Grein

Þorleifur Pálsson
Þorleifur Pálsson

Þorleifur Pálsson | 02.11.2016 | 11:15Látum hér staðar numið - hugsum til framtíðar


Miklar umræður hafa verið um sjókvíaeldi á laxi og regnbogasilungi og væntanlegrar aukningar á því sviði. Nú þegar hafa verið veitt rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi í nokkrum fjörðum Vestfjarða og Austfjarða. Sjálfsagt verða þau ekki auðveldlega felld úr gildi, en þau mætti tímabinda. Hins vegar geta stjórnvöld ákveðið að hér skuli staðar numið.

Enn eigum við firði og flóa á Vestfjörðum og Austfjörðum sem ósnortnir eru hvað varðar sjókvíeldi laxfiska. Eins og víða á Íslandi eru þetta slíkar náttúruperlur að þeim má ekki fórna fyrir stundargróða erlendra aðila, sem virðast nú fjármagna að mestu, ef ekki öllu, það laxeldi er nú hefur verið veitt leyfi fyrir.

Verði farið í frekari leyfisveitingar á eldi laxfiska hér á landi, þá verði það alfarið bundið við eldi á landi eða eldi í lokuðum eldiskvíum (tönkum) við strendur landsins.

Miðað við reynslu annarra þjóða af laxfiskaeldi í opnum sjókvíum vitum við hvað bíður okkar umhverfis og þarf í sjálfum sér ekki að tíunda það frekar en orðið er, það er öllum ljóst.
Regnbogasilungur er nú þegar farinn að veiðast víða í ám hér á landi, trúlega meira en skráð hefur verið, en enginn ræktandi regnbogasilungs vill viðurkenna að frá sér hafi sloppið fiskur. Kom hann af himnum ofan eins og sagt er í biblíunni ??

Er það trú manna að algjör tilviljun sé þessi stöðuga aukning skemmtiferðarskipa til t.d. Ísafjarðar, alls 87 skip á síðasta sumri ?

Er það tilviljun að erlendum ferðamönnum á bílaleigubílum hefur fjölgað á vegleysum Vestfjarða á undanförnum árum ? Hafa þeir bara villst út af hringveginum ? eða hafa þeir kynnt sér eða kynnt hefur verið fyrir þeim þessi fjölbreytta og á stundum ósnortna náttúra, sem mörg lönd í heiminum geta ekki lengur státað af. Fuglalífið, sjávardýrin, gróandinn og fleira og fleira svo sem, björt nótt yfir sumarið og dansandi norðurljós er hausta tekur og á vetrum.

Sjóstangveiði hefur aukist verulega á Vestfjörðum yfir sumartímann og hópar erlendra veiðimanna koma til Vestfjarða þess vegna og stoppa um viku tíma í senn.

Erum við tilbúin að fórna þessu öllu fyrir sjókvíaeldi laxfiska fjármagnað af erlendum aðilum er taka til sín hagnaðinn ef einhver verður, en hverfa snögglega á braut ef allt fer til ans.....

Okkur sem búum eða höfum búið á landsbyggðinni er nokkuð tíðrætt um að börnin okkar fái betri möguleika á framhaldsmenntum, heldur en okkur þessum eldri stóð til boða á sínum tíma. Menntun er máttur og er það ekki dregið í efa.

En hvaða störf erum við hugsanlega að bjóða unga menntaða fólkinu ??

Fólk fer ekki í háskólanám eða annað framhaldsnám og kemur svo heim til að slægja eldislax. Er það ???

Nei við þurfum að skapa störf er krefjast fjölbreyttrar menntunar, störf sem skipta ekki máli hvar eru unnin séum við með vel menntað fólk til að sinna þeim.

Sá grundvöllur getur skapast með öruggari og betri samgöngum, tryggri raforku og nútíma fjarskiptaneti.

Hugsum til framtíðar. Lifum með landinu okkar og umhverfi þess. Spillum því ekki fyrir stundargróða erlendra fjárfesta.Þorleifur Pálsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi