Grein

Gylfi Ólafsson.
Gylfi Ólafsson.

bb.is | 04.10.2016 | 11:31Fiskeldi: næstu skref eru augljós


Fyrir örfáum árum síðan var Bíldudalur ein brothættasta byggð landsins. Fólki sem hafði þar vetursetu hafði fækkað mjög mikið. Síðan þá hefur tvennt gerst, kalkþörungaverksmiðja var sett þar á laggirnar og umfangsmikið laxeldi hófst. Á Bíldudal er nú andinn annar og tónninn léttari. Það sama má segja um Patreksfjörð og Tálknafjörð, sem með almenningssamgöngum verða enn betur að einu atvinnusvæði.

Laxeldið er þannig afskaplega mikilvægt fyrir Vestfirði, en einnig fyrir þjóðarbúið allt því um er að ræða gríðarmikla mögulega framleiðslu matvæla. Þessi matvælaframleiðsla er reyndar einnig mikilvæg á heimsvísu, því að möguleg sjálfbærni fiskeldis er stórkostleg í samanburði við framleiðslu kjötafurða. Vestfirðingum er þó fyllilega ljóst að fara þarf að öllu með gát þannig að sjálfbærnin verði staðreynd, m.a. með því að sýna umhverfismálum fyllstu virðingu. Sjálfbærnin felst einnig í því að tekið verði tillit til ferðaþjónustu og annarra atvinnugreina.

Umhverfisáhrif þessa eldis eru þó umdeild. Andstæðingar laxeldis halda því fram að ósnornir firðir verði skildir eftir fullir af „drullu og skít og silungs- og laxveiðiárnar meira eða minna ónýtar“. Vestfirðingum og yfirvöldum öllum er brigslað um að „gjöreyða“ ósnortnum fjörðum með laxeldi. Regnbogasilungur er sagður flytja sjúkdóma og vera verri en minkur, á meðan fiskeldisfyrirtækin segja hann ekki geta fjölgað sér og vera fullkomlega heilbrigðan í þokkabót.

 

Fyrst: efldar eftirlitsstofnanir á nærsvæði

Á meðan svo mikill ágreiningur er um einfaldar staðreyndir málsins er erfitt að eiga góða samræðu eða taka skynsamlegar ákvarðanir. Því er mikilvægt að leysa úr undirfjármögnun eftirlits- og rannsóknastofnana. Vestfjarðanefndin hin nýja sem skilaði aðgerðaáætlun fyrir Vestfirði í mánuðinum benti á þetta.

Þar lagði nefndin til að stjórnvöld „taki ákvörðun um að staðsetja störf í stoðkerfi fiskeldis fyrir landið allt á Vestfjörðum og að þar verði svokölluð miðstöð fiskeldis staðsett til framtíðar.“ Nefnd eru sem dæmi störf hjá Matís, Fiskistofu og Hafrannsóknarstofnun. Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur hnykkt á þessu í nýlegri bókun. Þessa sér ekki stað í nýlegri starfsauglýsingu, þar sem staða sviðsstjóra fiskeldis er staðsett í Reykjavík.

Samhliða: sanngjörn tekjuöflun

Viðreisn telur að auðlindagjöld séu hagkvæm og sanngjörn leið til að afla ríkinu tekna fyrir samneyslu eða til að lækka aðra skatta. Þetta á við um notkun sjávarins undir fiskeldi eins og aðrar sameignir þjóðarinnar. Ýmsar útfærslur má skoða í því samhengi, bæði á því hvernig gjöld eru ákvörðuð, þar sem mikilvægt er að ekki sé gengið of nærri fyrirtækjunum, og hvernig þeim er varið. Afrakstur slíkrar skattlagningar væri hægt að setja í innviðasjóð sem fjármagnað gæti innviði sem svo sárlega vantar á hverju landsvæði fyrir sig, eða veita sveitarfélögum beina hlutdeild í slíkum tekjum.

Fiskeldi er svo sannarlega ein af bjartari vonum heimsins í leit að sjálfbærni. Það er mikilvægt að við vöndum til verka þegar við byggjum upp slíkan iðnað á Íslandi. Til þess þurfum við öfluga umgjörð af hálfu hins opinbera, sem tryggir að notaðar séu bestu aðferðir og sjálfbærni höfð að leiðarljósi.

Gylfi Ólafsson heilsuhagfræðingur
Höfundur skipar fyrsta sæti framboðslista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi
Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi