Grein

Níels A. Ársælsson | 15.03.2003 | 14:55Heillaskeyti til skipstjórans á Jóni Kjartanssyni SU-111

Ekki gat það verið betur tímasett hjá félaga mínum Grétari Rögnvarssyni (Grella), skipstjóra á Jóni Kjartanssyni SU-111, að gaspra með það í fréttaþættinum Auðlindinni í hádeginu í dag, 14. mars 2003, hvað flottrollið sem hann hefur dregið á eftir sér síðustu misseri sé ofboðslega vistvænt og frábært veiðarfæri sem á engan hátt spilli lífríki sjávar. Það hreinlega leitist við að sneiða fram hjá bolfiski, hvaða nöfnum sem tjáir að nefna. Hvað þá bolfiskseiðum alls konar sem hreinlega forðist trollið hans af þvílíkum ótta að við brjálæði liggur.
Meðafli í bræðslu

Einungis hafði Grelli dregið 6 golþorska úr sjó í vetur og dvelja þeir nú trogsaltaðir við besta atlæti í búri kokksins og bíða þess að verða étnir með bestu lyst. Eitt smáslys hafði þó hent Grella sem vart tók að nefna við fréttamann RÚV. Þess varð þó að geta, vegna þess að svo óheppilega vildi til að akkúrat þá var einhver óboðinn gestur frá Fiskistofu að þvælast um borð. Sá var víst prýddur einkennisbúningi veiðieftirlitsmanns. Í farminn það skiptið slæddust víst óvart 650 kíló af ufsatittum. Sennilega var það allt bévítis Fiskistofusnápnum að kenna. Og svo var það bölvuð grásleppan. Þessi eina sem var svo seinheppin að lenda uppi á dekki hjá Grella. Hvað varð um hana er óupplýst mál meðal þjóðarinnar. Sennilega var bæði hún og ufsarnir notuð sem hráefni í bræðslu til að búa til mjöl og lýsi.

Setið og hugsað

Ég sit nú hér vestur í Tálknafirði og brýt heilann um hvort stórfelldar yfirlýsingar Grella um sitt eigið ágæti og flottrollsins hafi eitthvað með það að gera, að örfáum klukkutímum eftir að viðtalið fór í loftið í útvarpinu var aðalfundur settur hjá Hraðfrystihúsi Eskifjarðar hf (HE). Það er fyrirtækið sem gerir skipið út sem Grelli stýrir. Tímasetningin var hárnákvæm og ákaflega vel við hæfi á þessari hátíðarstundu. Enda mikið í húfi að sýna fram á að hér færu ábyrgir menn. Fyrirtækið skráð á markaði Kauphallar Íslands, þar sem menn hafa árum saman komist upp með að fljúga og ljúga hátt, klæddir í nýju fötin keisarans.

Útvarpið kjaftar frá

En Adam er sjaldan lengi í Paradís. Um líkt leyti og aðalfundi HE lauk, þá útvarpaði Svæðisútvarp Ríkisútvarpsins á Vestfjörðum frétt sem sýnir að flottrollskipin hafa verið að veiða heilu og hálfu byggðakvótana af þorski beint í gúanó. Að ekki sé svo talað um ufsann, karfann, grásleppuna og aðrar tegundir. Jafnvel lax sem hafi verið veiddur í þessi gríðarlegu flottroll! Og svo öll bolfiskseiðin sem þessi skip hafa veitt ...

Þetta er sárt

Æ, æ, æ, æ. Sem félagi í LÍÚ á ég náttúrulega að halda kjafti. En ég get það ekki. Óheppilegt það ...! Ég ætla samt að vona að kampavínið hafi ratað rétta leið oní glaða hluthafa HE með 25% arðgreiðslunni sem þeir voru rétt nýbúnir að sporðrenna. Mikið er nú gott annað slagið að hafa Seðlabanka Íslands sér til halds og trausts þegar kokka þarf upp gríðarlegan hagnað í formi gengismunar.

Lítum um öxl

En víkjum nú aftur sögunni að Grétari Grella, mínum gamla félaga og skipstjóra á Jóni Kjartanssyni. Það vill svo til að ég man þá tíð er einn ónefndur togari úr Hafnarfirði var einskipa við síldveiðar með flotvörpu fyrir Suður- og Austurlandi. Þá minnir mig að Grelli sá hinn sami hafi viðhaft mikinn hávaða og kjarnyrtar yfirlýsingar í fjölmiðlum um gríðarlega skaðsemi flottrollsins og kallaði það glæpaverkfæri sem væri að ganga frá hringnótaveiðunum dauðum. Grelli gerði skýrlausa kröfu á hendur íslenskum stjórnvöldum um algert bann við þessum ófögnuði.

Nýtt fáránleikaleikhús

Fáum árum síðar var Grelli kominn með sitt eigið flauelsmjúka flottroll. Og dásamar nú alla dýrðina í efstu hæðir. Ekki veit ég hvor er meiri brandarakall, hr. G. Rögnvarsson eða hr. H. Johannessen ríkislögreglustjóri (eða hvað hann nú heitir sá ágæti maður). Hvor er hlægilegra fyrirbæri í fáránleika íslenskrar fiskveiðistjórnunar? Flottrollskipstjórinn og gúanófiskarinn Grelli, meintur saklaus af því að veiða kvótabundnar tegundir sem aukaafla í bræðslu með sína sex þorska í salti um borð í 2.000 tonna skítfiskara, eða hr. Johannessen með þrælinn hann Nilla í taumi með 53 myndavélaþorska fyrir Héraðsdómi Vestfjarða?

Fylgst með

Ég, veiðileyfislaus auminginn, hef fátt annað að gera þessa dagana en að fylgjast með býsnum í íslenskri fiskveiðistjórnun. Spurningar vakna. Hér er ein: Hvernig skyldi standa á því að Víkingur AK-100 frá Akranesi, skip byggt árð 1960, er aflahæst á loðnuvertíðinni og veiðir einungis með hringnót


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi