði (og enn er til). Honum gekk samt ekkert að efna loforðin, því Vestfjarðabæklingurinn hefur að líkindum lent í tætaranum hjá Halldóri formanni fljótlega, eða um það leyti sem steinbíturinn var settur í kvóta, þrátt fyrir yfirlýsingar Kristins. Hann ætlaði að stöðva brottkast, skattleggja söluhagnað á kvóta, lækka verð á aflaheimildum og jafna skilyrði sjó- og landvinnslu. Hann vildi líka endurskoða lögin, einkum framsalið. Hann sá enga ástæðu til að setja steinbít í kvóta.

Þessi vilji Kristins, hafi hann raunverulega verið fyrir hendi, hefur nú verið kæfður undir kvótasvuntu framsóknarmaddömunnar, enda er Magnúsi leiðtoga hans ekki gefið um loforð af þessu tagi, hvað þá efndir, því hann blessar kvótann í bak og fyrir hvar sem hann kemur því við.

Þá minnast Vestfirðingar þess að þeir nafnar, K. Guðfinnsson & Oddur, hafa ávallt síðustu viku fyrir kosningar komið með loforð af margvíslegasta tagi, sem þó eiga það sammerkt að efndir hafa orðið litlar eða engar. Nú er að bíða og sjá.

Allar breytingar taka tíma, ekki síst ef breyta þarf lögum. Því er ekki að vænta, að þegar eftir kosningar muni öllu verða umbylt á einni nóttu. Ýmislegt er þó hægt að gera með einfaldri ákvörðun sjávarútvegsráðherra: Það er t.d. hægt að aflétta kvóta á steinbít, ýsu, ufsa og fleiri tegundunum sem ekkert hafa í kvóta að gera. Það eitt gæti munað strandveiðimenn og vinnsluna í landi miklu.

Ágætu kjósendur. Látum ekki hræðsluáróður hafa áhrif á skoðanir ykkar. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa brugðist byggðunum og fólkinu á landsbyggðinni. Sendum þeim skýr skilaboð með því að hafna þeim í þessum kosningum.

– Pétur Bjarnason.

Höfundur skipar 4. sætið á lista Frjálslynda flokksins í Norðvesturkjördæmi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi