Grein

Guðmundur Einarsson.
Guðmundur Einarsson.

Guðmundur Einarsson | 17.03.2003 | 13:33Húsdýr – gæludýr

Er bærinn okkar sveit, þorp eða kaupstaður? Eða er hann þetta allt? Ég man þegar Holtahverfið var bara sveit, kýr gengu baulandi til beitar, kindur runnu um hlíðar, hestarnir mynduðu stóð, hundar spangóluðu á hlaði, hænur rótuðu upp mold undir húsbóndavaldi hanans og kettir læddust með veggjum. Öll þessi dýr höfðu hlutverk, þau voru húsdýr, gerðu gagn. Orðið „gæludýr“ var óþekkt í þessu sveitaumhverfi.
Ákveðnar reglur voru í gildi um þessi húsdýr, sumar mjög fornar og einstaka reglur eru lögfestar. Kindur hafa t.d. frjálst beitarland, en eigandinn verður að eiga land til beitar í sveitinni sem hann býr. Við verðum þá að girða okkur af, ef við viljum verja okkar land.

Hestar og kýr hafa afmarkað beitarland, sem eigandinn hefur aðgang að. Lausaganga er ekki endilega bönnuð. Kindur, kýr og hestar virðast lúta reglum um húsdýr, þó að þetta séu orðin gæludýr í okkar bæ.

Ég veit ekki hvort lausaganga hæsna er bönnuð, en dæmi eru um hænur sem gæludýr. Hundar mega ekki ganga lausir í gæludýraumhverfinu, verða að vera í bandi þegar þeir fara í göngutúr með eiganda sinn. Þegar hundurinn var húsdýr var gert ráð fyrir að hann væri heima hjá sér, en ef tík var lóða í nágrenninu þótti það góð afsökun fyrir því að bregða sér af bæ.

Kettir höfðu ekki fastan vinnudag eins og hin dýrin, þurftu ekki að sýna frjósemi eða skaffa feld. Þeir sáu um að halda músum frá híbýlum hesta, kinda og kúa.

Kettir voguðu sér ekki inn til húsbænda sinna frekar en hundarnir. Köttur sem var að þvælast á öðrum bæjum taldist villiköttur og var réttdræpur.

Nú eru öll þessi dýr orðin gæludýr í okkar bæ. Tilvist þeirra hefur engin áhrif á afkomu eigenda þeirra, eru aðeins þeim til ánægju. Það er mörgum lífsfylling að hugsa um dýr og eiga vináttu þeirra og tryggð.

Þegar byggð þéttist getur verið erfitt að eiga dýr heima hjá sér og um það verður að vera skýrar reglur. Fólk á að hafa rétt til þess að hafa gæludýr, en við verðum að muna það, að gæludýr sem gengur sjálfala verður að teljast villt. Köttur sem gengur laus, hvort sem það eru 15 mínútur eða ein nótt, er þá kominn í sama flokk og refurinn.

Gæludýrin mín eru gullfiskar. Þeir eru mjög hljóðlátir og skríða ekki inn í hús annarra, en samt þurfa þeir að lúta þeirri sjálfsögðu reglu að vera heima hjá sér. Ef þeir fara að synda í öðrum tjörnum mega allir veiða þá.

Ég var að hugsa um að fá mér grís með vorinu. Ef greyið litla sleppur út og rótar í nærliggjandi lóðum, þá veit ég að allir hafa skilning á því að hann verður að viðra sig.

– Guðmundur Einarsson,
kennari og sveitamaður.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi