Grein

Inga Björk Bjarnadóttir
Inga Björk Bjarnadóttir

Inga Björk Bjarnadóttir | 30.08.2016 | 13:02Titill: Raddlausar konur


Nú eru rúm 100 ár liðin síðan konur fengu kosningarétt en enn hefur það ekki gerst að konur nái helmingi þingmanna þó þær séu helmingur kjósenda. Þegar flestar konur náðu kjöri, í Alþingiskosningunum árið 2009, voru þær aðeins 27. Þó hlutfall kvenna hafi vissulega hækkað á þingi þýðir það hins vegar ekki að rödd þeirra heyrist. Meðal karlkyns þingmaður hefur talað klukkustund lengur en meðal þingkona og konur sitja þar að auki í styttri tíma á þingi. Völd þeirra eru einnig af skornum skammti en aðeins 97 konur hafa setið á Alþingi frá upphafi og aðeins 27 konur orðið ráðherrar. Fyrsta konan til þess að gegna embætti forsætisráðherra var Jóhanna Sigurðardóttir, og það var ekki fyrr enn á síðasta kjörtímabili. Það sama gildir um fyrsta kvenkyns fjármálaráðherrann, Oddnýju Harðardóttur. Þetta þykja mér sláandi upplýsingar í ríki sem stærir sig af því að hafa mestum árangri náð í jafnréttisbaráttunni.

Launamunur kynjanna er enn rúm 18% og þar sem launamunurinn er mestur, í fjármála- og vátryggingastarfsemi, er munurinn 37,5% og fer hækkandi! Þetta þýðir að fyrir hverjar 1.000 kr. sem karlmaður fær greiddar fær kona greiddar 625 kr. Val okkar á alltaf að miða að því að velja þann hæfasta að hverju sinni, hvort sem það er til áhrifa í stjórnmálum, í stéttarfélögum, eða við ráðningar á vinnumarkaði en það er erfitt fyrir mig að kyngja því að konur séu einfaldlega verr menntaðar, lakari stjórnendur og lélegri í stjórnmálum.

Ein af ástæðum þess að ég gekk í Samfylkinguna var að rætur flokksins liggja til Kvennalistans. Þær buðu feðraveldinu birginn og ruddu brautina fyrir okkur hin. Við jafnaðarfólk skulum snúa okkur í ríkari mæli aftur að kvennamálum. Útrýmum launamun kynjanna, brúum bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, tökum á kynbundnu ofbeldi, hækkum laun kvennastétta og látum raddir allra kvenna, á öllum aldri, heyrast - hvort sem þær eru af erlendum uppruna, hinsegin, kynsegin eða fatlaðar.

Það þarf vilja, það þarf hugrekki og það þarf róttækar aðgerðir til þess að breyta þessu. Línurit sérfræðinga munu engin áhrif hafa ein og sér heldur þurfum við fólk sem er tilbúið til þess að ganga á hólm við járnkrumlur feðraveldisins. Það þarf samstöðu almennings og stjórnvöld sem eru tilbúin til þess að hrista upp í hlutunum. Við þurfum að taka höndum saman og mynda þverpólitíska samstöðu á Alþingi til að bæta stöðu kvenna.

Brýnum raustina konur - ég er allavegana til í slaginn!

Inga Björk Bjarnadóttir
Höfundur er háskólanemi og frambjóðandi í flokksvali Samfylkingarinnar í NV-kjördæmiTil baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi