Grein

Finnbogi Hermannsson
Finnbogi Hermannsson

Finnbogi Hermannsson | 08.09.2016 | 15:20Lýðræðið aldrei virkara en haustið 2016 - Sjónarmið 33. tbl


Haldiði að það hafi ekki borist kosningasneplar í póstkassann hjá okkur í síðustu viku og ágúst ekki allur. Ég varð heldur glaður við að ungir frambjóðendur treystu ekki alveg á samfélagsmiðla heldur létu prenta litfagra bæklinga til að senda í húsin. Mér datt í hug hvort þeir væru aðeins sendir í hús þar sem tölvusljó gamalmenni byggju, en svo reyndist ekki vera. Þetta fór í öll hús. En þetta voru allt frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, aðrir virtust ekki hreyfa hönd. Skildi svo að það var prófkjör hjá sjálfstæðisfólkinu og róið á bæði borð. Geðsleg stúlka á Ísafirði bað af hógværð um þriðja sætið, en hin tvö ætluðu sér stærri feng. Bæði hafa verið hlöðukálfar flokksins fyrir sunnan sem aðstoðarmenn ráðherra. Það er nefnilega aðferðin að sumir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar raða í kringum sig aðstoðarfólki á fullu kaupi og eru þeir í eins konar þjálfunarbúðum. Þetta er það sem húmoristinn Matthías Bjarnason kallaði flokksgerpi. Matti var ekki flokksgerpi, en mig minnir að hann hafi kallað Þorstein Pálsson flokksgerpi. Þarna átti Matthías við að fólk var annaðhvort komið í framboð af eigin styrk úr héraði ellegar uppalningar og bitlingahjörð af flokksskrifstofunum fyrir sunnan.

Langveglegasti bæklingurinn var frá syni Einars Odds á Flateyri upp á fjórar síður. Þarna er til dæmis myndir af drengnum kornungum við föðurkné á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og einnig ljósmynd þar sem hann er á rjúpnaveiðum í Önundarfirði með hundinn Trítil sér til fulltingis. Á forsíðuna er prentað stórum stöfum SÓKNARFÆRI TIL UPPBYGGINGAR . Verður manni þá litið til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í ríkisstjórn óslitið í 30 ár mínus fjögur ár eftir hrun. Á þessu tímabili hvarf nær allur kvóti frá Flateyri eins og dögg fyrir sólu og byggðin sat eftir með sárt ennið. Ekkert er í bæklingi drengsins um að hann vilji hrófla við fiskveiðikerfinu sem kemur í veg fyrir að sóknarfærin skapist í fiskiþorpum landsins og menn geti rottað sig saman og keypt bát. Einmitt þessa dagana eru kvótagreifarnir að borga út arðinn sem skiptir milljörðum og sala lúxusbíla tekur stóran kipp skv. blöðunum.

Þeir Einarssynir reyndu að blása lífi í UPPBYGGINGUNA á Flateyri og var virðingarvert, en gekk auðvitað afar illa hjá kvótalausu fólki. Lítill sægreifi hafði séð um þetta og var farinn. Þetta eru staðreyndir málsins. Því er allt tal um sóknarfæri og uppbyggingu hjóm eitt.

Færeyingar ákváðu að setja fiskveiðiheimildir á uppboð og virtist frekar illa undirbúið. En þeir eru að reyna að ná einhverri sátt um auðlindina. Hér heima voru leigupennar virkjaðir sama daginn til að lýsa þeim hörmungum sem dyndu yfir þjóðina væri hróflað við kerfinu. Þar fór Morgunblaðið fremst í flokki með ritstjóra sinn og forsetaframbjóðanda Davíð Oddsson. Útgerðarmenn reka blaðið að stórum hluta og borga rekstrarhallann ár hvert. Það finnst þeim skoplítill fórnarkostnaður.

Flateyringurinn náði þriðja sæti en vildi fyrsta náttúrlega..

Stúlka sunnan af Akranesi vill komast í annað sætið á lista Sjálfstæðisflokksins. Hún sendi frá sér hálfan A4 og talar um sterka innviði og öflugt atvinnulíf. Einstaklingarnir sjálfir skapi verðmætin. ÆÆ.

Hún náði öðru sætinu.

Í þriðja lagi vill stúlka á Ísafirði fá sæti og vill þriðja sætið. Hún boðar öryggi og frelsi og jöfn tækifæri. Hvergi minnst á kvótakerfið alræmda. Fjórða sæti varð hennar hlutskipti.

Þingmaðurinn Haraldur sem enga bæklinga sendi í húsin varð í fyrsta sæti í prófkjörinu og settist í öndvegi Einars Kristins Guðfinnssonar.

Þá vitum við nokkuð um afstöðu frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Nú er að vita hvort einhver bíður betur af þeim fjölda flokka sem verða í framboði. Píratar vilja byltingu og gagnsæi fyrir öllu. Framsóknarflokkurinn er ekki lengur opinn í báða enda, heldur stækur kvótaflokkur. Vinstrigræn malda í móinn og vilja hærri aflagjöld af auðlindinni. Samfylking er á svipuðu róli og Viðreisn vill markaðsforsendur á allt klabbið.

Þessi skrif hafa líklega ekki mikið skemmtigildi, en það vill svo til að líf okkar og framtíð á þessu fallega horni sem heitir Vestfirðir eiga nær allt undir því að menn fái að fiska, en sé ekki skammtaður skítur úr hnefa. Húskofar okkar eru lítils virði, almannaþjónusta drabbast niður vegna fámennis og allt eftir þessu. Við erum orðin svo langbarinn og viljalaus að byltingu þarf til að snúa þessu við. Er ekki lýðræðið virkt 365 daga á ári spurði Karvel heitinn Pálmason fyrir haustkosningarnar 1979. Og það virðist vera enn virkara haustið 2016 þar sem þjóðin heimtaði þessar kosningar. Kosningabarátta að komast á fullt blúss og spyrjum svo að leikslokum.

Rekið saman í Hnífsdal í öndverðum september 2016
Finnbogi HermannssonTil baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi