Grein

Jón F. Þórðarson.
Jón F. Þórðarson.

Jón Fanndal | 07.04.2003 | 15:20Íraksstríðið – óþolandi fréttaflutningur

Við sem minnumst frétta úr seinni heimstyrjöldinni minnumst þess, að sérhver fréttatími í Ríkisútvarpinu hófst með þessum orðum: „Nú verða sagðar fréttir frá London.“ Þegar fréttum frá London var lokið, þá sagði þulurinn: „Nú verða sagðar fréttir frá Berlín.“ Fréttir frá þessum stöðum voru ákaflega misvísandi en þarna var þess gætt að koma fréttum frá báðum stríðsaðilum til skila. Síðan þetta var eru 60 ár og enn er stríð.
Fréttaflutningur af stríðinu í Írak er með ólíkindum einhliða. CNN og BBC eru þar allsráðandi og er nánast engar fréttir að hafa nema sem íslenskar fréttastofur apa eftir þeim og gleypa hráar. Við sem fylgjumst með fréttum og reynum að vinsa sannleikann frá lyginni vitum, að flestar þær fréttir sem frá Bandaríkjamönnum og Bretum eru komnar um gang stríðsins eru lygi og Hollywoodútgáfa af stríðsrekstrinum.

Á meðan þúsundum Íraka, konum og börnum, er slátrað eins og fénaði, er lítið eða ekkert minnst á það. Hins vegar eru bandarískir fjölmiðlar uppfullir af fréttum af einni bandarískri konu, 19 ára hermanni, sem hinir hugdjörfu! bandarísku hermenn frelsuðu fótbrotinni af sjúkrahúsi í Írak eftir að hafa verið tekin höndum af hinum vondu Írökum.

Almenningur í Bandaríkjunum er svo hrifinn af þessari hetjudáð hermanna sinna að hann heldur vart vatni. Ríkissjónvarpið, sem verður að teljast málgagn stríðsherranna Halldórs og Davíðs, gengur þó lengst í þessari stríðsfréttafölsun og lætur sig ekki muna um að hella yfir okkur stríðsfréttum frá BBC 24 tíma á sólarhring. Ríkisútvarpið heldur sig mest við CCN. Þetta ætti ekki að koma á óvart þar sem Íslendingar eru aðilar að þessu stríði ásamt Rúmenum, Albönum, Marshalleyingum og ýmsum öðrum leppríkjum Bandaríkjanna og láta sér nægja Hollywoodútgáfuna.

Í ágætu viðtali við Jóhönnu Kristjónsdóttur blaðakonu, sem nú er stödd í Amman í Jórdaníu, kom fram hinn geysilegi mismunur á fréttum af stríðinu, hvort fréttirnar eru frá BBC, CNN eða einhverri arabískri fréttastofu. Hvers vegna megum við ekki fá fréttir frá báðum stríðsaðilum eða þá frá einhverri hlutlausri fréttastofu, til dæmis franskri eða þýskri? Við krefjumst þess, að þessari fréttafölsun með þátttöku Ríkissjónvarpsins ljúki og það strax.

Þó við séum aðilar að þessu stríði og njótum þess vafasama heiðurs að sjá fánann okkar brenndan við hliðina á bandaríska fánanum, þá ætti að vera óþarfi að heyja þetta stríð í sjónvarpsherbergjum landsmanna. Og hvað um börnin sem foreldrar voru hvattir til að útskýra fyrir tilgang stríðsins? Á kannski að loka fyrir þeim Ríkissjónvarpinu allan sólarhringinn?

Að lokum: Hverju hótuðu Bandaríkjamenn Íslendingum ef þeir styddu þá ekki í stríðinu? Var það bara Herinn burt! eða voru það alvarlegri hótanir?

– Jón Fanndal Þórðarson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi