Grein

Ásthildur Cesil.
Ásthildur Cesil.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir | 26.04.2003 | 14:20Betur má ef duga skal

Minn ágæti Kristinn H. Gunnarsson, ekki ætla ég að fara að rengja þig um tölurnar. Svo það mun rétt vera að ríkið hafi lagt þessa peninga til. Þá er það mál líka upplýst hér með. En það breytir ekki því, að árangurinn er ekki ásættanlegur, frá mínum bæjardyrum séð. Þú nefnir VáVest-hópinn. Ég þekki svolítið inn á þá starfsemi og auðvitað hafa þeir peningar komið sér vel sem settir voru þar. En þessi starfsemi hefði aldrei komist á koppinn nema fyrir þrautseigju, dugnað og óeigingjarna sjálfboðavinnu hóps fólks, með Hlyn Snorrason í fararbroddi, svo að þeir peningar eru frekar umbun fyrir vel unnin störf.
Varla ertu sáttur með aðstæður Barna- og unglingageðdeildar. Ég veit ekki betur en sú starfsemi sé sífellt í fréttum vegna hrikalegrar stöðu, þar sem mánaða- eða jafnvel áralangar biðraðir eru á greiningardeild og meðferð. Þið komuð á fót Skjöldólfsstöðum, en var ekki Tindum lokað um svipað leyti?

Það þarf kannski að skoða betur, þegar svona miklum fjármunum er úthlutað, hvað er að virka og hvað ekki. Eða, minn kæri, kannski þarf einfaldlega meiri peninga. Ég vil samt taka það skýrt fram, að ég er ekki að reyna að rífa niður neitt sem vel er gert. Ég er bara að benda á, að þrátt fyrir allt er árangurinn ekki að skila sér, því miður. Það er aðalmálið, og það er auðvitað best að skoða þau mál með opnum huga.

Byrgið

Þegar þú kemur að Byrginu missir þú þig alveg, blessaður karlinn. Varðandi Byrgið, þá er það alveg rétt að ég ræði mikið um það og vitna í starfsmenn. Hafa þeir ekkert að segja í málinu? Ég er kannski sjálfskipaður talsmaður til að vekja athygli á því sem mér finnst óréttlæti. Þessi bréfaskrif byrjuðu jú vegna þess að mér ofbauð það sem ég heyrði í fréttum útvarpsins. Þá voru fréttirnar það eina sem ég hafði í höndunum. En ég sendi Byrgismönnum greinina til aflestrar áður en ég sendi hana í blaðið, vegna þess að ég vildi fá staðfestingu á því að ég færi með rétt mál.

Þekki málið á eigin skinni

Ég skal segja þér, að ég vildi í fyrrasumar koma mínu afkvæmi inn í Byrgið, og reyndar fleiri staði. En þá voru fjármálin í öngþveiti og það var þess vegna ekki mögulegt. Ég varð þá vör við áhyggjur þeirra. Svo í vetur fara að koma fréttir, fyrst að þeir fái ekki að vera áfram í Rockwille og síðan koma fréttir um að ríkið ætli að kaupa húsnæði fyrir starfsemina. Þá kemur næst að búið sé að loka fyrir rafmagnið og það verði að útskrifa fólkið. Síðan kemur frétt um að ríkið hafi greitt rafmagnið. Og svo kemur það fram að ríkið hafi keypt húsnæði sem hentar ekki starfseminni. Þú fyrirgefur, Kristinn H. Gunnarsson, en þetta kalla ég að kasta til höndunum.

Kaupin

Starfsmenn Byrgisins fóru að skoða Efri-Brú, fengu víst aðeins að skoða hluta eignanna. En niðurstaðan er eftir sem áður sú, að Byrgismenn voru ekki ánægðir með þessa ráðstöfun og vildu heldur að keyptir yrðu Brjánsstaðir.

Guðmundur segir mér líka að Ólafur Ólafsson fyrrum landlæknir hafi komið í Byrgið mörgum sinnum í mánuði að líta til með vistmönnum. Einnig benti hann á að Byrgið hefði verið á fjárlögum hjá ríkinu síðastliðin fjögur ár, svo það er ekki nýmæli. Einnig tjáði hann mér að Byrgið sé mjög skuldsett vegna uppbyggingar Rockwille. Húsnæðið sem ríkið bauð þeim sem þakklætisvott fyrir mikið og gott starf á götum borgarinnar. Húsnæðið sem nú á að rífa.

Þú fyrirgefur mér þótt mér finnist ráðslagið ekki gott í þessu máli. Og ekkert sem þú sagðir hefur hrakið það að möguleiki sé á að semja um framtíð Byrgisins í Rockwille.

Hvað varðar pólitíkina, þá er minn pólitíski ferill bæði stuttur og rýr. Ég ákvað á gamals aldri að hætta að röfla inni í eldhúsi og taka slaginn. Fara að leggja mitt af mörkum til að vekja athygli á þeim málum sem brenna á mér og mörgum öðrum. Það eru m.a. þau meðferðarúrræði sem bjóðast. Ég hef reyndar skrifað margar greinar um þau mál gegnum tíðina. Ég tel að stefna stjórnvalda sé ekki rétt í fíkniefnamálum og aðstoð við óhreinu börnin hennar Evu. Ég legg nefnilega meira upp úr fólkinu á bak við tölurnar en tölunum sjálfum. Og ég er viss um að Matthías Bjarnason, sú ágæta kempa, er bara ánægður með mig. Hann var aldrei að skafa utan af hlutunum og vildi að málin væru sögð eins og þau eru.

Ein spurning í lokin. Mig langar til að spyrja þig: Getur þú sagt mér hvort það sé rétt sem ég hef heyrt að Ferðaþjónustan á Efri-Brú hafi keypt Brjánsstaði og hafi verið að flytja þar inn um páskana? Skrítin tilviljun, ekki satt?

Með vinsemd og virðingu.

– Ásthildur Cesil Þórðardóttir, Ísafirði.


<


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi