Grein

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir | 02.09.2016 | 20:00Á réttri leið

Efnahagsmál eru velferðarmál. Í upphafi þessa kjörtímabils var ríkissjóður verulega skuldsettur og fyrirsjáanlegur óstöðugleiki var í gengis- og peningamálum vegna þess sem kallað var snjóhengja. Það má öllum vera ljóst niðurgreiðsla opinberra skulda er forsenda frekari uppbyggingar til lengri tíma á Íslandi. Þá er bersýnilega ósanngjarnt að senda komandi kynslóðum reikning fyrir skuldum dagsins í dag. Sitjandi ríkisstjórn tók stefnumarkandi ákvörðun um að koma á efnahagslegum stöðugleika og greiða niður skuldir. Þessi ákvörðun hefur skilað eftirtektarverðum árangri og mun halda áfram að skila árangri um ókomin ár. Stöðugleiki er ekki átaksverkefni. Stöðugleika verður viðhaldið með öguðum ríkisfjármálum og festu í framkvæmd. Í stöðugu efnahagsumhverfi sem býr við einfaldar og fyrirsjáanlegar leikreglur virkjast kraftur fólksins í landinu. Við slíkar aðstæður mun fólk og fyrirtæki í landinu alltaf standa undir verðmætasköpun fái þau til þess nægt rými.

Hlutverk hins opinbera

Það á að vera grundvallarstef í öllum störfum kjörinna fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að hagsmunir atvinnulífsins og heimilanna fari saman, enda eru þessir hagsmunir hvor sín hliðin á sama peningnum. Það er fólkið í landinu sem skapar verðmætin – verðmætin sem standa undir grundvallar lífskjörum okkar allra, menntun og velferð. Verðmætin eru eign þess sem þau skapar, hvort sem þau kallast laun eða arður. Þótt ríkisvaldið hafi rétt til að skattleggja slíkar tekjur þá er það markmið okkar á hægri vængnum að leyfa eiganda verðmætanna að ráðstafa sem allra mest af þeim sjálfur.

Það eru ekki og verða aldrei til nægir fjármunir skattgreiðenda í öll verkefni sem landsmönnum og/eða stjórnmálamönnum þykja mikilvæg. Mörg verkefni eru líka þess eðlis að ríkið á ekki að sinna þeim á kostnað skattgreiðenda. Það gerist alltof oft að leitað sé til ríkisins með beiðnir og óskir um aukin útgjöld og fleiri verkefni sem aðrir eru fullfærir um að sinna. Hlutverk ríkisins er fyrst og fremst að tryggja öryggi borgaranna, tryggja greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu og menntakerfi óháð efnahag. Þetta, rétt eins og samgöngur og fjarskipti ber ríkisvaldinu að tryggja, en ekki endilega að reka. Þetta er viðvarandi verkefni og ætti að vera forgangsmál allra stjórnmálamanna.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
Höfundur sækist eftir 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í NorðvesturkjördæmiTil baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi