Grein

Jón Fanndal Þórðarson.
Jón Fanndal Þórðarson.

| 21.12.2000 | 15:11Er þeim treystandi?

Áður en haninn galar tvisvar munt þú afneita mér þrisvar, sagði Jesú Kristur við Pétur postula í garðinum Getsemane nóttina fyrir krossfestinguna. Sveitarstjórnarmenn eru í samningum við ríkið um sölu Orkubús Vestfjarða. Okkur var lofað að við fengjum að fylgjast með gangi viðræðna og að nokkur tími mundi líða þar til endanleg ákvörðun yrði tekin um sölu eða ekki sölu.
Þessu viljum við trúa í lengstu lög. Þó hvarflar að ýmsum að ákvörðun um sölu sé þegar tekin og við andófsmenn verðum sviknir. Vonandi eru þetta getgátur sem eiga ekki við rök að styðjast.

Stjórnarformaður Orkubúsins hefur lýst yfir fullum stuðningi við sölu og er það furðulegt þegar stjórnarmaður í einu fyrirtæki leggur sig í líma til að leggja niður fyrirtæki, sem honum er trúað fyrir að leiða. Ef stjórn Orkubúsins er ekki sama sinnis og formaðurinn ætti hún að reka hann á stundinni. Hann var örugglega ekki ráðinn með það vegarnesti að farga fyrirtækinu. Þetta minnir mann óneitanlega á, þegar Hörður Sigurgestsson þáverandi forstjóri Eimskips varð formaður í Pólstækni, einungis til að leggja það góða vestfirska fyrirtæki niður vegna samkeppninnar við Marel.

Þáttur forseta bæjarstjórnar

Forseti bæjarstjórnar, Birna Lárusdóttir, segist vera orðin leið á að binda á sig gatslitna skó en líkir söluandvirði Orkubúsins við nýja sóla sem hún gæti gengið á AÐEINS LENGUR en tekur jafnframt fram að ekki sé hægt að lofa VARANLEGRI LAUSN. Ef hún nennir þessu ekki lengur, þá getur hún sagt af sér. Það ættu fleiri að gera sem eru í svipuðum hugleiðingum. Það er engin skömm að því undir þessum kringumstæðum.

Slíkt hefur áður gerst við svipaðar aðstæður. Það var árið 1662 við erfðahyllinguna í Kópavogi. Báðir lögmenn Íslands sögðu af sér til að þurfa ekki að skrifa undir erfðahyllingu til einvaldskonungsins Friðriks III og afsala sér jafnframt fornum þjóðréttindum. Árni Oddsson, virtasti lagamaður landsins, var samt fenginn til að draga afsögn sína til baka en skrifaði grátandi undir ásamt Brynjólfi biskupi Sveinssyni en danskir dátar beindu að þeim gapandi byssukjöftum á meðan.

Nú er ekki beint byssukjöftum að sveitarstjórnarmönnum en Henrik Bjelke nútímans setur á þá þumalskrúfur í nafni Jöfnunarsjóðs og herðir að. Munurinn er ekki annar en sá, að í stað gapandi byssukjafta er það þumalskrúfa og nú er það ekki danskt vald heldur íslenskt vald sem heldur á vopninu.

Forseti bæjarstjórnar vefengir undirskriftasöfnunina þar sem hátt í þúsund manns skrifuðu undir mótmæli við sölu Orkubúsins. Hún heldur því fram, að fólk hafi ekki verið að mótmæla sölu Orkubúsins heldur hvernig fénu yrði varið sem fyrir það kæmi. Vitnar hún í yfirskrift undirskriftalistanna. Þetta er hártogun og móðgun við þann fjölda fólks, sem skrifaði undir, og lítilsvirðing við lýðræðið.

Vestfjarðadúsan

Það vita allir, að hugsanleg kaup ríkisins á Orkubúinu er dulbúin Vestfjarðaaðstoð einu sinni enn. Hin nýja Vestfjarðaaðstoð gengur undir nafninu Vestfjarðadúsan. Hún er dulbúin leið til að koma nokkrum milljónum inn í galtóma sveitarsjóðina, nokkurs konar neyðaraðstoð, þar sem sveitarsjóðirnir eru að komast í þrot og eru þegar komnir í þrot. En nú er hin nýja Vestfjarðaaðstoð háð þeim skilyrðum, að ríkið fái afhentar eignir viðkomandi sveitarfélaga ef einhverjar eru. Hvað um þau sveitarfélög sem engar eignir eiga? Þau fá eflaust enga aðstoð. Væri nú ekki nær að hætta að taka brauðið frá börnunum og kasta því fyrir hunda?

Þingmenn Íslands, þið sem öllu ráðið og öllu stjórnið með þeim lögum og reglugerðum sem þið setjið okkur fólkinu í landinu, þið hafið með gerðum ykkar svipt fólkið lífsbjörginni, eignunum og kosningaréttinum. Og ekki síst voninni sem ykkur er að takast að hafa af fólkinu líka og þá er fokið í flest skjól. Mikil er ábyrgð ykkar.

Við erum að aðstoða vanþróuð ríki úti í heimi. Aðstoðin byggist yfirleitt á því að gera fólkinu kleift að hjálpa sér sjálft. Hér er öðruvísi háttað. Hér erum við svipt lífsbjörginni, sem við höfum lifað á í 1000 ár. Síðan er stungið upp í okkur dúsu til að deyfa sárustu hungurverkina.

Aðförinni að landsbyggðinni má líkja við það, að skera mann á háls aftan frá með bitlausum hníf. Þetta er seigdrepandi, sársaukafull og ómannúðleg aðferð en endar að sjálfsögðu með því að manninum blæðir út.

Eina leiðin sem virkarTil baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi