Grein

Kristinn Bergsveinsson.
Kristinn Bergsveinsson.

| 07.12.2000 | 16:57Metnaðarfull hugmynd að gerbreyttum samgöngum við Vestfirði

Nú í haust kom fram á Alþingi þingsályktunartillaga frá Guðjóni A. Kristjánssyni um samgöngumál á Vestfjörðum. Lagt er til að fela samgönguráðherra að láta gera athugun á því að leggja veg um fjörur Þorskafjarðar, Djúpafjarðar og Gufufjarðar ásamt því að gera jarðgöng úr botni Ísafjarðar í Djúpi í Kollafjörð. Þetta er metnaðarfull hugmynd og myndi þetta gjörbreyta samgöngum við norður- og vestursvæði Vestfjarða.
Vegalengdir myndu styttast, t.d. gæti leiðin til Reykjavíkur farið úr um 500 km í um 400 km. Erfiðir fjallvegir, heiðar og hálsar yrðu úr sögunni og snjómokstur yrði hverfandi lítill. Fleiri möguleikar væru í dæminu síðar á þverun Hestfjarðar og Mjóafjarðar í Djúpi.

Metnaðarleysi ráðamanna á Vestfjörðum er með ólíkindum. Þeir virðast gera sér að góðu óbreytt ástand varðandi þær leiðir sem nú eru farnar. Ég skrifaði smágrein um þessi mál í tilefni af opnun Gilsfjarðarbrúar. Við henni urðu engin viðbrögð. Þar vitnaði ég í orð Guðmundar Inga Kristjánssonar skálds á Kirkjubóli, þegar Vestfjarðavegur um Dynjandisheiði opnaðist til umferðar og Ísafjörður og nærliggjandi byggðir komust í akvegasamband við aðra landshluta:

Nú skal fagna nýjum vegi,
nýrri sókn með hverjum degi,
láta Vesturfirði fá
frama þann sem völ er á.

„Síðan eru liðin tæp 40 ár“, sagði svo í greininni. „Lengst af var lítið gert til að bæta upphaflegu vegina, sem mest voru ruðnings-skeringar, snjóþungir og erfiðir. Nýbygging vega með styttingu vegalengda hófst er Vöðin í Önundarfirði voru brúuð. Annar stór áfangi varð við þverun Dýrafjarðar. Mest munaði þó um Vestfjarðagöngin. Allt eru þetta verk sem hafa sannað gildi sitt. Nú er stórum áfanga náð með „þverun“ Gilsfjarðar. Því verki er að ljúka með glæsibrag. Þá kemur í hugann hvert verði næsta verk í vegagerð til að stytta leiðir og koma Vesturbyggð og Ísafjarðarsvæðinu í alvöru vegasamband. Ég lærði það ungur, að ef ég ætlaði suður, þá fór ég ekki í norður. Það er nú það sem þingmenn og sveitarstjórnarmenn Vestfirðinga gera með því að beina umferð, sem ætlar suður, norður á Strandir. Það er slæmt þegar pólitískir ráðamenn ákvarða slíkt.

Það sem ég tel að þurfi að gera, er að fela einhverjum hlutlausum aðila athugun á því, hvar og hvernig megi halda áfram á þeirri braut að stytta vegalengdir og byggja vegi þannig að þeir séu heilsársvegir. Ég er alinn upp við það að ferðast á hestum austur sveitina í Króksfjarðarnes og víðar. Þá var ávallt reynt að „hafa fjöru“, fara yfir fjöru á Djúpafirði og Þorskafirði. Svo var einnig um Gufufjörð og innanverðan Kollafjörð.

Það sama gildir um vegina. Þar yrðu þeir miklu styttri, snjóléttari og í betra veðurlagi en á hálsunum. Þegar að því kemur að taka ákvörðun um endurbyggingu frá Bjarkalundi, þarf að skoða vel þann möguleika að „þvera“ Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð og losna við Hjallaháls og Ódrjúgsháls. Styttingin yrði um 20-25 km. Ég gæti haldið svona áfram vestur sýsluna. Þar ríður á að færa vegina úr mestu snjóabælunum.

Það sem ég hefi hér minnst á kostar bæði stóran pening og mikinn undirbúning. Það er ekki seinna vænna að byrja að ræða og skoða hlutina. Varðandi kostnaðarhliðina er því til að svara, að ég tel að þjóðin hafi vel efni á þessu.

Nú er flutt á vegum óhemja af fiski og allt sláturfé af Vestfjörðum, auk allra aðdrátta. Ferðamannastraumur á eftir að aukast næstu árin. Í sumar varð mikil umferð eftir að Gilsfjörður opnaðist, bæði vestur og norður yfir Þorskafjarðarheiði. Það er til skammar að ekki skuli neitt gert til að lagfæra þann veg sem sumarveg.

Ég vil að lokum þakka það stórverk sem „þverun“ Gilsfjarðar er. Dalamenn og Austur-Barðstrendingar unnu saman að því að þoka því áleiðis. Gilsfjarðarnefnd hafði þar sitt að segja, uns tregða sumra þingmanna í báðum kjördæmum var yfirunnin og þeir lögðust á sveif með heimamönnum.“

Síðan þetta var skrifað fyrir hálfu þriðja ári hefur orðið nær tvöföldun á olíukostnaði. Ekkert getur sparað meira í flutnings- og ferðakostnaði íbúa á landsbyggðinni en að losna við heiðar og hálsa og stytta leiðir. Þingmenn og ráðamenn í héraði þurfa að átta sig á sínu hlutverki og leita allra leiða til að þetta verði að veruleika á næstu 10-15 árum.

Kristinn Bergsveinsson, Görðum, Reykhólum.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi