Grein

Hafdís Gunnarsdóttir
Hafdís Gunnarsdóttir

Hafdís Gunnarsdóttir | 10.10.2016 | 10:27Sykurpúkinn - Sjónarmið 37. tbl


Á sunnudaginn síðastliðinn sat ég í bílnum mínum á leiðinni heim frá Reykjavík. Ég hlustaði á útvarpið alla leið enda margt áhugavert að gerast á Íslandi, svo sem spennandi formannsslagur í Framsóknarflokknum og Katla farinn að minna á sig. Þegar ég keyri langar vegalengdir fæ ég mikla þörf fyrir að maula eitthvað á leiðinni og þá er hollustan ekkert alltaf í fyrirrúmi. Ok, í þessum tilfellum er hún eiginlega aldrei í fyrirrúmi. Þar sem ég sit undir stýri með fullan munninn af Nóa kroppi kom frétt um offitufaraldurinn sem geisar um heiminn og sykurskattinn sem á að taka á faraldrinum. Einhver sænskur sérfræðingur um þessi mál taldi sykur vera helstu ástæðu offitu og sagði að sykurskattur væri besta ráðið til tækla ástandið. Það er fátt sem eyðileggur súkkulaðisæluna jafn hratt og sérfræðingur að tala um sykur og offitu í sömu setningu. Mér leið eins og ég væri með sykurpúka á annarri öxlinni og engil á hinni. Svona eins og var alltaf í teiknimyndunum um Tomma og Jenna. Púkinn sagði mér að halda áfram að borða og skipta um rás, en engillinn sagði mér að stöðva bílinn og spýta út súkkulaðinu og gera 100 armbeygjur. Ég fór einhvern lélegan milliveg og kyngdi með semingi Nóa kroppinu sem ég var byrjuð að borða og henti restinni. Árans samviskan að eyðileggja allt.

En er sykurskattur rétta leiðin? Á Íslandi var settur á sykurskattur árið 2013, en hann var aflagður um áramótin 2014-2015 þar sem hann hafði lítil sem engin áhrif á sykurneyslu Íslendinga. Samkvæmt rannsókn Rannsóknarseturs verslunarinnar á áhrifum skattsins kom fram að áhrifin hafi meðal annars verið mjög lítil þar sem fólk hafði ekki sambærilegar vörur til að velja úr, sem ekki féllu undir sykurskattinn. Sykurskatturinn var nefnilega skattur á sætt bragð en ekki bara sykur. Fleiri lönd hafa sett á sykurskattinn en hann hefur hingað til ekki skilað árangri. Bretar voru að leggja hann á og binda miklar vonir við að hann hafi betur gegn offitunni. Þó eru skiptar skoðanir um það. Samt heldur þessi sænski sérfræðingur því fram að sykurskattur sé besta leiðin.

Ég er ekki mikið gefin fyrir forsjárhyggju og finnst að ríkið eigi ekki að segja mér hvað ég megi og eigi að borða. En þar sem ríkið rekur sjúkrahúsin og heilsugæslurnar í landinu, á það ekki að fá að segja eitthvað til um það hvernig við spornum gegn offitufaraldrinum sem kostar okkur mikla peninga á ári hverju? Jú, ég get verið sammála því. Ég get hins vegar ekki séð hvernig sykurskattur á að draga úr offitu í heiminum. Fólk mun áfram sækja í sætindi þó þau hækki í verði.

Ég er þó með eina hugmynd, sem er alls ekki ný og upphaflega ekki mín, sem gæti mögulega dregið úr sykurneyslu. Hvernig væri ef verslanir myndu ekki hafa sælgæti út um allt og sérstaklega ekki við kassana? Ég veit ekki með ykkur en ég myndi þá kaupa minna af sælgæti. Þegar við stöndum í röð við búðarkassann og bíðum eftir að röðin komi að okkur sjáum við ekkert annað en sælgæti út um allt. Og þá langar mig nánast alltaf í sælgæti. Verslanirnar eru markvisst að reyna pranga upp á okkur helling af sælgæti, í stað hollari valkosta sem kosta jafnvel meira. Svo þegar börnin eru með okkur í búðinni, boy o boy, þá er alltaf suðað því sælgætið er allstaðar.

Ríkið sér sig knúið til að takmarki aðgengi okkar að tóbaki og áfengi. Það sér sig knúið til að takmarka sýnileika tóbaks og áfengis. Vörur sem aðeins fullorðið fólk má kaupa. Þetta er gert til að sporna við neyslu áfengis og tóbaks því vissulega felst mikill kostnaður í því fyrir samfélagið þegar þessar vörur eru misnotaðar. En hvað með sykurinn og offitufaraldurinn? Sykurneyslan kostar samfélagið líka glás af peningum og sú neysla byrjar snemma á ævi fólks. Hún hefst þegar við erum lítil börn. Sætindi eru svo oft markaðssett til að ná til barna. Samt erum við með þessar vörur til sýnis út um allt og helst í augnhæð barna. Hvernig væri að fara takmarka sýnileika sætinda?

Hafdís GunnarsdóttirTil baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi