Grein

Þóra Hansdóttir
Þóra Hansdóttir

Þóra Hansdóttir | 16.09.2016 | 14:43Flug innanlands


Allir hafa skoðanir á staðsetningu flugvallarins á sv horninu. Burt með hann úr Vatnsmýrinni og nýtum flugvöllinn í Keflavík betur. Nýjustu rökin fyrir þessu eru þau að það sé svo langt að keyra frá Bolungavík og Egilsstöðum.
Samkvæmt þessu gæti maður haldið að langflestar ferðir til sv hornsins séu ætlaðar til utanlandsferða.
Ef við gefum okkur að mjög margir fari til útlanda einu sinni á ári, sumir oftar, aðrir aldrei, þá standa eftir þær ferðir, sem landsbyggðarfólk tekst á hendur til Reykjavíkur, án þess að ætla lengra. Þeir eiga þá í flestum tilfellum eftir að koma sér til Reykjavíkur.

Margir þeirra sem þurfa að fara til Reykjavíkur, er fólk sem er að leita til læknis. Fólk með ung lasin börn, eldra fólk og fólk með illvíga sjúkdóma. Þessu fólki finnst alveg nóg að fljúga til Reykjavíkur og koma sér þaðan á viðkomandi meðferðarstað.

Ef dæmi er tekið af sjúklingi í krabbameinsmeðferð, sem getur jafnvel þurft að fara til meðferðar í Reykjavík í hverjum mánuði, þá er það alveg nóg ferðalag að lenda í Vatnsmýrinni. Ef viðkomandi er svo heppinn að eiga heima á Ísafirði eða nærsveitum, getur verið um að ræða fleiri en eina ferð til Keflavíkur frá Reykjavík á leiðinni heim, því stundum er ekki fært að fljúga til Ísafjarðar og stundum er flugi frestað, þegar búið er að bíða góða stund á flugvellinum. Þó ekki sé talað um kostnaðinn, þá er þetta ansi mikið álag fyrir fullfríska, hvað þá sárlasna.

Þetta fyrirkomulag yrði bæði dýrara og óþægilegra fyrir alla, nema þá sem eru að fara beint í flug frá Keflavík til útlanda. Þar gæti hugsanlega verið um að ræða þægindi, ef það er hægt að treysta fluginu. Það getur verið svekkjandi að missa af fluginu út, af því að það er „vitlaus átt“ á Ísafirði. Fyrir nú utan það að verðið á fluginu er bara svona eins og handleggur. Um leið og tveir eða fleiri eru á ferð, þá er ódýrara að keyra. Tíminn er jú líka peningar, en ef þú hefur tíma til að fara fram og aftur Reykjanesbrautina í þeirri von að takist nú loks að fljúga vestur, þá er tímanum alveg jafnvel varið í að keyra alla leiðina.

Stundum á fólk af landsbyggðinni erindi til Reykjavíkur á fundi, ráðstefnur eða námskeið, það getur munað því að maður komist heim samdægurs, ef flogið er frá Reykjavík en ekki Keflavík.

Þetta eins og allt annað er með fleiri en eina hlið, sem þarf að ígrunda vel áður en stórar og dýrar ákvarðanir eru teknar. Það er í besta falli skrýtið að ríkið geti selt borginni land undan flugvellinum fyrir tíunda hluta þess, sem það kostar að gera ráðstafanir um lausn í staðinn.

Hefur ekki höfuðborg ákveðnar skyldur við alla íbúa landsins ?

Þóra Hansdóttir
Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi