Grein

Gísli Halldór Halldórsson
Gísli Halldór Halldórsson

Gísli Halldór Halldórsson | 14.09.2016 | 13:02Mikil samgöngubót


Vestfjarðagöng voru sannarlega bylting í samgöngumálum á norðanverðum Vestfjörðum. Þau tóku af mikla heiði, sem bæði var talsvert ferðalag að fara yfir, en einnig mikill farartálmi. Ferðalög yfir heiðina að vetrarlagi gátu verið mjög harðsótt ef ekki var hreinlega lokað vegna snjóa, sem oft var um lengri tíma. Sem betur fer búum við ekki við þann veruleika í dag, enda væri samkeppnisstaða okkar þá enn verri en nú er.

Göngin voru forsenda þess að yfirhöfuð var hægt að sameina sveitarfélögin árið 1996. Því miður lagðist margt á eitt við að gera tilveruna erfiðari í hinum nýsameinaða Ísafjarðarbæ eftir göngin. Náttúran, mennskar ákvarðanir í byggðamálum og sjávarútvegsmálum og þróun í verslun og þjónustu hafa gert það að verkum að við höfum átt fullt í fangi með að finna tilveru okkar sterkari undirstöður. Erfitt er að fullyrða, en það er líklegt að verkefnið hefði orðið okkur margfalt þyngra ef ekki hefði verið fyrir göngin – eiginlega vill maður ekki hugsa þá hugsun til enda.

Vestfjarðagöngin voru gerð á vordögum þess átaks sem síðan hefur verið í gangagerð á Íslandi og eru því barn síns tíma. Við hérna á svæðinu höfum eiginlega frá fyrsta degi grátið það að þau skuli hafa verið gerð einbreið, þ.e.a.s. fyrir utan Tungudalslegginn. Nú þegar umferðarþunginn vex með fjölgun ferðamanna koma ókostir þessa fyrirkomulags betur og betur í ljós. Ókunnugir lenda ítrekað í vandræðum með að skilja fyrirkomulagið á mætingum og upplýsingaljósum um umferð á móti. Við íbúarnir lendum síðan í vandræðum þegar við mætum ferðamönnum sem ekki kunna á þetta forneskjulega fyrirbæri.

Nú þegar útlit er fyrir mikla þungaflutninga í tengslum við fiskeldisáform á svæðinu, ofan á rútuferðir með skipafarþega og akandi ferðamenn hefur maður talsverðar áhyggjur af að ekki verði brugðist við í tæka tíð með því að stækka göngin og gera þau tvíbreið. Mér er sagt að það geti tekið 2-3 sumur að vinna þessa breikkun og að umferð yrði beint yfir Breiðadalsheiði á meðan. Því fyrr sem þetta getur gerst því minni verða erfiðleikarnir við þá framkvæmd, í ljósi vaxandi umferðar.

Dýrafjarðargöngin eru langþráður draumur sem hefði þurft að rætast fyrir meira en áratug og fagnaðarefni að hyllir undir þau. Þegar Dýrafjarðargöngin verða fullbúin, vonandi árið 2020, þá er aftur á móti líklegt að álagið á Vestfjarðagöng fari mjög hratt vaxandi – þegar einn flöskuháls er fjarlægður þá kemur sá næsti í ljós. Baráttu okkar er því hvergi nærri lokið. Við þurfum sárlega á að halda áframhaldandi samgöngubótum, sem gera okkur kleift að stækka hagkerfi Vestfjarða þannig að það verði á nýjan leik sá burðarstólpi fyrir land og þjóð sem það var alla 20. öldina.

Hér er enginn að biðja um ölmusur eða sérstakar fyrirgreiðslur. Við þurfum bara að fá að vera með á sama grunni og aðrir, eiga tækifæri á að taka til hendinni og byggja upp með okkar lagi, nýta auðlindir og ríkidæmi Vestfjarðanna þar sem við eigum heima. Til þess þurfa samgöngur að vera í lagi. Þetta er ekki mikið flóknara en það.

Gísli Halldór Halldórsson
Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar
Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi