Grein

Jónas Þór Birgisson,
Jónas Þór Birgisson,

Jónas Þór Birgisson, | 09.09.2016 | 10:00Húsnæðissparnaður

Ég hef heyrt fólk segja að frumvarpið um leið fyrir fólk til að nýta séreignalífeyrissparnaðinn til að safna fyrir útborgun í sína fyrstu íbúð henti fyrst og fremst hátekjufólki. Þegar notað er hugtakið hátekjufólk finnst mér að fólk hljóti að eiga við þá sem greiða tekjuskatt í hæsta þrepi, nokkurs konar hátekjuskatt. Hæsta skattþrepið miðast við tekjur umfram 836.990 kr. á mánuði svo það getur ekki verið rökrétt að tala um hátekjufólk ef það hefur tekjur undir því. Frumvarpið um húsnæðissparnað gerir ráð fyrir að ekki verði heimilt að nýta sér þann sparnað af tekjum umfram 694.000 kr. á mánuði svo hér er um augljósa rökvillu að ræða, eða hvað? Ég sá síðan nýlega umfjöllun um þetta úrræði þar sem mér fannst tvennt sérstaklega athugavert. Í fyrsta lagi fannst mér skrýtið að eingöngu væru tekin dæmi af einstaklingum en ekki líka af sambýlisfólki sem ég hélt nú að væri umtalsverður hluti þeirra sem kaupa fasteign í fyrsta skipti. í öðru lagi var ekki gert ráð fyrir neinni ávöxtun á það fé sem var safnað en í áhættuminnstu leið hjá Frjálsa lífeyrissjóðnum var meðalávöxtun síðustu fimm árin 5,4%. Sú leið kallast Frjálsi 3 og gerir ráð fyrir 80% skuldabréfum og 20% innlánum. Við skulum byrja á að skoða einstakling sem hefur 400.000 kr. í mánaðarlaun eins og gert var í nefndri umfjöllun.

9864 kr. á mánuði verða að 288.000 kr. á áriMeð því að nýta sér séreignasparnaðinn fær væntanlegur fasteignakaupandi mótframlag frá launagreiðanda sínum, sem hann greiðir aldrei skatt af. Hann fær svo líka skattaafslátt af sínu framlagi í séreignasparnað. Þetta þýðir að með því að lækka útborguð laun sín um sem nemur 9864 kr. á mánuði eða 118.368 kr. ári þá nær viðkomandi að safna 288.000 kr. á ári. Það er engin húsnæðisgjöf en er það ekki býsna hagstæður sparnaður?


3,8 milljónir á 10 árum

Skoðum þá uppsöfnun á séreignasparnaði með Frjálsa 3 því viðkomandi geymir sparnaðinn ekki undir koddanum, eða hvað?Eftir 10 ár er einstaklingur sem sagt búinn að safna rétt tæpum 3,8 milljónum með því að leggja til hliðar tæplega 10.000 kr. á mánuði. Eftir 6 ár er par sem sagt búið að safna sér rétt rúmum 4 milljónum með því að leggja til hliðar samtals tæplega 20.000 kr. á mánuði. Ef fólk nær síðan að leggja til hliðar aukalega til viðbótar við þessar tæplega 10.000 kr. á mánuði þá styttist tíminn auðvitað enn frekar sem þarf til að safna fyrir útborgun í fyrstu íbúðina. Sama gildir ef fólk nær einhverja mánuði að hafa laun umfram 400.000 kr.

Fólk mun hér eftir sem hingað til þurfa að leggja mikið á sig til þess að eignast sína fyrstu fasteign og þessi leið mun svo sannarlega ekki gera öllum kleift að ná því markmiði. Ég er hins vegar sannfærður um að umrædd leið mun gera fjölmörgu fólki kleift að eignast húsnæði sem ella hefði ekki haft tök á því.

Jónas Þór Birgisson, lyfsali og stundakennariTil baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi