Grein

Andrea Sigrún Harðardóttir | 29.09.2016 | 17:06Um hvað á ég að skrifa?

Satt best að segja hef ég ekki hugmynd um hvað ég á að festa á blað að þessu sinni eða fjalla um. Það hljómar e.t.v. einkennilega þar sem af nógu er að taka þessa dagana. Kosningar í vændum og kosninga­loforðin streyma fram eins og lækur í vorleysingum. Nú á að hugsa um alla, öryrkja, ellilífeyrisþega og þá sem minna mega sín. Svo gleymast þessir hópar um leið og ný ríkisstjórn verður mynduð, þannig er formúlan. Að vísu rifjast upp fyrir ýmsum að þessir hópar séu til, þegar talið berst að því að hjálpa flóttamönnum. Þá allt í einu er gott að skammast yfir því hvað þessir hópar eru vanræktir af samfélaginu. Svo um leið og umræðan lognast út af og allir gleyma flóttamönnunum, þá gleymast fyrrgreindir hópar líka.

Skýrslan eða ekki skýrslan hennar Vigdísar Hauks og kannski Guðlaugs Þórs og meirihluta fjárlaganefndar, en samt ekki, er kafli út af fyrir sig. Eigum við að ræða innihaldið eða umgjörðina? Þegar þessi orð eru fest á blað er enn ekki ljóst, hvað verður ofan á. Um búvörusamninginn ætla ég ekki að tjá mig því ég skil hann ekki. Mér er sagt að hann komi illa við sauðfjárbændur þó svo að Gunnar Bragi haldi öðru fram. Ég hætti mér ekki út á það jarðsprengjusvæði að fjalla um Sigmund Davíð, hans afrek eða ekki afrek. Og nú ætlar Sigurður Ingi að skora hann á hólm, eftir að hafa lofað eða ekki lofað að fara ekki gegn honum. Vona að ég móðgi engan framsóknarmanninn með því að segja að mér finnst eðlilegt í lýðræðissamfélagi að fólk bjóði sig fram ef það telur sig hafa eitthvað fram að færa. Þetta á víst að snúast um málefnin og flokkinn en ekki einstaklingana. Eða er ég kannski að misskilja eitthvað?

Kvennafæðin í efstu sætum framboðslista nokkurra flokka er stórfurðuleg og þarfnast skoðunar. Yfirlýsingar formanna flokkanna og upphróparnir um að svona sé lýðræðið og það þýði ekkert að fara í fýlu vegna þessa eru ekki ásættanlegar. Við eigum að vera í fýlu og kryfja málin því niðurstaðan opinberar það sem margir vita en færri vilja horfast í augu við, en það er, að jafnréttið í íslensku samfélagi er meira í orði en á borði.

Stelpurnar okkar brilleruðu í fótboltanum, efstar í sínum riðli og komnar á EM. Ef viðbrögðin vegna árangurs þeirra væru þau sömu og hjá strákunum hefði samfélagið átt að fara á hliðina af hamslausri gleði en svo varð ekki raunin. Samt er þetta í þriðja skiptið sem stelpunum tekst að ná þessu marki, pælið í því.

Ekki skortir umræðuefnið þegar litið er til atburða á erlendum vettvangi, t.d. Donald Trump og stórfurðaleg heimssýn hans og stuðningsmannanna. Þar er á ferðinni söfnuður sem nær stöðugt að trompa sjálfan sig og lifir í einhverjum veruleika sem þarf mannfræðing til að útskýra, ef það er þá hægt. Ekki taka orð mín svo að Hillary Clinton eigi frekar upp á pallborðið hjá mér, því fer fjarri. Skilnaður Brads Pitt og Angelinu Jolie er vatn á myllu slúðurpressunnar og við þurfum sko ekki að horfa á sápuóperurnar í sjónvarpinu til að fá tækifæri til velta okkur upp úr drama­tískum fjölskyldumálum. Verst að fréttirnar af því að Brad Pitt hafi hugsanlega öskrað dauðadrukkinn á son sinn, skyggja á fréttirnar af helvítinu sem fólk í borginni Aleppo í Sýrlandi býr við. Það er meira spennandi að fá að vita hvort fær forræðið yfir börnunum, Jolie eða Pitt en að sjá myndir af skjálfandi smábörnum í taugaáfalli í Aleppo eða myndir af limlestum líkum þeirra. Við viljum heldur ekkert vita af því hverjir bera ábyrgð á þessum átökum né að þau snúist um valdabaráttu stórveldanna og olíuhagsmuni. Því að Vesturlönd þurfa á olíunni að halda svo að hagkerfin þeirra haldist gangandi og samfélögin geti haldið uppi velmegunarlífstíl. Ekki gefum við hann eftir, er það? Nei, líklega ekki og þá er bara best að líta undan.

Uppgangur öfgaflokka, sem byggja á þjóðernishyggju er eitt þeirra mála sem vekja ugg og satt best að segja trúði ég því lengi vel að slíkt heyrði fortíðinni til. Mér finnst óhuggulegt að sjá og heyra, hvað orðræðan er lík því sem hún var í Þýskalandi Hitlers og meðal fasista í ýmsum ríkjum Evrópu á fyrri hluta 20. aldar. Þessi orðræða heyrist líka hér á landi. Mig setur stundum hljóða þegar ég kíki á bloggsíður íslenskra aðila, síður sem eru öllum aðgengilegar, m.a. á mbl.is. Hvað fær fólk til að hugsa svona um náungann? Ofstækið, heiftin, vanþekkingin, óttinn og mannfyrirlitningin eru ótrúleg. Það duga engin rök þegar þessi viðhorf eru annars vegar. Margir þeirra sem tjá sig á þessum nótum telja sig lýðræðissinna, málsvara kristilegra gilda og frelsis. Þið verðið að fyrirgefa en ég kem þessu einfaldlega ekki heim og saman.
Mér liggur margt á hjarta og ekki skortir viðfangsefnin. Vandinn er að þurfa að velja. Um hvað á ég eiginlega að skrifa?

Andrea Sigrún HarðardóttirTil baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi