Grein

Finnbogi Hermannsson
Finnbogi Hermannsson

Finnbogi Hermannsson | 14.10.2016 | 14:04Hugleiðing um körina og aðskilnaðarstefnu gagnvart gömlum og veslum - Sjónarmið 38. tbl


Við erum víst 40.000 gamalmenni á Íslandi um þessar mundir og höfum kosningarétt. Og við skulum hafa í huga að margt hefur verið gert fyrir okkur gamla fólkið eins og það er orðað. Því eigum við gamla fólkið að vera þakklátt fyrir það sem fyrir okkur er gert og minnast þess þegar við setjum X-ið við listabókstafinn á kjördag. Samt þurfum við mörg að gá á almanakið að þeim fyrsta í næsta mánuði og fresta því þangað til að kaupa lyfin okkar. Þetta er kallað velferðarsamfélag. Nú liggur fyrir alþingi frumvarp um almannatryggingar sem stjórnarliðar hampa mjög og telja byltingarkennt. Þegar farið var að grína í frumvarpið reynist það nær sama gamla japlið bara með öðru orðalagi. Öryrkjabandalagið frábað sér frumvarpið eftir nánari skoðun og velferðarráðherrann varð foj. Enn þá skal gamalmennum bönnuð vinna án þess að skatturinn hirði aðra hverja krónu. Gengið er enn lengra en áður með grunnlífeyrinn og þeir sem kreista 400 þúsund út úr lífeyrissjóði fá alls engan grunnlífeyri sem er reyndar skoplítil upphæð.

Á heimilinu er manneskja sem telst öryrki. Hún hefur fengið greitt úr lífeyrissjóði og þar á móti úr almannatryggingakerfinu. Verði einhverjar breytingar á útborgun hjá öðrum, stekkur hinn til um leið -og gjugg í borg-, við lækkum. Öryrkin skal lifa við fátækramörk hvernig sem allt snýst. Og það hefur alltaf verið kvíðaefni á heimilinu að skera upp umslög frá þessum apparötum. Reyndar er stutt síðan að skömmtunarstjórarnir hættu að taka mið af tekjum maka til að skera niður greiðslur hjá hinum sem var hámark niðurlægingar.

Þegar kaupgjald hækkaði í vor á Íslandi og launþegar fengu afturvirkar greiðslur fannst ráðamönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks auðsætt að öryrkjar og aldraðir nytu ekki þeirra kjara. Nú fyrir haustkosningar fóru einhverjir þingmenn stjórnarflokkanna að harma þessa niðurstöðu og reita hár sitt. Einn þeirra var Karl Garðarsson úr Framsóknarflokki. Slíkt er heldur létt í vasa öryrkja og gamalmenna. Í framtíðaráætlun stjórnarflokkanna sem lögð var fram í síðasta mánuði eru aldraðir og öryrkjar enn bónbjargafólk. Engin viðurkenning á mannréttindum þeirra. Þeir eiga ekki að standa jafnfætis fólki á öðrum aldri sem þjóðfélagsþegnar. Þeir geta búist við því að vera teknir út fyrir sviga hvenær sem er. Því er nauðsynlegt að stjórnmálaflokkar með slíka aðskilnaðarstefnu gangvart öldruðum verði sniðgengnir í kosningunum um mánaðamótin. Ekki bara af þeim sem eru aldraðir og öryrkjar núna heldur öllum sem vilja sjá mannréttindi virt á Íslandi.

Körin

Öldum saman var körin viðurkennd þjóðfélagsstofnun á Íslandi. Í Innansveitarkróníku minnist Halldór Laxness á körina. Finnbjörg gamla á Hrísbrú í Mosfellssveit hafði legið í körinni í 18 ár það menn töldu þar sem frásögnin hefst. Samt fylgdist hún með öllu bæði innanbæjar og utan og staða hennar í körinni var virt fullkomlega og með virðingu. Hún geymdi sjóðs heimilisins ef einhver var og hélt utan um sykurlúsina á bænum.

Svokölluð öldrunarstefna nútímans gerir ráð fyrir því að gamalmenni hírist heima hjá sér sem lengst og fái það sem kallast heimilishjálp. Mörgum hentar það ágætlega en svo eru dæmi um að sá búskapur jaðri við körina til forna. Makar og ættingjar að sligast undan fargi sem væri betur komið á öldrunarheimili.

Svona til upplýsingar þeim stjórnmálamönnum sem haldið hafa uppi aðskilnaðarstefnu gagnvart öldruðum og stunið undan tilvist þeirra og heimtufrekju þá voru mikil harðindi á Íslandi á tíundu öld. Mátti þó ekki líkja ástandinu við Ísland eftir hrun sem var nógu slæmt þótt ekki væri það gaddurinn. Norður í Skagafirði var það dæmt á samkomu af héraðsmönnum,og fyrir sakir hallæris og svo mikils sultar sem á lá var lofað að gefa upp fátæka menn, gamla og veita enga hjálp, svo þeim er lama var eða að nokkurru vanhættir og eigi skyldi herbergja þá. En þá gnúði á hinn snarpasti vetur með hríðum og gnístandi veðrum. Á nútímamáli þýðir þetta að aldraðir og öryrkjar hafi verið settir á guð og gaddinn og látnir deyja drottni sínum.
Þá tók Þorgerður kerling til orða

Arnór kerlingarnef Bjarnarson bjó þá á Miklabæ í Óslandshlíð og var mestur höfðingi út um sveitir. Þegar hann kom heim af samkomunni þar sem öldruðum og öryrkjum skyldi úthýst af bæjum sagði hann tíðindin. Móðir hans Þorgerður Þórisdóttir tók þetta óstinnt upp og kvað son sinn samsekan þeim sem upptökin áttu að gerningnum. Tjáði hún fyrir honum með mikilli skynsemd og mörgum sannlegum orðum hversu óheyrilegt og afskaplegt það var að menn skyldu selja í svo grimman dauðann föður sinn og móður eða náfrændur sína. Arnór skildi góðfýsi móður sinnar og tók vel ásakan hennar. Gerðist hann þá mjög áhyggjufullur hvað er hann skyldi að hafast. Tók hann þá það ráð að hann sendi þegar í stað sína menn um hina næstu bæi að safna saman öllu gamalmenni því er út var rekið og flytja til sín og lét þar næra með allri líkn. Blés síðan til fundar í héraði þar sem fyrri ákvörðun var afturkölluð og upp úr því gerði sunnanvind og blíðar sólbráðir. Mætti svo þessi dæmisaga verða mönnum minnileg þeim sem véla um kjör aldraðra og öryrkja í þessu landi í bráð og lengd.

Heimildir: Innansveitarkróníka HKL Helgafell 1970 og Svaða þáttur og Arnórs kerlingarnefs, höf. ókunnur. Skuggsjá 1971.

Finnbogi Hermannsson sló þetta saman.
Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi