Grein

Teitur Björn Einarsson
Teitur Björn Einarsson

Teitur Björn Einarsson | 02.09.2016 | 16:55Sóknarfæri


Vestfirðingar hafa löngum búið við óviðunandi aðstöðumun þegar kemur að almannaþjónustu og mikilvægum samfélagslegum innviðum. Það hefur grafið undan byggðafestu og torveldað atvinnuuppbyggingu. Sem betur fer hafa þó ýmis mikilvæg mál þokast í rétta átt á undanförnum árum.

Framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hefjast innan tíðar og góðar horfur eru á því að vegaframkvæmdir við innanverða Barðaströnd geti hafist að nýju. Týndi áratugurinn á þeim vegakafla heyrir þá sögunni til. Þá er uppbygging fjarskiptakerfis á Vestfjörðum loksins hafin og þess að vænta innan skamms að markverðum áfanga verði náð í uppbyggingu raforkukerfisins með nýjum tengipunkti við innanvert Ísafjarðardjúp. Skilyrði fyrir atvinnuuppbyggingu hafa batnað og munu halda áfram að batna á næstu árum. Ekki seinna vænna.
Spennandi tækifæri hafa skotið upp kollinum síðastliðin ár á sviði ferðaþjónustu, nýsköpunar í sjávarútvegi, uppbyggingar i fiskeldi og raforkuframleiðslu en þeim fylgja líka nýjar áskoranir fyrir íbúana, fyrirtæki og sveitarfélög í fjórðungnum.

Samfélagið á að njóta afrakstursins

Tvennt skiptir höfuðmáli í opinberri stefnumörkun í þessum efnum. Annars vegar verða lög og reglur að stuðla að því að afrakstur af aukinni verðmætasköpun í ofangreindum greinum verði eftir hjá fólki og fyrirtækjum á svæðinu sjálfu og sveitarfélög fái tekjur í samræmi við þann kostnað sem þau leggja í við uppbyggingu á ýmis konar aðstöðu. Nóg er nú um að fjármagn flæði af landsbyggðinni inn í hina miðlægu stjórnsýslu og fjármálakerfi á höfuðborgarsvæðinu í formi skatta og vaxta.
Hins vegar verða allar ákvarðanir hins opinbera um skipulag, uppbyggingu innviða og veitingu leyfa fyrir auðlindanýtingu að vera teknar með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi og tryggt að þeir komi sjálfir að slíkum ákvarðanatökum. Gæta verður að því að uppbygging á einu sviði ryðji ekki úr vegi tækifærum til uppbyggingar á öðrum sviðum og ekki verði gengið lengra við nýtingu náttúrugæða en nauðsynlegt og rétt þykir hverju sinni samkvæmt mati fagaðila.

Verkefnið framundan

Helsta hlutverk ríkisvaldsins er að sjá til þess að allir landsmenn hafi jafnan aðgang að almannaþjónustu og að ríkið sinni uppbyggingu samfélagsinnviða á borð við samgöngur og fjarskipti þannig að allir njóti góðs af. Komandi alþingiskosningar munu öðru fremur snúast um það hvernig íbúar á landsbyggðinni geta nýtt þau sóknarfæri sem eru til staðar svo bæta megi lífskjör og treysta skilyrði fyrir frekari atvinnuuppbyggingu.
Við úrlausn þeirra áskorana og tækifæra sem framundan eru skiptir máli að kjörnir fulltrúar hafi á því skilning að það er fólk sem skapar verðmæti en hið opinbera skattlegur afraksturinn. Oftar en ekki er það svo að inngrip hins opinbera er hluti vandans en ekki lausnin. Stjórnmálamanna bíður fyrst og fremst það verkefni að forgangsraða opinberum fjármunum skynsamlega svo efla megi grunnþjónustu og ráðast í brýna uppbyggingu á innviðum í þágu allra landsmanna.

Teitur Björn Einarsson
Höfundur er lögfræðingur og sækist eftir 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi
Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi