Grein

Bárður Jón Grímsson.
Bárður Jón Grímsson.

| 14.12.2000 | 13:40Frábær löggæsla!

Kæru samborgarar. Mig langar að miðla ykkur af reynslu minni af löggæslu bæjarins, af hverskonar festu og með þrotlausu starfi er spornað við hverskonar glæpastarfsemi hér í bæ. Allt er þetta gert í almannaþágu og af slíkri fórnfýsi að ég get ekki orða bundist og finn mig knúinn til að stinga niður penna til að greina ykkur frá reynslu minni.
Allt byrjaði þetta með því að ég keypti handa mér og 11 ára syni mínum leikfangabyssu úti á Spáni. Ekki þarf ég að minna ykkur á hverskonar skálmöld er í því landi með ofbeldisverkum Baska og er ég viss um að lögregluyfirvöld hafa haft það í huga við málatilbúnað þennan. Byssa þessi getur skotið litlum plastkúlum, sem reyndar geta ekki skaðað neinn frekar en baunabyssa.

En það er verknaðurinn sem er glæpur en ekki afleiðingin.

Nú vildi svo til að sonur minn tók byssuna og fór með hana út á Silfurtorg, þegar eldri strákur rífur af honum byssuna og ógnar með henni nærstöddum. Það er ekki að spyrja að haukfránir lögreglumenn verða þessa varir og nú byrjar alvaran. Strákurinn minn er gómaður og honum ekið lafhræddum heim í lögreglubíl. Játa ég strax að ég eigi strákinn og leikfangabyssuna. Byssan er gerð upptæk og málið sett í rannsókn.

Kæru samborgarar. Þrátt fyrir annríki „okkar manna“ gefa þeir sér tíma í svona rannsókn, enda um velferð okkar bæjarbúa að ræða. Ekki viljum við hleypa svona málum lengra og enda eins og með Baskana á Spáni.

Var ég nú kallaður í yfirheyrslu hjá lögregluembætti bæjarins. Í fyrstu var ég öruggur með mig og neitaði að þetta væri „vopn“ enda ekki keypt sem slíkt. Var tekin af mér skýrsla sem um grafalvarlegt sakamál væri. Ég gerði mér ekki grein fyrir því strax hverslags glæp ég hafði framið, ekki bara að smygla leikfangi inn í landið, heldur að hafa það í ólæstri hirslu, þannig að stráksi tók leikfangið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Ágætu samborgarar. Svona getur nú maður verið blindur á eigin ágalla. Ekki hafði ég gert mér grein fyrir fram að þessu hverslags glæpamaður ég væri.

Nú er málið sent til sýslumans og hefur það örugglega fengið flýtimeðferð, því ekki liðu margir dagar þar til niðurstaða var fengin í málinu. Mér var boðið upp á að ljúka málinu án dómsmeðferðar með sátt, þannig að ég greiddi kr. 15.000. í sekt fyrir brot á vopnalögum. Vararefsing yrði fjögurra daga fangelsi yrði sektin ekki greidd. Þar sem ég hef fyrir fjölskyldu að sjá ákvað ég að reyna samningaleið við sýslumann. Á fundi mínum með honum varð mér fyrst alvarlega ljóst hverslags glæpamaður ég var orðinn. Reyndar hafði „vopnið“ breyst í „eftirlíkingu“ og var það sýnu verri glæpur að hafa slíkt undir höndum.

Við þessa yfirhalningu sýslumannsins varð ég var við hverslags fagmaður hann var í sinni grein. Hann horfði á mig með föðurlegum svip og gerði mér ljósa alvöru málsins: Ég mátti þakka fyrir að enda ekki í fangelsi og eina ástæðan fyrir að farið væri svona mjúkum höndum um mig, eins og gert hafði verið hingað til, var óflekkað mannorð mitt. Það ólgaði í mér blóðið af geðshræringu yfir umhyggju þessa manns um velferð okkar borgaranna. Með hjartslátt og fullur iðrunar fór ég til gjaldkera til að greiða þessar 15.000 krónur og ljúka málinu.

Það er hreinlega spurning hvort ekki væri ástæða til að hafa endurhæfingu fyrir svona menn eins og mig, sem missa sjónar á réttu og röngu, til að koma í veg fyrir að atburðir sem þessir endurtaki sig.

Ágætu samborgarar. Látum ekki glepjast af eftirlíkingum vopna sem víða eru til sölu í leikfangaverslunum hér heima og erlendis. Slíkar gjafir geta vissulega orðið dýrt gaman.

Lof sé lögreglu og sýslumanni. Megi guð blessa yfirvöldin í vandasömu starfi.

Virðingarfyllst, Bárður Jón Grímsson, Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi