Grein

Steinunn G. Einarsdóttir
Steinunn G. Einarsdóttir

Steinunn G. Einarsdóttir | 22.11.2016 | 15:14Vinnum frekar saman


Hversu ömurlegt er það, að þurfa sífellt að vera berjast fyrir öllu sem við kemur lífi manns hér í Ísafjarðarbæ. Mín upplifun er sú að hér er ég með sterkar rætur sem ná langt langt niður. Hér hef ég nánast alltaf búið og horft á eftir vinum og ættingjum flytja í burtu sem tekur óneitanlega mikið á og maður hefur oft velt fyrir sér hvort það sé rétt að vera áfram. En ræturnar héldu fast og þrjóskaðist ég við að vera ælandi á sjó ár eftir ár af því það var vinnan mín hér og allt er þetta ægilega rómantískt næstum eins og í skáldsögu 

En ég keypti mér stórt hús á Patreksfirði því þar eru ræturnar hans Egils og planið var að vera þar en eftir að eldri drengurinn minn fæddist gat ég ómögulega hugsað mér að fara og hvað þá að hætta á sjónum. Þannig nei fjarbúð var það um stund, mamma passaði meðan ég fór á sjó því á Flateyri ætlaði ég að vera. Það kom svo að því að Egill, maðurinn minn, var dregin hingað yfir heiðar, kannski ekki mjög spenntur en fyrir mig af því ég vildi vera hér.

Egill var því slitinn frá sínum rótum, vinum og fjölskyldu þar sem allir voru að flytja heim. Vesturbyggð vann að því að fjölga íbúum og maður fann hvernig hverjum nýjum íbúa var fagnað. Egill aðlagaðist mjög vel enda þekktur veiðimaður sem reynir alltaf að falla inn í umhverfið. En ég verð að segja að ég er með pínu samviskubit að hafa dregið hann hingað í þessa endalausu baráttu.

Staðan í dag, við erum hér og reynum að taka þátt í því sem er í gangi eins og við getum samhliða barnauppeldi. Núna erum við með 2 börn á leikskólanum, það er ekki eins auðvelt að fara á sjóinn en ég sé fyrir mér að fá vinnu á Ísafirði því ég sé í dag Flateyri bara eins og úthverfi Ísafjarðar, rétt eins og Grafarvogur í Reykjavík.

Ég tel að við eigum ekki að þurfa að berjast fyrir allri lágmarks þjónustu.

Grænigarður er leikskóli sem okkur var gefin af Færeyingum eftir snjóflóðið, heill leikskóli! Úthugsaður með frábærri aðstöðu, þarna er alltaf besta veðrið, logn og blíða og á sumrin algjör paradís.

Ég vil hafa börnin mín þarna, við og þeir erum ánægð með þennan leikskóla. Af hverju þarf ég að líða fyrir það að hafa viljað vera hér áfram, erum við ekki að reyna hafa litlar byggðir í byggð? Misskildi ég eitthvað með orðalagið brothættar byggðir átti það að vera brjóta byggðir eins og Ívar orðaði í gær.

Er ekki nóg að þurfa að horfa á eftir fólki og gera sitt besta til að hafa eitthvað samfélag hér.

Jú Grænigarður þarfnast viðhalds en það þurfa öll hús! Og ef ekkert er gert þá verður viðhaldskostnaður hærri það þarf engan sérfræðing til að reikna það út.

Ég er reið en líka bara pínu örmagna og mér líður eins og það sé verið að traðka á mér.

Ég er leið yfir að það þurfi að vera svona erfitt að búa á svona litlum og fallegum stað bara af því að þau sem sjá um að reka þetta bæjarfélag eiga erfitt að sjá út fyrir stærsta kjarnann og að hér sé alvörunni fólk sem hefur rétt og skoðanir á því sem viðkemur þeirra lífi.

Ég er leið yfir því að þeim fannst ekki einu sinni vera ástæða til að nefna að þetta væri á áætlun hjá þeim.

Ég er leið yfir því að þurfa vera með hnút í maganum og áætlun þeirra sé alltaf enn meiri samþjöppun og helst að hrekja okkur burt eða þannig er upplifun mín.

Ég er leið af því að innst inni veit ég að þetta er ekki síðasta áætlun um samþjöppun.

Kæri bæjarstjóri og bæjarstjórn hugsið áður en þið framkvæmið, það er alltaf góð regla. Hættið að eyða tíma okkar í að berjast við ykkur, vinnum frekar saman að byggja upp og gera samfélagið okkar betra og fá fólk til okkar aftur.

Það er allra hagur!

Steinunn G. Einarsdóttir
Íbúi og móðir á Flateyri

Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi