Grein

Guðni Einarsson.
Guðni Einarsson.

Guðni Einarsson | 23.04.2003 | 16:19Fiskað í kálgörðum? – Svarbréf til Víðis Jónssonar skipstjóra

Þann 16 apríl sl. ritar ágætur kunningi minn, Víðir Jónsson skipsstjóri á Kleifabergi ÓF grein á bb.is um veiðar í kálgörðum. Mér finnst greinin að mörgu leiti góð en þar sem að mín orð virðast hafa orðið tilefnið að henni langar mig til að koma eftirfarandi á framfæri. Þetta litla skot í sjónvarpinu var nú ekki þess eðlis að hægt væri að gera tæmandi grein fyrir skoðunum sínum og síst þegar litla hjartað lætur nú eins og það lét þegar fram fyrir sjónvarpsmyndavél er komið og tíminn sem maður hefur er aðeins hálf mínúta.
Við Víðir Jónsson byrjuðum um svipað leiti til sjós eftir að hafa beðið eftir því mjög svo óþreyjufullir á bryggjusporðinum að verða gjaldgengir um borð í bát. Ég tel því að við séum mjög svo af sömu rót sprotnir En leiðir skyldu fljótlega þar sem hann fór yfir á togara þegar ég hélt mig við önnur veiðarfæri. Nokkrum sinnum höfum við Víðir rætt mál tengd sjávarútvegi þó oftast hafi það snúist upp í að segja aflafréttir og aðrar skemmtilegar sögur. Eitt er ég alveg viss um. Hann hefur aldrei heyrt mig hallmæla togurum eða halda því fram að þeir eigi ekki rétt á sér. En það gæti verið að hann hafi heyrt mig tala um að leikreglurnar mættu vera öðruvísi. Ég gat til dæmis aldrei sætt mig almennilega við það að vera ýtt út af svæði sem ég var búinn að stunda í marga daga á línuveiðum bara af því að eitthvern langaði til að toga yfir svæðið. Og ég held að alla mína skipsstjóratíð hafi verið mikill skilningur á þessu hjá allflestum togaraskipstjórum, þar með talinn umræddur Víðir,enda átti ég mjög góð samskifti við þá flesta og tapaði aldrei línu í togara svo heitið gæti. En önnur dæmi eru líka til eins og Víðir veit.

Víðir gerir mér upp þá skoðun að ég vilji alla togara út fyrir 30 eða 50 mílur. Víðir tiltekur sjálfur að skipið sem hann er með hafi fiskað rúm 6000 tonn á síðasta ári og ég óska honum til hamingju með það. Hann upplýsir einnig að aðeins lítill hluti af þessu magni sé tekinn á grunnslóð. Það er akkúrat þetta sem ég var að gera athugasemdir við í umræddum sjónvarpsþætti. Að svona skip eins og hann stjórnar skjótist upp undir tólf mílurnar á valda bletti og hreinsi þá og eftir sitjum við sem dæmdir höfum verið til að bjarga okkur á sex tonna hornum og þurfum þá annað hvort að sækja ennþá lengra eða sitja heima og gera ekki neitt, eða þá, koma okkur í burtu og reyna fyrir okkur annarsstaðar.

Þessar veiðar frystitogara á grunnslóð skipta ekki höfuðmáli fyrir þá. Ég veit að Víðir er svo mikill ákafamaður, og það eru allir þeir sem hafa unnið sig upp í sambærilegar stöður, að hann heldur sig þar sem hann telur að mest aflist svo framarlega að það er leifilegt. Ef það væri opið upp á fjórar mílur þá færi hann þangað sbr. um 1990 þegar ég taldi 36 togara út um eldhúsgluggann hjá mér en þá var opnað ýsuhólf uppá 4 mílur. Og ef það er fiskirí á fjarlægum miðum þá fer hann þangað. Þetta eru nú kostir frystitogarans að geta hreift sig þangað sem best aflast. Ég tel því að reginmunur sé á því hvort verið er að tala um frystiskip eða skip sem eru að afla hráefnis til vinnslu í landi burtséð frá veiðarfærum. Við höfum upplifað það hér í Súgandafirði að frystitogari hefur legið í fjarðarkjaftinum í aðgerð, og skotist svo út í Nesdýpið og sótt sér í vinnsluna tvisvar á sólarhring. Á meðan var frystihúsið hráefnislaust af því að smábátar komust ekki á sjó vegna kvótaleysis og veðurs.

Ég vil halda því fram að á meðan ekki er til nægur fiskur á grunnslóð fyrir vinnslu í landi, þá sé hann ekki til skiptanna fyrir frystiskip, hvaðan sem þau koma. Þetta er sama staða og um 1970 þegar við höfðum útlendinga hér á miðunum en þá bar okkur gæfa til að standa saman um að reka þá í burtu. Og ég skal ekki hafa á móti því að frystiskip fái forgang í ýmsum veiðum. Við erum að sjá stórkostlegan árangur hjá okkar glæsilegu frystiskipum í ýmsum greinum, og við skulum nefna nokkur dæmi, veiðar og vinnsla á uppsjávarfiski ýmiskonar þar sem eru hellings möguleikar ónýttir, karfi þar með talinn úthafskarfi, grálúða, þorskur,ufsi og ýsa á djúpslóð, rækja og fl og fl.

Mín skoðun er því sú að þetta eigi þeir að nýta og verði að láta sér nægja þangað til að sú slóð sem hægt er að nýta frá landi gefur það mikið af sér að eitthvað sé til skiptanna fyrir aðra.

Um annað það sem kom fram í grein Víðis get ég verið sammála og auðvitað eiga allir sjómenn að virða hvers annars rétt. Ég vil að lokum óska honum alls hins besta og vona að allt gangi honum í haginn.

Guðni A.Einarsson, Suðureyri.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi