Grein

Jónas Guðmundsson.
Jónas Guðmundsson.

Jónas Guðmundsson | 02.04.2003 | 10:47Hvers vegna að sleppa 15 km styttingu?

Það kann að skjóta skökku við að hafa af því áhyggjur að of geyst sé farið í vegaframkvæmdir á Vestfjörðum, jafn mikið og ógert er. Þó sýnist mega telja fulla ástæðu til að staldra við að því er varðar fyrirhugaðar framkvæmdir í Ísafjarðardjúpi. Þar háttar svo til, að á næstu vikum er áformað að bjóða út í einu lagi um 30 km vegarkafla um Hestfjörð og þann hluta Skötufjarðar sem enn er eftir. Þetta er mögulegt vegna þeirrar aukafjárveitingar sem kom til með ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að auka fé til vegaframkvæmda á Vestfjörðum um 1.000 mkr. fyrr á þessu ári. Þótt ekki sé hægt að hafa á móti auknum fjármunum til vegagerðar er æskilegt að ráðstafa þeim ekki fyrr en ráðrúm hefur gefist til að hyggja að því hvernig þeim verður best varið.
Sá vegarkafli sem um ræðir í Hestfirði er um 20 km langur. Þótt fjörðurinn sé djúpur eins og flestir firðir í Ísafjarðardjúpi er hann innan við 1.000 metrar á breidd og yst í honum haft þar sem ekki eru nema ca. 15 metrar niður, þar sem dýpst er, en mestur hluti þess er mun grynnri. Rannsóknir benda til að á haftinu sé tiltölulega auðvelt að setja fyllingar og leggja á þeim veg yfir fjörðinn og brú til að tryggja vatnaskipti. Utan við fjörðinn eru grynningar þannig að alda úr Ísafjarðardjúpi ætti ekki að verða til vandræða.

Vegur þessa leið yfir fjörðinn yrði um 15 km styttri en vegur fyrir fjörðinn. Vegagerðin hefur unnið frumskýrslu um þennan kost og kemur þar m.a. fram, að áætlaður framkvæmdakostnaður við þverun fjarðarins er um 840 mkr. en lagning vegar um fjörðinn um 315 mkr. Miðað við þetta er kostnaður fyrir hvern km sem stytt er u.þ.b. 36 mkr. Um grófa áætlun er að ræða og ekki útilokað að kostnaður gæti orðið eitthvað lægri.

Þótt umferð um Ísafjarðardjúp sé ekki ýkja mikil miðað við marga aðra vegi má gera ráð fyrir að hún eigi eftir að aukast talsvert eftir því sem malbikuðu kaflarnir þaðan inn á hringveginn lengjast. Þessi framkvæmd ætti að verða arðsamari sem því nemur, en umferð á liðnu ári var um 40.000 ökutæki. Með bættum vegum hillir undir að menn telji sér fært að aka fram og til baka milli norðanverðra Vestfjarða og suðvesturhornsins á einum degi ef á þarf að halda, sem er mikil breyting frá því sem verið hefur. Í því sambandi munar talsvert um 2 x 15 km styttingu.

Víða um land er miklu kostað til að ná styttingu sem þessari. Má þar nefna Gilsfjörð (stytting 17 km), Dýrafjörð (stytting 13 km) og einnig Kolgrafafjörð á Snæfellsnesi sem styttir leiðina um fjörðinn um 7 km og nýlega var boðinn út. Nú síðast hafa komið fram hugmyndir um styttingu hringvegarins um 15 km með 7 km löngum göngum undir Vaðlaheiði austan Akureyrar, sem að hluta til yrðu fjármögnuð með vegtollum. Í flestum þessum tilfellum koma reyndar fleiri atriði til en einungis að ná fram styttingunni, svo sem öryggi vegfarenda og að tengja saman þéttbýlisstaði.

Þótt í framtíðinni megi gera ráð fyrir að með jarðgöngum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar aki menn fremur svonefnda Vesturleið af norðanverðum Vestfjörðum inn á hringveginn, sem ef að líkum lætur verður nokkru styttri en leiðin um Ísafjarðardjúp, a.m.k. til og frá suðvesturhorni landsins, hafa þau göng ekki verið tímasett. Einnig er langt í land með að fullnægjandi tenging sé komin milli sunnan- og norðanverðra fjarðanna að öðru leyti. Þá er hugmyndin sú að á Vestfjörðum verði í framtíðinni góður hringvegur og í allra þágu að sá hringur verði sem stystur.

Ísafjörður hefur verið skilgreindur sem einn af þremur svonefndum byggðakjörnum á landsbyggðinni. Til að styrkja hann í sessi sem slíkan er nauðsyn að hugað sé að samgöngum við hann af sem mestum metnaði. Því sýnist margt mæla með því að staldrað verði við áður en lagt verður í fyrirhugaðar framkvæmdir í Hestfirði og allir kostir þess að þvera fjörðinn í stað þess að leggja veg fyrir hann gaumgæfðir. Í firðinum er mjög þokkalegur malarvegur, sem e.t.v. mætti bæta enn frekar þar til að hugsanlegri þverun kæmi. Ekki ættu heldur að vera vandræði að ráðstafa þeim fjármunum sem legðust til hliðar meðan úttekt færi fram á kostum þverunar til vegagerðar annars staðar í fjórðungnum. Má þar t.a.m. nefna þverun Mjóafjarðar, sem þegar er á áætlun og lítið eftir til að megi fara að bjóða hann út en við það styttist vetrarleiðin um Djúp um meira en 30 km.

– Höfundur er sýslumaður í Bolungarvík.

Sjá nánar:

Vesturvegur – Hestfjörður

Vesturvegur, upplýsingavefur um samgöngumál á Vestfjörðum


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi