Grein

Margrét Halldórsdóttir
Margrét Halldórsdóttir

Margrét Halldórsdóttir | 06.09.2016 | 15:50Frístund í Grunnskólanum á Ísafirði


Nú í haust hefst fjórði veturinn þar sem Frístund verður samþætt skólastarfi Grunnskólans á Ísafirði. Verkefnið snýst um að flétta saman skóla og tómstundastarf barna. Frístundin fer þannig fram að gert er hlé á hefðbundnum skóladegi barna í 1.-4. bekk á milli kl. 11:00 og 12:00 og börnin fara þess í stað í frístundarval. Nemendur velja sjálfir (í samráði við foreldra) hvort þeir fara í íþróttir, tónlistarnám, frjálsan leik, útileiki, á bókasafn eða valnámskeið.

Verkefnið er samstarfsverkefni skólans, HSV, tónlistarskólanna og Dægradvalar. Litið var á verkefnið sem þróunarverkefni en það hefur nú fest sig í sessi í skólastarfi GÍ. Verkefnið er hugsað út frá nemandanum og áhugasviði hans. Ætlunin er að mæta þörfum barna til að brjóta upp skóladaginn og gera eitthvað allt annað um stund, s.s. að fá útrás í hreyfingu, syngja í kór eða gleyma sér í frjálsum leik – frá verkefnum sem krefjast einbeitningar.

Leiðarljós í öllu starfi Frístundar eru gildi samfélagsins sem birtast í skólastefnu, íþrótta- og tómstundastefnu og forvarnarstefnu.

Skólastefna Ísafjarðarbæjar
• Virðing – ábyrgð – metnaður – gleði
Íþrótta- og tómstundastefna Ísafjarðarbæjar
• Virðing – metnaður – heilbrigði – hamingja
Forvarnastefna Ísafjarðarbæjar
• Virðing – Ábyrgð – Öryggi

Það var von okkar, sem að verkefninu komum, að með Frístund mætti bæta almennan skólabrag. Tilfinning okkar er að þetta hafi tekist og þá tilfinningu styðja niðurstöður skólapúlsins, kannanir Rannsókna og greiningar og innra mat skólans.

Töluverður árangur hefur einnig náðst í bættri líðan og minnkandi átökum í frímínútum, en skólinn innleiddi Vinaliðaverkefni í frímínútur fyrir tveimur árum. Ekki er fullkomlega hægt að segja hvað er orsök og hvað afleiðing en ljóst að við erum á réttri leið. Allir eru þó meðvitaðir um að hægt er að ná enn betri árangri og þangað stefnum við.

Í haust verður boðið upp á skipulagt tómstundastarf fyrir börn á miðstigi, strax eftir skóla, einhverja daga í viku. Það er ekki síst út frá áðurnefndu gildi forvarnarstefnunnar um Öryggi sem lagt er af stað með það verkefni – í þessum tómstundum geta börnin verið örugg í frítíma sínum undir eftirlit fullorðins einstaklings. Það verður nýráðinn forstöðumaður félagsmiðstöðva, Eva María Einarsdóttir tómstunda- og félagsmálafræðingur, sem mun sjá um starfið með miðstiginu.

Margrét Halldórsdóttir
Sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs
Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi