Grein

Bjarni Jónsson
Bjarni Jónsson

Bjarni Jónsson | 16.09.2016 | 10:19Ákall heilbrigðisþjónustunnar


Eitt fyrsta verk Alþingis eftir að það hafði fengið bæði löggjafar- og fjárveitingarvald með stjórnarskránni 1874 var að stofna læknaskóla og síðan að stofna læknishéruð og senda lækna út um allt land. Eru til margar sögur um hetjudáðir og afrek héraðslækna við að ná til sjúklinga og kvenna í barnsnauð. Góð heilbrigðisþjónusta er náði til allra landsmanna var talin ein af forsendum þess Íslendingar gætu kallað sig sjálfstæða þjóð og jafnframt skyldu vegleysur né ófærð ekki standa í vegi fyrir aðgangi fólks að læknisþjónustu.

Þjóðin hefur haldið áfram að efnast og sex ára hagvaxtarskeið hefur nú skilað verulegum tekjuafgangi í ríkissjóð en samt er eins og ráðamenn dragi lappirnar þegar kemur að því að styðja við innviði í heilbrigðisþjónustu og þá sérstaklega á landsbyggðinni.

Heilbrigðisþjónustuna til fólksins

Áður var það talið forgangsmál að koma með þjónustuna til fólksins þar sem héraðslæknarnir komu í vitjanir heim til fólks, og síðar með því að byggja sjúkrahús og heilsugæslustöðvar þar sem fólkið bjó. Sjúkrahúsið á Akranesi, St. Franciskusspítalinn í Stykkishólmi, Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði og Héraðshælið á Blönduósi svo dæmi séu nefnd voru einmitt byggð og rekin til að koma læknis- og spítalaþjónustunni til fólksins. Þessar stofnanir minna á þann stórhug sem einkenndi uppbyggingu heilbrigðisþjónustu hérlendis á tuttugustu öld. En um leið og þjóðarhagur tók að vaxa var það forgangsmál að byggja upp heilbrigðiskerfið um allt land.

Nú hefur dæmið snúist við og virðist stefnt leynt og ljóst að því að fullmektug heilbrigðisþjónusta verði í raun aðeins í boði á einum stað á landinu – í Reykjavík sem allir landsmenn verði að sækja óháð búsetu, hvort sem er vetur eða sumar, ófærð eða stórviðri. Það tala allir um nýjan Landsspítala, gott og vel, en hvað um að efla gott starf og þjónustu á „Fjórðungssjúkrahúsinu“ á Ísafirði og heilbrigðisstofnunum á Vestfjörðum.

Ljósmóðirin eina

Nýleg frétt á vef BB er því miður táknræn fyrir það sem íbúar í heilum landshlutum standa frammi fyrir. Aðeins ein ljósmóðir sinnir nú fæðingarþjónustu á Ísafirði fyrir alla Vestfirði.
Erla Rún Sigurjónsdóttir ljósmóðir bendir á í viðtalinu við BB, að afleysingamanneskja verði að koma að sunnan en flugsamgöngur geta verið stopular til og frá Ísafirði eins og fjölmörg dæmi sýna. Og verðandi mæður þurfa jafnvel að fara í ómskoðun til Reykjavíkur vegna þess að tækið sem notast er við á Heilbrigðisstofnuninni á Ísafirði „ er bæði gamalt og lélegt og mikil þörf á endurnýjun“ eða vantar sérhæfða ljósmóður. Þótt ferðakostnaður sé niðurgreiddur að einhverju leyti frá Tryggingastofnun er ljóst að mikill kostnaður, vinnutap og óöryggi fylgir því að þurfa sækja alla þessa þjónustu suður til Reykjavíkur.

Fyrr í sumar greindi ríkisútvarpið frá:“ fjárhagserfiðleikum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða sem getur ekki veitt grunnþjónustu og lokaði heilsugæslu á Tálknafirði og á Bíldudal yfir sumartímann vegna fjárhagserfiðleika“. En starfsfólkið er metnaðarfullt og vill aðgerðir. Framkvæmdastjóri lækningasviðs Hallgrímur Kjartansson segir í sama viðtali við RUV :„Það er nóg af verkefnum og ýmsar hugmyndir sem við höfum lagt til en þeim hefur verið hafnað af yfirvöldum... Og við þökkum fyrir ef við fáum að halda núverandi starfsemi “. Nefnir hann m.a. liðskiptaaðgerðir sem geti farið fram á Ísafirði í fullbúinni skurðstofu og með gott starfsfólk til að sinna eftirmeðferð í heimabyggð.

Tökum upp kyndilinn

Aðgangur að heilbrigðisþjónustu er einn lykilþátturinn í því að tryggja búsetu um landið allt. Jafnframt er það staðreynd að landsbyggðin hefur látið yfir sig ganga. Innviðir þjónustunnar hafa molnað niður eða einfaldlega verið lokað í nafni hagræðingar. Þessu verður hins vegar að snúa við og það ætti að vera forgangsmál hjá þingmönnum landsbyggðarkjördæma. Endurreisn heilbrigðisþjónustunnar er það sem brennur á þjóðinni. Málið snýst um að kjörnir fulltrúar taki upp kyndillinn og beri hann áfram til árangurs.

Bjarni Jónsson
Höfundur býður sig fram til að leiða lista VG í Norðvesturkjördæmi
Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi