Grein

Gunnar Þórðarson.
Gunnar Þórðarson.

Gunnar Þórðarson | 30.04.2003 | 10:49Frjálslyndir og kvótakerfið

Oft er því haldið fram í umræðum um sjávarútvegsmál að þjóðin eigi ekki auðlindina. Þetta er lýðskrum og einfalt að sýna fram á það, enda þessar umræður allar til lítils ef svo væri. Þjóðin á auðlindina og hefur rétt á að gera það sem henni þóknast við hana. Hún hefur hins vegar falið útgerðinni nýtingarréttinn á henni. Er það ekki eðlilegt og sjálfsagt? Trúa Vestfirðingar því að málum væri betur komið ef ríkisstjórnin hefði nýtingarréttinn og útdeildi honum (sunnan úr Reykjavík) til þeirra sem henni væru þóknanlegir?
Stefna Frjálslynda flokksins í sjávarútvegsmálum vekur mér ugg í brjósti. Ekki aðeins eru tillögur þeirra illa ígrundaðar heldur eru þær óraunhæfar og til þess fallnar að slá ryki í augu kjósenda.

Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. er dæmi um fyrirtæki sem færi mjög illa út úr hugmyndum Frjálslyndra, næðu þær fram að ganga. Að vísu má skilja á tillögum þeirra að ekki verði hróflað mikið við veiðum frystitogarans Júlíusar Geirmundssonar (annað en að ekki má færa á hann meiri veiðiheimildir en hann er skráður fyrir í dag), en annað er uppi á teningnum hvað varðar aðra togara útgerðarinnar. Páll Pálsson, Framnesið, Stefnir og Andey verða nokkur skonar utangarðsskip og fá veiðidaga með miklum takmörkunum, þangað til línuskipum myndi fjölga, en þá yrði þeim ýtt út úr kerfinu.

Verði fyrningarleið Frjálslyndra farin, þá verða færðir fjármunir frá Ísafjarðarbæ til ríkisins, bótalaust, fyrir 2,6 milljarða króna á ári næstu fimm árin, miðað við 700 krónur á þorskígildistonn. Það eru samtals um þrjár milljónir króna á hvern íbúa bæjarins. Öflugt og vel rekið fyrirtæki eins og HG verður sett á vonarvöl, og er sjálfsagt þegar í vandræðum vegna þeirrar óvissu sem greinin er sett í með ábyrgðarlausum og lítt ígrunduðum hugmyndum.

Trúir því einhver að hægt sé að færa einhverjum eitthvað í þessu fiskveiðikerfi, án þess að taka það af öðrum? Hvernig í ósköpunum á það að vera hægt? Ef það er ekki hægt, hverjum á þá að fórna? Það er einna helst að skilja að taka eigi allt af ísfisktogurunum og setja yfir á línubáta og trillurnar. Eitt er víst, að togarasjómenn koma til með að lifa við mikið atvinnuóöryggi ef þessar hugmyndir ná fram að ganga.

Tökum dæmi af Páli Pálssyni, en undanfarið hefur verið mikil steinbítsgengd hér rétt fyrir utan og hefur það skapað hásetum um borð hlut upp á rúma milljón á mánuði. Hvað ef tilllögur Frjálslynda flokksins ná fram að ganga?

Í stefnuskrá flokksins segir: „Hér mætti hugsa sér að þessi skip yrðu á ákveðnum svæðum innan lögsögunnar og í ákveðinni fjarlægð frá landi, eða veiddu undir [hlýtur að vera prentvilla] ákveðnu botndýpi.“

Semsagt, ef Frjálslyndir ná sínu fram, þá þarf fulltrúi útgerðarinnar framvegis (meðan ekki hafa bæst við línuveiðskip í 3. flokkinn og Páll Pálsson verður ennþá með veiðileyfi) að hringja til Reykjavíkur til að fá veiðileyfi fyrir steinbít, því að hann veiðist sannarlega á ákveðnu dýpi og í ákveðinni fjarlægð frá landi. Og hver verður til svara? Hver hjá ríkinu í Reykjavík á að taka slíkar ákvarðanir? Slík úthlutun myndi að sjálfsögðu byggjast á réttlæti og því vera gerð í mikilli sátt við íbúana. Svona svipað eins og með úthutun byggðakvótans í Ísafjarðarbæ undanfarin misseri.

Brottkast og færeyska leiðin

Stefnuskráin tæpir líka á brottkasti og kennir þar kvótakerfinu um. Þegar ég var sjómaður á Páli Pálssyni (árin 1977-1981) var okkur ítrekað gert að klæða pokann til að ná smáýsu og henda fiski í verulegum mæli. Ekki var kvótakerfi fyrir að fara í þá daga en skipstjórinn um borð var enginn annar en Guðjón Arnar Kristjánsson og varð hann að viðurkenna athæfið í sjónvarpi á dögunum. Efir að hafa tekið upp í 60 tonna hal í flotroll hrúguðum við fiski á millidekkið og tróðum honum óísuðum ofan á kassastaflana í lestinni. Allt var þetta þriðja flokks hráefni þegar í land var komið en slíkt er því miður fylgifiskur sóknarkerfis.

Eins og áður er nefnt, þá rennir Frjálslyndi flokkurinn hýru auga til færeysku leiðarinnar. Þeir eru er líka á móti framsali veiðiheimilda. Það skrýtna við þetta allt saman er að færeyska leiðin byggir einmitt á frjálsu framsali svo greinin geti þróast. Meira að segja á milli skipaflokka, en á því eru hömlur hér. Þetta hefur bara farið fram hjá frambjóðendum flokksins. Hins vegar segir í stefnuskrá þeirra að allir íslenskir ríkisborgarar fái leyfi til að róa með tvær handfærarúllur hver, óháð veiðileyfum. Má þá fimm manna fjölskylda róa með tíu rúllur? Hvað með aðra íbúa á hinu Evrópska efnahagssvæði?

Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi