Grein

bb.is | 18.10.2016 | 07:22Stuðningur við veikar byggðir – samt ekki


Ég fór í göngutúr í gær um fallega bæinn minn Bolungarvík. Hér er sól, 5 stiga hiti og logn sem sagt fallegur haust morgun. Ég ýti þriðju dóttur minni á undan mér í vagni, hinar eldri eru í leik- og grunnskólanum. Maðurinn minn er í sinni vinnu og þeysist um bæinn að leysa verkefni. Við, sambýlisfólkið, höfum fjárfest í okkar framtíðarheimili því hér viljum við vera. Ég dáist af umhverfinu og finnst notalegt til þess að hugsa að hér er ég og hér verð ég. Það truflar mig samt sem áður óstjórnlega og gerir mig ansi reiða að einhverjir menn eða konur í Reykjavík geti ákveðið hvort hér sé búandi eða ekki!

Senn líður að kosningum og langar mig að beina orðum mínum til þeirra sem hugsa sér að komast til valda í landinu okkar – Ísland er stærra en höfuðborgarsvæðið.

Núna er tíminn til að láta verk fylgja orði og efla landsbyggðina og auka jafnrétti allra íbúa landsins.

Vestfirðir eru skilgreindir sem veik byggð og eru meðal annars sagt að þá skorti aðdráttarafl sem áhugaverður staður til að búa á. Raunin er sú að það vantar ekki aðdráttaraflið – það vantar margt annað.

Á tæplega 10 ára tímabili hefur forsætisráðuneytið skipað tvær nefndir sem eiga að finna leiðir til að hífa Vestfirði upp og blása til sóknar. Árið 2007 var sett á fót nefnd sem átti að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum sem og hún gerði. Nú árið 2016 var skipuð önnur nefnd um samfélags- og atvinnuþróun á Vestfjörðum. Sú nefnd hefur lokið störfum og skilað sínum tillögum. Á þeim árum sem líða á milli vinnu þessara nefnda hafa verið tekin nokkur stór skref í rétta átt en samt erum við enn á þeim stað að þar þarf að reyna að bjarga okkur og þeirri veiku byggð sem við búum í.

Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur sett af stað vinnu sem meðal annars felur það í sér að útfæra lækkun á tryggingagjaldi því lengra sem komið er frá höfuðborgarsvæðinu, lækkun á skattþrepum og niðurfellingu á námslánum hjá okkur sem búum í veikri byggð. Er það nóg að lofa lækkunum og niðurfellingu?
Það þarf meira til. Það þarf að efla atvinnu hér á Vestfjörðum og gera fyrirtækjum kleift að hefja hér starfsemi. Það er segin saga að með atvinnuuppbygginu fjölgar fólki. Sá fjöldi fólks sem hingað kemur vill þá eflaust fjárfesta í húsnæði og setjast hér að. Hverra er það að ákveða hvort viðkomandi geti það eða ekki.

Nýlega hef ég fylgst með dæmi um ungt par með börn sem vill festa kaup á stærra húsnæði en þau eru í fyrir. Parið stenst greiðslumat með glans og eru þau tilbúin að setja sína fjármuni í viðkomandi fasteign. Útibússtjórinn í öðrum bankanum er tilbúinn, fyrir sitt leiti, að veita lán fyrir kaupunum með fyrirvara um að þurfa að fara með málið fyrir æðsta ráð bankans í Reykjavík. Þar kemur þvert nei því þessi fjárfesting er slæm, hún er svo slæm að hún flokkast undir áhættufjárfestingu.

Í hinum bankanum mætti parið hroka og dónaskap – þar gengu þau út.

Ríkisbankarnir hafa því vægast sagt kjark til þess að neita fólki sem stenst greiðslumat um lán. Ætla þeir að fá að ráða hverjir kaupa, hverjir geta selt og fyrir hvað mikið?

Því miður er þetta ekkert einsdæmi fyrir fyrirhugaða kaupendur fasteigna hér fyrir vestan. Hvar eru þingmennirnir okkar – hvar eru þingmennirnir okkar sem eiga að standa vörð um sitt kjördæmi?

Það er ekki beint verið að blása ungu fólki, sem og öllum Vestfirðingum, í brjóst aukna bjartsýni á möguleika svæðisins til búsetu og atvinnuuppbyggingar líkt og var eitt af markmiðum nefndar forsætisráðuneytisins árið 2007.

Minn skilningur er því sá að það eru bara einhverjir í Reykjavík sem ákveða það hvort við hér í þessum veikum byggðum lifum eða deyjum. Ég biðla til ykkar, leyfið okkur að lifa. Nema þið hafið manndóm í ykkur að lýsa því yfir opinberlega að hinar veiku og dreifðu byggðir eigi ekki framtíð fyrir sér. Þá getum við sem hér búum, hætt að borga af fasteignum okkar og komið okkur í burtu.

Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi