Grein

Hörður Högnason
Hörður Högnason

Hörður Högnason | 19.10.2016 | 17:34Lausaganga almennings bönnuð!

Ég sé, að komið er upp skilti við varnargarðinn fyrir ofan Urðarveginn, sem bannar fólki að ganga eftir garðinum og njóta útsýnisins, um leið og það stundar holla útiveru. Munu einhverjir íbúar í efri húsum Urðarvegar hafa kvartað til Bæjarins, um að það sæist inn um glugga á húsum þeirra frá garðinum. Bærinn hefur líklega ekki bent þeim á notagildi gluggatjalda.

Ég gáði reyndar að því um daginn, hvort satt væri og góndi vel af garðinum á húsin fyrir neðan. Í venjulegri dagsbirtu sá ég lítið inn og greindi varla, hvað var þar við gluggana. Ég geri ekki ráð fyrir að nokkur með fullu viti reyni að paufast eftir garðinum eftir myrkur, þegar möguleiki er á að sjá miklu betur inn.

Ég gekk líka víðar um og leitaði uppi þjáningarsystkyn þeirra á Urðarveginum - og fann þau nánast í flestum götum Bæjarins. Á Seljalandsveginum fyrir ofan Hlíf og Miðtúnshúsin er þetta t.d. miklu alvarlegra en á Urðarveginum. Þar sér maður vel inn um hvern glugga. Í almenningnum milli hverfa í Holtahverfinu eru ég og fleiri t.d. algerlega berskjölduð fyrir gónandi samborgurum, bæði í dagsbirtu og myrkri. Frá almenningnum hef ég í alvöru séð í gegnum mitt hús og inn í það næsta fyrir neðan! Í hliðargötum Eyrarinnar og víðar gengur maður alveg upp við glugga fjölda fólks að því forspurðu og skotrar óneitanlega augunum laumulega inn.

Ég vil því nota tækifærið, á meðan Bærinn er svona örlátur á skiltin, að krefjast þess, að jafnræði sé í heiðri haft meðal bæjarbúa og að við hin njótum sannmælis líka. Skilti um bann við lausagöngu almennings mættu gjarnan vera komin upp á ofangreindum stöðum fyrir helgina og víðar fyrir mánaðarmót, þegar allir álíka gluggainnsýnisstaðir og eru ofan Urðarvegar hafa verið skilgreindir - og gangandi umferð bönnuð. Og ég meinaða!Hörður Högnason


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi