Grein

Jón Fanndal Þórðarson.
Jón Fanndal Þórðarson.

Jón F. Þórðarson | 27.03.2003 | 08:31Tenging byggðakjarnanna á Vestfjörðum

Ég leyfi mér að gera hér á eftir eina athugasemd við grein Birnu Lárusdóttur um samgöngumál, sem birtist hér á sama stað fyrir stuttu. Ég fagna því að vegurinn um Arnkötludal er kominn á samræmda vegaáætlun. Með þessari ákvörðun vinnst margt. Í fyrsta lagi styttist vegurinn um 40 kílómetra, í öðru lagi verða hvorki Hólmavík né Búðardalur utan aðalleiða og í þriðja lagi tengjast Dalir og Strandir á auðveldan hátt. Þessu ber að fagna og ættu flestir að vera sáttir við þessa lausn.
Fyrir 40 árum var ungur maður, Sigfús Jónsson, þá nemandi í Háskóla Íslands, sendur vestur á Ísafjörð að tilstuðlan Fjórðungssambands Vestfirðinga til að gera Vestfjarðaáætlun. Hann kallaði mig á sinn fund til skrafs og ráðagerða. Hann sagði mér að hann hefði aldrei til Vestfjarða komið fyrr og þau einu fyrirmæli sem hann fékk frá félagsmálaráðuneytinu voru þessi: „Farðu vestur á Ísafjörð og gerðu Vestfjarðaáætlun.“

Þegar ég kom á skrifstofuna til hans sat hann við skrifborð sitt með kort af Vestfjörðum fyrir framan sig og hafði dregið hring um Patreksfjörð og Ísafjörð og strikað með reglustiku beina línu milli þessara byggðakjarna. Hann vildi að sjálfsögðu tengja þá saman, beint yfir fjöll og firði. Síðan eru 40 ár, eins og áður sagði, og allt situr við það sama, að öðru leyti en því, að nú er þörfin fyrir því að tengja þessa byggðakjarna ekki sú sama og áður. Forsendur hafa breytst.

Við skulum vera raunsæ og hætta að staglast á þessu tengingarkjaftæði. Það er engin þörf á því lengur. Vesturbyggðarsvæðið mun aldrei sækja þjónustu til Ísafjarðarsvæðisins og við ekki til þeirra. Það er búið að rífast nóg um leiðir til að tengja Vestfirði við hinn svokallaða hringveg og línur eru orðnar skýrar. Vesturbyggðarsvæðið ætti að leggja alla áherslu á vegaframkvæmdir til suðurs en ekki hingað norður til lítils gagns. Vegaframkvæmdum um Djúp hefur miðað ótrúlega vel síðan skriður komst á það mál og tenging norðursvæðisins við þennan sama hringveg er og verður um Djúp. Norður- og suðursvæðið geta vel skipt vegafjárkökunni bróðurlega á milli sín á þennan hátt og stutt hvorir aðra á ýmsa lund. Öll erum við Vestfirðingar með svipaðar þarfir.

Þá kem ég að athugasemdinni við ummæli Birnu Lárusdóttur. En hún segir orðrétt:

„Samhliða þeim miklu framkvæmdum sem framundan eru er það einnig mjög brýnt hagsmunamál allra Vestfirðinga að jarðgöng, sem tengja suður- og norðursvæði fjórðungsins, verði að veruleika á þessum áratug. Slík göng, ásamt samgöngubótum áleiðis um Vestfjarðaveg milli Flókalundar og Bjarkalundar, eru forsenda þess að á norðanverðum Vestfjörðum byggist upp öflugur byggðakjarni sem verður þess megnugur að veita öðrum landshlutum samkeppni um fólk og fyrirtæki.“

Birna mín. Það eina sem ég er ósáttur við í grein þinni er þessi klausa sem ég vitna í. Mér finnst allt of mikil kosningalykt af henni. Frambjóðendur eru oft gjarnir á lofa öllum öllu svona rétt fyrir kosningar, til að styggja engan. Þessi klásúla er algerlega óraunhæft orðagjálfur. Vegur milli Flókalundar og Bjarkalundar kemur öflugum byggðakjarna á norðanverðum Vestfjörðum ekkert við. Íbúar Reykhólasveitar munu sækja sína þjónustu til Búðardals og/eða Reykjavíkur eins og þeir hafa ávallt gert og það munu íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum einnig gera, þegar þeir hafa fengið mannsæmandi vegi suður úr.

Við höfum nú þegar nokkuð öflugan byggðakjarna hér á Ísafjarðarsvæðinu sem á eflaust eftir að eflast og ég er þess fullviss að það er metnaðarmál bæjarstjórnarinnar. Þessi byggðakjarni okkar mun ekkert eflast þó að í fjarlægri framtíð komi betra vegasamband við suðursvæði Vestfjarða. Það er á allt öðrum forsendum sem hann mun eflast.

Við hér á norðursvæðinu eigum að leggja alla áherslu á styttingu vegar, t.d. með jarðgöngum úr Skutulsfirði í Álftafjörð og brú yfir Hestfjörð, svo eitthvað sé nefnt. Það sama ætti að gera á suðursvæðinu. Góðar samgöngur suður úr eru hvati til þess að fólk vilji setjast hér að en ekki heilsársvegur milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar. Ég hefi hér hreyft máli sem hefur verið feimnismál en ég er ófeiminn að láta þessa skoðun mína í ljós. Ég tel hana fyllilega raunhæfa og tímabært að láta hana koma fram.

– Jón F. Þórðarson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi