Grein

Svanhildur Þórðardóttir.
Svanhildur Þórðardóttir.

Svanhildur Þórðardóttir | 24.03.2003 | 10:34Hugleiðingar um verslun á Ísafirði

Á undanförnum árum hafa margar verslanir á Ísafirði lagt upp laupana en sem betur fer hafa aðrar nýjar komið í staðinn. Ber þar hæst Bónus og Samkaup, sem sjá okkur fyrir góðu úrvali af matvöru og ýmsu fleiru. Báðar þessar verslanakeðjur sjá hag sinn í að þjóna landsbyggðinni og er það vel. En er það sjálfgefið, að alltaf komi nýjar verslanir í stað þeirra sem hætta? Nei, því miður.
Á sérvörusviðinu eru nú margar blikur á lofti. Landsbyggðarverslun fer óðum halloka fyrir stórum verslunarmiðstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Keflavík, Akranes, Akureyri – af öllum þessum stöðum berast fréttir af lokun verslana sem ráða ekki lengur við samkeppnina. Við sem fjær erum höfum líka þessa samkeppni en reynum að vinna á móti henni – með góðri þjónustu og sambærilegu vöruverði og á höfuðborgarsvæðinu.

Þá kem ég að ástæðu þess að ég skrifa þessi orð. Nú streyma hingað markaðir af öllum stærðum og gerðum. Það líður varla sú vika að ekki berist til okkar dreifbréf um vörumarkað í Félagsheimilinu í Hnífsdal eða Kiwanishúsinu á Ísafirði. Ekki þurfa þessir markaðir að standa undir dýru verslunarhúsnæði allt árið eða sýna þá sjálfsögðu þjónustu að hægt sé að skipta vörunni eða skila ef hún reynist gölluð.

Öll viljum við hafa góðar og fallegar búðir í bænum okkar og sækja þangað það sem við þurfum – þegar okkur vantar það en ekki bara þegar markaður er í Félagsheimilinu.

Bæjarbúar gleðjast yfir fallegum útstillingargluggum í miðbænum á Ísafirði, en hvað verða þeir lengi? Þessi markaðsstarfsemi grefur undan þeirri verslun sem fyrir er á svæðinu og það sorglega er að hún þrífst í skjóli bæjaryfirvalda – sem eiga Félagsheimilið í Hnífsdal.

– Svanhildur Þórðardóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi