Grein

Jón Örn Pálsson
Jón Örn Pálsson

Jón Örn Pálsson | 13.10.2016 | 14:12Ekkert samhengi milli laxeldis og ástands laxastofna í Noregi


Í umræðu um áhættu frá laxeldi fyrir íslenska laxastofna var nýleg vitnað til ástandsskýrslu norska vísindaráðsins sem fjallar um vernd og nýtingu villtra laxastofna. Umgengni við villta laxastofna er mun betri í Noregi en hér á landi. Í Noregi er fylgst með veiðiálagi í öllum laxveiðiám og stjórnvöld banna laxveiðar sé ástand hrygningarstofns árinnar metið undir viðmiðunarmörkum. Við lestur á skýrslunni er augljóst að norskir laxastofnar hafa sjaldan verið í eins góðu ástandi. Í skýrslunni er lagt mat á fjölmarga áhættuþætti sem geta ógnað tilvist laxastofna, þ.m.t. mengun, vatnsaflsvirkjanir og laxeldi.

Nýlegar erfðarannsóknir hafa staðfest erfðablöndun frá eldislaxi í mörgum laxastofnum. Ennþá eru ekki staðfestar neinar líffræðilegar breytingar á laxastofnum vegna erfðablöndunar, en vegna varúðarreglu í umgengni við náttúruna telja skýrsluhöfundar engu að síður rétt að meta hættuna sem stafi af eldislaxi mikla. Næstu áratugir munu leiða í ljós hvort það áhættumat skýrsluhöfunda sé rétt, vanmetið eða ofmetið.

Aðrir vísindamenn í Noregi, m.a. frá Nofima, gagnrýna aðferðafræðina sem viðhöfð er við mat á áhættu frá eldislaxi og ályktanir sem dregnar eru af henni, enda hafi ekkert samband verið fundið milli vaxandi laxeldis og ástands laxastofna. Leikmenn í norsku laxeldi gagnrýna einnig áhættumat vísindaráðsins og því er jafnvel haldið fram að væntingar um aukin fjárframlög í rannsóknir hafi áhrif á niðurstöðu ráðsins.

Frá upphafi talningar á eldislöxum í ám, sem hófust á níunda áratugnum, hafa laxar aldrei verið eins fáir og á árunum 2014 og 2015. Vísbendingar eru um enn frekari fækkun í ár. Þó hefur framleiðsla í laxeldi aldrei verið eins mikil og nú. Þetta er ánægjuefni sem einkum má þakka nýjum verklagsreglum og auknu eftirliti með fiskeldisbúnaði. Óháð því hvort áhrif af völdum strokulaxa eru mikil eða lítil þá er gríðarlega mikilvægt að fyrirbyggja slysasleppingar og það ætla íslenskir laxeldisbændur sér að gera.



Jón Örn Pálsson, sjávarútvegsfræðingur



Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi