Grein

Hlynur Snorrason.
Hlynur Snorrason.

| 29.12.2000 | 10:59Er gauragangur í Grunnskólanum á Ísafirði?

Jú, það var víst gauragangur í nokkra daga í þessum ágæta skóla, aldrei þessu vant. Fyrir þá sem ekki vita hvað ég er að tala um, þá var leikritið Gaura-gangur eftir Ólaf Hauk Símonarson sett upp í félagsmiðstöð Grunnskólans á Ísafirði. Frumsýningin var þann 1. desember, auk nokkurra sýninga dagana á eftir.
Ég var einn af þeim heppnu sem komst á sýningu, líklega þá næstsíðustu. Mér fannst virkilega gaman að sjá fjóra af fyrrum nemendum skólans, þau Ásrúnu Jakobsdóttur, Brynjar Má Brynjólfsson, Herdísi Önnu Jónasdóttur og Þórunni Örnu Kristjánsdóttur taka að sér leikstjórnina. Vissulega hafa þessir krakkar komið nálægt leiklistinni áður, en ég hygg að þau hafi ekki mikla reynslu af leikstjórn. Þau fá frábæra einkunn fyrir sinn þátt í þessari uppfærslu. Það hlýtur að hafa verið mikil vinna á bak við svona verk. Til hamingju ágætu leikstjórar og haldið áfram á þessari braut.

Það eru greinilega margir sem koma að sýningunni, auk fjögurra leikstjóra voru a.m.k. 13 manns í hlutverkum ljósameistara, ljósamanna, útsetjara tónlistar, hljóðmanns, leikmyndahönnuða, förðunarmeistara, sviðsstjóra og leiktjaldameistara. Þá á eftir að telja upp leikarana sjálfa sem voru alls 52 talsins, að því er mér sýndist.

Mér er það ljóst að nemendur Grunnskólans á Ísafirði eru upp til hópa mjög þroskaðir og vel gerðir, en ekki óraði mig fyrir því að þeim tækist svo afbragðsvel að leysa þetta viðamikla verkefni.

Leikararnir stóðu sig með mikilli prýði. Ég tók eftir því að þeir lögðu mikla alúð í leik sinn og sönginn, sem var stór þáttur í leikritinu. Mér skildist á sumum leikurunum, eftir sýninguna, að ýmis smámistök hefðu orðið á þessari sýningu, hún hefði ekki verið eins góð og hinar fyrri. Ég verð að segja að ég varð ekki mikið var við slíkt, þeim tókst greinilega að fela það vel fyrir áhorfendum. Það eina sem ég gat fundið að var að mér fannst stundum eins og tónlistin yfirgnæfði söng leikaranna, nema þegar allir sungu saman. Það var virkilegur kraftur í því og unun að hlusta á.

Það var fín lausn á leikmyndinni. Aðstæður voru kannski ekki eins og best getur talist, en leikmyndinni var mjög haganlega fyrir komið að mínum dómi.

Krakkar – þið getið gert mikið úr litlu. Það er kostur.

Það væri of langt mál að fara að rekja leik hvers og eins leikara. Ég get sagt að bæði aðalleikararnir og þeir sem höfðu minna hlutverk stóðu sig með miklum ágætum og eiga lof skilið fyrir leikinn. Ég er stoltur af ykkur leikurum, leikstjórum og öðrum þeim er tóku þátt í þessari uppfærslu. Ég hvet ykkur til frekari dáða, hvert og eitt.

Kærar þakkir fyrir mig.
Hlynur Snorrason.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi