Grein

Jón Páll Hreinsson
Jón Páll Hreinsson

Jón Páll Hreinsson | 06.10.2016 | 14:25Fjærsýni


Undanfarið hefur farið fram kröftug umræða um eldisuppbyggingu á Vestfjörðum í fjölmiðlum landsins. Sem betur fer. Umræðan hefur öðrum fremur verið að forsendum náttúru og lífríkis, vernd og skynsemi hefur verið þar í forgrunni. Þar hafa menn týnt margt til í sínum rökfærslum, sumt gott, annað ekki eins gott. Eins og gengur.
Það sem mér hefur fundist erfitt í umræðunni er að hún er oft á tíðum máluð of sterkum litum. Ég fæ oft á tilfinninguna að ef ég mæli með fiskeldi sé ég á móti stangveiði og náttúruvernd og að stangveiðimenn þurfi sjálfkrafa að vera á móti fiskeldi. Þetta er hvimleitt því það er mér jafn mikilvægt að njóta hinnar fallegu náttúru Íslands þ.m.t. stangveiða, sem ég geri ríkulega ár hvert, og það er mikilvægt fyrir mig að mannlíf og samfélag eflist með tilkomu fiskeldis á Vestfjörðum.

Nú síðast reit Magnús Guðmundsson hugleiðingu í Fréttablaðið undir yfirskriftinni Skammsýni. Fyrst skal honum þakkað fyrir innleggið. Það er mikilvægt fyrir alla sem að þessu máli koma að öll sjónarmið komi fram og ég efast ekki um að þetta sé Magnúsi hjartans mál, þótt mig gruni að okkar hagsmunir séu ekki þeir sömu. Þar rekur Magnús með nokkuð dramatískum hætti hvaða afleiðingar það geti haft að hefja sjóeldi í Ísafjarðardjúpi. Þar týnir hann til nokkuð algeng rök sem jafnan eru notuð gegn fiskeldi eins og viðkvæm náttúra, verndun villta laxastofna, og aðför gegn arðbærri atvinnugrein, stangveiði.

Ágætis yfirreið hjá Magnúsi. En mig langar að benda á eitt. Umhverfismatið. Hinu lögformlega ferli, aðferð á forsendum vísindanna til að leiða fram hlutlaust mat á hvort uppbygging sjóeldis hafi of skaðleg áhrif á umhverfi sitt, til að hægt sé að leyfa það.

Umhverfismat segir okkur m.a. á faglegan, vísindalegan og hlutalausan hátt hvort áhrif á náttúruna séu of mikil, hvort annað lífríki skaðist og hvort sjóeldi geti mögulega skaðað aðra stofna, svo sem villta laxastofna svo fátt eitt sé nefnt.

Nú síðast kláraðist umhverfismat vegna eldisstækkunar í Patreksfirði og Tálknafirði, upp í 17 þús. tonn. Skipulagsstofnun samþykkti umhverfismatið í áliti sínu frá 23. september sl. Það má segja að öllum vangaveltum Magnúsar sé svarað í umræddu mati, á hlutlausan og faglegan hátt. Skipulagsstofnun tekur fram í áliti sínu að mörgu er að hyggja í umræddri eldisframleiðslu, ekki allt jákvætt. En samandregin niðurstaða er að neikvæð áhrif af sjóeldi séu óveruleg og að öllu afturkræf:

- Mengun er staðbundin og afturkræf og gangi að öllu leiti til baka á hvíldartíma eldissvæða.
- Áhrif sjúkdóma séu lítil og lítil áhætta sé á að villtir laxfiskar skaðist vegna eldis.
- Áhrif eldis á genamengi villtra laxastofna eru talin lítil og óveruleg.

Þetta segir okkur að viðkvæm náttúra fær að njóta vafans. Litlar líkur eru á að villtir laxastofnar spillist og arðbærum atvinnurekstri veiðiréttarhafa sé ekki ógnað.

Það þýðir hinsvegar ekki að björninn sé unnin. Í áliti Skipulagsstofnunar er gerð rík krafa á fiskeldisfyrirtækin um vinnubrögð og umgengni við náttúruna. Lögð er rík krafa á að fyrirtækin fylgi ströngustu stöðlum í greininni og eftirlit verður virkt og strangt. Virðing og verndun náttúrunnar byggir á umgengni okkar við hana. Við sem búum og nýtum náttúruna hér á Vestfjörðum gerum þá kröfu að fiskeldisfyrirtækin umgangist þessa auðlind að virðingu og af alvarleika. Við treystum þeim fyrir þessu og það er þeirra að standast traust okkar. Ef það er gert, mun náttúran njóta vafans.

Það eru giska 15 ár síðan Vestfirðingar ákváðu í sameiningu að fjórðungurinn skyldi vera stóriðjulaus. Það var gert á Fjórðungsþingi Vestfirðinga, samþykkt samhljóða. Samþykktin lifir enn og sannfæring Vestfirðinga jafn sterk. Við berum virðingu fyrir náttúrunni og viljum að hún njóti vafans. Við þekkjum hvernig það er að lifa af gjöfum náttúrunnar og höfum gert það í þúsund ár. Það hefur verið takmark okkar allan þann tíma að nýta okkur gjafir náttúrunnar til að efla mannlíf og samfélag í byggðum Vestfjarða og það er enn okkar takmark. Það óumdeilt að fiskeldi mun efla og styrkja byggðir á Vestfjörðum eins og dæmin sanna. Það viljum við gera áfram með því að vinna saman með eldisfyrirtækjunum með hagsmuni náttúrunnar að leiðarljósi.

Við Magnús vil ég segja eitt að lokum. Ég veit ekkert skemmtilegra en að setja í nýgengin íslenskan lax í fallegri á. Ég ætla að gera það áfram eins lengi og ég hef heilsu og áhuga. Kannski hittumst við einhvern tímann á bakkanum og getum þá rætt eldismálin á opin og hreinskiptin máta. Ég ber virðingu fyrir hagsmunum stangveiðimanna og veiðiréttarhafa, en hagsmunirnir mega ekki bera skynsama og hófsama umræðu ofurliði.

Það væri skammsýni.

Jón Páll Hreinsson
Bæjarstjóri Bolungarvíkur

greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu
Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi