Grein

Gísli Einarsson.
Gísli Einarsson.

| 21.12.2000 | 15:03Skuldajöfnun með hlut í Orkubúi Vestfjarða?

Í nýsamþykktum fjárlögum fyrir árið 2001 var sett inn heimildargrein á síðustu klukkutímum fyrir þriðju umræðu um að heimilt væri að semja til bráðabirgða um að Vesturbyggð seldi hlut sinn í Orkubúi Vestfjarða.
Þegar lögin um Orkubúið eru skoðuð er það ljóst að ekki er unnt fyrir einhvern af eignaraðilum að selja sinn hlut í Orkubúinu án samþykktar annarra eignaraðila. Þannig mun þessi aðgerð ekki renna í gegn án athugasemda þeirra sem eiga aðild að eigninni. Mér sýnist blasa við að það sé verið að opna fyrir þann möguleika að vegna erfiðrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins sé verið að ná fram einhvers konar skuldajöfnun við ríkið vegna félagslega húsnæðiskerfisins. Þetta lítur út sem einhvers konar þvingunaraðgerð í mínum augum. Það á að reyna að ná eignarhlut sveitarfélagsins og lækka þannig skuldir þess með því að ríkið nái til sín einum arðbærasta bitanum sem það hefur til umráða, en vandinn vegna félagslega húsnæðiskerfisins verður eftir sem áður hjá sveitarsjóði.

Þetta tel ég ekki ásættanlegt. Ég tel að ríkið/félagsmálaráðherra verði að ganga til samninga við Samtök sveitarfélaga um heildarlausn fyrir allt landið um þetta stóra vandamál sem félagslega húsnæðiskerfið er í þeim byggðum sem fólksfækkun hefur orðið vegna aðgerða ríkisstjórnar, m.a. vegna framkvæmdar fiskveiðistjórnarkerfisins. Það er gjörsamlega óásættanlegt að leysa þau mál með þeim hætti sem mér virðist stefnt að.

Frelsi til að ráðstafa sínum eignum

Engu að síður er ég fylgjandi þeirri skoðun, að þegar lausn á vandanum verður fundin, þ.e.a.s. ef menn vinda sér í að taka á málum af ríkisins hálfu, þá kemur fyrst til ákvörðunar sveitarfélaganna á hvern hátt þau vilja leysa sín mál. Frjáls sala eigna er frumréttur hvers eignaraðila. Í þessu tilviki, ef lausn vandans væri fundin, þá kæmi örugglega til greina að aðrir eignaraðilar keyptu hlut, t.d. í Orkubúinu, ef einhver vildi selja. En það eru ekki góðir búskaparhættir að selja það frá sér, sem bestan gefur arðinn.

Ég vil minna á að það voru framsæknir Vestfirðingar sem réðust í að reisa Orkubú Vestfjarða fyrir rúmum 20 árum. Þeir byggðu hugmyndina á tryggum rekstrargrundvelli. Ég hef miklar efasemdir um að þessi auðlind verði seld frá Vestfjörðum. En engu að síður vil ég frelsi til ráðstöfunar á eignum.

Auðlindir Vestfjarða/Íslands

Okkar auður er í landinu sjálfu, fallvötnum og orku í iðrum jarðar, fiskistofnum í kringum landið og síðast en ekki síst mannauðnum. Ekkert það sem hér er nefnt á að vera til sölu til skuldajöfnunar vegna félagslega húsnæðiskerfisins. Eins og ég nefndi fyrr er krafan sú að leysa þann vanda á heildstæðan hátt fyrir allt landið. Fyrir hönd Vesturbyggðar og annarra sveitarfélaga á Vestfjörðum vona ég að menn komist að niðurstöðu í þessu máli sem hér er um fjallað.

Ef sveitarfélag verður að láta sinn hlut í Orkubúi Vestfjarða vegna vanda sem það er sett í af hálfu ríkisvaldsins, þá er það að mínu mati fullkomið óréttlæti. Þessi orð eru aðeins sett á blað vegna þess að heimildargrein til samninga sem hér um ræðir kom óvænt inn í fjárlagagerð og vakti athygli mína á málinu.

Ég óska svo Vestfirðingum og öllum lesendum Bæjarins Besta gleðilegra jóla og farsæls nýárs. Megi árið 2001 verða gjöfult og sóknarfæri með besta móti fyrir byggðir Norðvesturkjördæmis.

Gísli S. Einarsson,Súðvíkingur á Akranesi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi