Grein

Inga Björk Bjarnadóttir
Inga Björk Bjarnadóttir

Inga Björk Bjarnadóttir | 13.10.2016 | 18:07Best í heimi!


Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands lofaði á dögunum að reisa á Íslandi besta heilbrigðiskerfi í heimi og fannst mörgum ansi vel í lagt. Hvernig á að fjármagna svona digurbarkalegt loforð?

Staðreyndin er sú að það er mikil misskipting auðs hér á landi. Í umfjöllun Kjarnans frá því í síðustu viku kemur fram að ríkasta 10% landsmanna á 64% auðsins. Restin, það er 36% auðsins, deilist á 90% þjóðarinnar. Þá er áætlað að um 600 milljarðar séu í skattaskjólum sé miðað við meðaltal annarra landa. Á sama tíma hefur kostnaðarþátttaka almennings aukist úr 10% í 20% á þremur áratugum og útgjöld heimilanna hafa hækkað mun hraðar en útgjöld hins opinbera. Hlutfall fólks sem sleppir heilbrigðisþjónustu er einnig mun hærra hér en á Norðurlöndunum. Þegar við veikjumst eða slösumst eigum við ekki að þurfa að hafa fjárhagsáhyggjur.

Þetta ætlum við meðal annars að gera:

- Tryggja gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu í skrefum. Sjúklingar greiði ekki meira en 35.000 kr. fyrir læknisþjónustu strax á næsta ári.

- Stórbæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og gera sálfræðiþjónustu ókeypis fyrir ungt fólk.

- Eyða biðlistum.

- Byggja upp heilsugæsluna og gera sálfræðiþjónustu aðgengilega þar.

- Ljúka uppbyggingu Landspítala við Hringbraut.

- Tryggja heilbrigðisþjónustu um allt land með öflugar stofnanir í hverjum fjórðungi.

Svona ætlum við að greiða fyrir það:

- Tryggja þarf framlag tekjuhærri hópa og stóreignafólks til samfélagsins í gegnum skattkerfið.

- Það hefur verið stefna Samfylkingarinnar frá stofnun að bjóða upp kvótann. Þannig er almenningi best
tryggðar sanngjarnar tekjur af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Methagnaður hefur verið í sjávarútvegi undanfarin ár en á sama tíma hafa veiðigjöld verið lækkuð.

- Álag á heilbrigðiskerfið hefur aukist mikið með auknum fjölda ferðamanna. Nýtum hluta teknanna til uppbyggingar þess.

Við getum gert betur í sameiningu. Kjósum betra heilbrigðiskerfi fyrir notendur og starfsfólk heilbrigðisstofnana. Kjósum besta heilbrigðiskerfi í heimi. Kjósum jafnaðarmenn.

Inga Björk Bjarnadóttir, 2. sæti lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist í 38. tölublaði Bæjarins bestaTil baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi