Grein

Inga Björk Bjarnadóttir
Inga Björk Bjarnadóttir

Inga Björk Bjarnadóttir | 07.09.2016 | 14:02„Um reynslu og reynsluleysi


Það er ekki alltaf auðvelt að vera ung kona í stjórnmálum, en ég hef verið virk í Samfylkingunni frá 17 ára aldri. Fyrir þann tíma hafði ég verið í réttindabaráttu fatlaðra en sá fljótt að stjórnmál væru vettvangur til þess að láta verkin tala og hafa áhrif.

Spólum 6 ár fram í tímann til dagsins í dag. Ég verð 23 ára í þessum mánuði og finnst ég hafa haft mikil áhrif þó að í stóra samhenginu séu verk mín smá. Dropinn holar steininn. Ég hef hjálpað til við að bæta stöðu fatlaðs fólks, bæði innan flokksins míns og í samfélaginu öllu. Komið fram í ótal viðtölum, starfað í grasrótinni og tekið slaginn sem hefur orðið til þess að breyta viðhorfi til fatlaðs fólks. Ég hef líka komið inn í stefnu Samfylkingarinnar að víkja frá refsistefnu í málefnum fíkla og að farnar verði nýjar leiðir í að hjálpa heimilislausum að koma þaki yfir höfuðið. Við félagar mínir í Ungum jafnaðarmönnum höfum tekið virkan þátt í baráttu fyrir auknu frelsi og mannréttindum. Flest kvöld vikunnar síðustu ár hafa farið í að starfa í pólitík. Sitja fundi, lesa skýrslur, funda með embættismönnum og sérfræðingum, starfa í málefnahópum og reyna að breyta og bæta. Pólitík er mikil vinna en þetta er það sem ég brenn fyrir og ég sé ekki eftir þeim hundruðum klukkustunda á ári sem ég legg til.

Utan flokksins hef ég veitt ráðgjöf til fatlaðra og aðstandenda þeirra í samskiptum við ríki og sveitarfélög, enda verður maður sérfræðingur í þeim efnum þegar maður hefur þurft að hafa samskipti við ferkantaðar ríkisstofnanir frá unglingsaldri. Ég hef setið í nefnd í velferðarráðuneytinu fyrir Öryrkjabandalag Íslands, í stjórn Menntaskóla Borgarfjarðar og hef skrifað frumvörp með þingmönnum og veitt pólitíska og málefnalega ráðgjöf til þingmanna og sveitarstjórnarmanna.

Þegar ég lít yfir farinn veg er ég mjög stolt af verkum mínum en þegar maður vill bæta samfélagið líður manni dálítið eins og Sisyphus með steininn, verkinu er aldrei lokið. Stöðugt þarf að vera á tánum fyrir ójöfnuði og óréttlæti og ég ætla að halda því áfram. Mig langar að Ísland sé samfélag þar sem allir hafa í sig og á. Ég veit af eigin reynslu hvernig það er að skrimta, hvernig það er að þurfa að eiga í samskiptum við kerfið og reyna af veikum mætti að fá þá þjónustu og stuðning sem maður þarf.

Þrátt fyrir þetta finnst mörgum ég reynslulaus. Kannski vegna þess að aldur minn er ekki hár og kannski vegna þess að dregið er úr vægi reynslu og þekkingu kvenna í stjórnmálum.

Ég er vinnuþjarkur, samviskusöm og með mikla samkennd. Þetta eru kostir sem ég tel að gagnist vel á Alþingi. Ég gef þess vegna kost á mér í forystu Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi og ég óska eftir þínum stuðningi.

Inga Björk Bjarnadóttir, frambjóðandi í flokksvali Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.“
Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi