Grein

Lilja Sigurðardóttir
Lilja Sigurðardóttir

Lilja Sigurðardóttir | 23.09.2016 | 13:44Aukið eftirlit er öllum til bóta


Fiskeldi hefur verið mikið í umræðunni seinustu vikur og þá helst varðandi regnbogasilung sem virðist hafa sloppið úr kvíum og eru að veiðast í nokkrum ám á Vestfjörðum.

Einn af áhættuþáttum við fiskeldi í sjó eru slysasleppingar og er gríðarlega mikið lagt í að koma í veg fyrir að slíkt eigi sér stað. Í laxeldinu eru notaðar vottaðar kvíar, eftirlitsmyndavélar eru á öllum kvíum og viðbragðsáætlanir eru virkar. Einnig er ákveðið ferli sem fer af stað varðandi tilkynningar til eftirlitsaðila og vottunaraðila, en tilkynna á allar slysasleppingar um leið og þær uppgötvast.

Þeir sem tapa einna mest á slysasleppingum eru fyrirtækin sjálf. Bæði er um fjárhagslegt tjón að ræða og einnig er hætta á að missa gæðavottanir ef slepping á sér stað. Flest fyrirtæki leggja því mikið upp úr því að gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir sleppingar og að allt sem tengist gæðamálum og eftirliti sé í lagi.

Laxeldi á sunnanverðum Vestfjörðum hefur vaxið gríðarlega á stuttum tíma og eru ákveðnir vaxtaverkir sem fylgja hraðri stækkun. Það hefur verið áskorun að fylgja vextinum eftir með auknu eftirliti og rannsóknum í greininni. Frá upphafi hefur verið vilji heimamanna að auka starfsemi stofnanna eins og Hafrannsóknarstofnunar og Matvælastofnunar á svæðinu. Með auknu fjármagni er hægt að koma upp góðum fiskeldisdeildum sem sinna öllu því sem viðkemur eldinu, allt frá seiðaeldi til vinnslu á lokaafurð. Skort á þekkingu er hægt að bæta með því að sækja ráðgjafa og ráða eftirlitfyrirtæki frá t.d. Noregi eða Færeyjum sem sérhæfa sig í eftirliti með eldi.

Ísland hefur gert margt gott hingað til og má til dæmis nefna svæðaskiptingu í fjörðum og kynslóðaskiptu eldi. En betur má ef duga skal og er það öllum til bóta að auka eftirlit og bæta þekkingu í greininni. Því þekkingin er svo sannarlega til staðar ef við vitum hvert við eigum að sækja hana.

Lilja Sigurðardóttir er í 4.sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Einnig starfar hún sem gæðastjóri hjá Arnarlax hf á Bíldudal.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi