Grein

Sverrir Pétursson, útgerðarstjóri HG.
Sverrir Pétursson, útgerðarstjóri HG.

Sverrir Pétursson | 29.04.2003 | 11:01Kvótakerfið og kosningar

Í allri umræðunni um sjávarútvegsmál fyrir þessar kosningar hafa að mínu mati aðalatriðin lítið verið rædd. Af öllum fiskveiðiþjóðum hér við Norður-Atlantshafið erum við eina þjóðin sem ekki býr við ríkisstyrktan sjávarútveg í einhverri mynd. Búseta okkar hér er háð því að sjávarútvegur skili okkur arði. Við eigum í harðri samkeppni við þessar þjóðir á mörkuðum um allan heim og hún á eftir að verða erfiðari í framtíðinni þar sem þessar þjóðir eru að bæta sinn sjávarútveg.
Ef við viljum búa við velmegun og gott velferðarkerfi verðum við að afla tekna til að standa undir því. Það verður aðeins gert með því að hafa hagkvæmni að leiðarljósi í sjávarútvegi. Við eigum ekki að skekkja samkeppnisstöðu milli útgerðarflokka eða byggðarlaga þannig að öðrum sé gert hærra undir höfði með sértækum aðgerðum eins og byggðakvótum, línuívilnun, svæðalokunum o.fl. heldur láta hagkvæmnina ráða. Við verðum að afla sem mestra verðmæta með minnsta mögulega kostnaði.

Þetta gerum við best með því að vita fyrirfram hvað við megum taka mikið úr hverri tegund og skipuleggja svo hvenær við tökum aflann þannig að henti bæði vinnslu, veiðanleika og markaði. Með framsali kvóta er svo hægt að sérhæfa sig í ákveðnum tegundum, láta frá sér tegundir sem henta ekki en auka við sig í öðrum. Hægt er að útbúa skipin með þessa sérhæfingu í huga svo að gæði og verð afurða verði sem mest. Þessa þróun höfum við séð undanfarið og eigum vonandi eftir að sjá meira af í framtíðinni. En það er þó háð því að okkur auðnist að halda núverandi kerfi lítið breyttu.

Auðlindagjald og fyrningarleið

Sumir flokkar hafa boðað, að komist þeir til valda í vor muni þeir fara svokallaða fyrningarleið, þar sem rétturinn til veiða er tekinn af útgerðinni á einhverju tímabili og látinn til þeirra aftur að hluta gegn gjaldi. Þetta þýðir í raun auknar álögur og óvissu sem gengur gegn hagkvæmni í sjávarútvegi. Við höfum skattkerfi sem er fullkomlega fært um að skattleggja greinina.

Sóknarstýrð kerfi

Í sóknarstýrðu kerfi er markmiðið að veiða sem mest á sem skemmstum tíma. Það þarf engum að blandast hugur um hvaða áhrif það hefur á gæði hráefnis. Mun erfiðara verður að uppfylla óskir kaupenda um afhendingu afurða. Menn hafa álitið að þetta væri svar við brottkasti, en við höfum reynsluna frá fyrri árum þar sem veiðar og afköst í vinnslu fóru ekki saman, með þeim afleiðingum að brottkast átti sér stað.

Byggðakvótar

Við höfum reynslu af byggðakvóta. Skemmst er að minnast kæru Flateyringa og Súgfirðinga til Samkeppnisstofnunar vegna úthlutunar til Þingeyrar. Getur það verið hagkvæmt að láta pólitískt kjörna fulltrúa deila út aflaheimildum til útgerða?

Svæðistakmörk fyrir ákveðna útgerðarflokka

Báðir bolfisktogarar Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. veiða stóran hluta af þorsk- og ýsuafla sínum á grunnslóð. Ef Frjálslyndi flokkurinn fær sínu framgengt bresta forsendur fyrir útgerð þessara skipa.

Allar auknar álögur á sjávarútveginn rýra möguleika hans til framþróunar, hvort heldur varðar framleiðslu, markaðsmál eða framfarir í fiskeldi. Sterkur sjávarútvegur getur laðað til sín vel menntað fólk í hálaunastöður.

Ég tel að með lítið breyttu kvótakerfi sé hagkvæmnin best tryggð í framtíðinni. Mér finnst menn oft rugla saman kvótakerfinu og ákvörðun um heildarafla. Kvótakerfið er tæki til að stjórna því að ekki verði tekinn meiri afli úr stofni en ákveðið hefur verið. Ég held að okkur hefði verið óhætt að taka meiri afla sum árin, en það hefur þá með ákvörðun sjávarútvegsráðherra að gera en ekki kvótakerfið sem slíkt.

– Sverrir Pétursson,
útgerðarstjóri Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi