Grein

Sigríður Hrönn Elíasdóttir.
Sigríður Hrönn Elíasdóttir.

| 14.12.2000 | 13:36Af hverju eru verslanir ekki opnar í hádeginu?

Í byrjun desember þurfti ég að mæta á ákveðinn stað kl.13, svo að ég hugsaði mér að nota tímann í hádeginu til að versla ýmislegt fyrir jólin. Það kom mér verulega á óvart að tvær af hverjum þremur verslunum sem ég ætlaði í voru lokaðar í hádeginu.
Síðar í mánuðinum fór ég í klippingu til hennar Siggu Þrastar, sem er ekki í frásögur færandi, nema að við fórum að ræða um hádegislokun verslana á Ísafirði. Við vorum báðar, eins og aðrir viðskiptavinir hennar, jafn undrandi á þessu. Einnig sagði hún mér að það væri mikil deyfð yfir Ísafirði fram til kl. 13. Hún hefði m.a. auglýst 30% afslátt af permanenti fyrir hádegi til að fá viðskiptavini á þeim tíma en engin viðbrögð fengið.

Við sem vorum stödd á hárgreiðslustofunni vorum sammála um að hádegislokunin væri stór þáttur í því að lífið færi ekki í gang fyrr en eftir hádegi.

Ég skora á verslunareigendur og þjónustuaðila að hafa opið í hádeginu og láta t.d. starfsmenn sína fara á misjöfnum tíma í hádegismat. Það væri mikil og góð þjónusta við okkur íbúana, sérstaklega þá sem koma frá nágrannafjörðunum. Við þurfum þá ekki alltaf að versla eftir hádegi eins og nú er vegna þess að við „skreppum“ ekki heim í hádegismat og höldum svo áfram að versla.
Sigríður Hrönn Elíasdóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi