Grein

Helstu fiskimið Grímseyinga, Paradísarhola og Hóllinn.<br>Mynd: Guðrún Helgadóttir, Hafró.
Helstu fiskimið Grímseyinga, Paradísarhola og Hóllinn.<br>Mynd: Guðrún Helgadóttir, Hafró.

Sigurpáll Ingibergsson | 12.03.2003 | 11:08Hafsbotnsrannsóknir

Hvort höfum við Íslendingar meiri tekjur af tunglinu eða sjónum í kringum okkur? Allir Íslendingar vita svarið við þessari spurningu. Hins vegar vitum við meira um yfirborð tunglsins en hafsbotninn við landið. Flestir þekkja Regnhafið og Skýjahafið á tunglinu og hægt er að fara á vef NASA og fá upplýsingar um allt yfirborð tunglsins. Hafið er okkur að mestu ókunnugt, fyrir utan skipstjórana sem vita hvar einstaka hólar og rennur eru, en það eru þeirra fiskileyndarmál. Íslendingar eru eftirbátar annarra þjóða í hafsbotnsrannsóknum þó að við byggjum allt okkar á fiskveiðum. Þó er búið að kortleggja hinn fagra Arnarfjörð ásamt hlutum af Tjörnesbeltinu, Kolbeinseyjarhrygg og Kötluhryggjunum.
Með nýju hafrannsóknaskipi opnast nýir möguleikar á rannsóknum á hafsbotninum okkar með fjölgeislatæki en vegna fjárskorts gengur hægt að kortleggja landgrunnið og hanna botngerðarkort sem gefa upplýsingar um botngerð sjávar. Hafrannsóknastofnunin hefur ekki fengið neinar aukafjárveitingar til fjölgeislamælinga. Því hefur ekki verið hægt að nýta tækið eins og æskilegt hefði verið til almennrar kortlagningar. Æskilegt er að allir leggist á árarnar svo nýta megi þetta afkastamikla mælitæki til kortlagningar og könnunar hafsbotnsins.

Við fiskveiðiþjóðin mikla höfum ekki fyrr fjárfest í svo merkilegu tæki, ekki frekar en neðarsjávarmyndavélum sem geta fylgst með veiðarfærum og sýnt virkni þeirra.

Í leiðangri sem farinn var í sumar opnuðust nýjar víddir í hafsbotnsrannsóknum. Stórkostlegt var að hlýða á Bryndísi Brandsdóttur jarðeðlisfræðing hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og Guðrúnu Helgadóttur frá Hafrannsóknastofnun kynna niðurstöður úr nýlegum rannsóknum á landgrunni Norðurlands, hafsbotninum á Tjörnesbeltinu, á fræðsluerindi fyrir stuttu. Magnað að sjá fjöll sem minntu á Herðubreið og Keili en flestum óþekkt. Misgengi eins og á Þingvöllum, setlög og gasmyndanir, gígaraðir og landslag sem er sláandi líkt og á landi. Rákir eftir hafísinn frá ísöld og rákir eftir botnvörpur togara. Á myndinni sem fylgir hér með má sjá þekkt fiskimið Grímseyinga, Hólinn og Paradísarholu.

Til að byggja aftur upp fiskstofna þarf að taka rannsóknir á erfðum og atferli fiska, lífríki og fiskstofnum til rækilegrar endurskoðunar. Stórefla þarf rannsóknir, byggja upp meiri þekkingu og setja landgrunnið í umhverfismat og skilgreina alveg upp á nýtt með hvaða veiðarfærum fiskurinn er veiddur og á hvaða svæðum. Fara eftir niðurstöðum þótt kvalafullar kunni að verða. Stefna að því að bera af á þessu sviði og selja svo rannsóknarþekkingu út um allan heim. Vísindin efla alla dáð.

Frjálslyndir standa fyrir rannsóknir og réttlæti!

Sigurpáll Ingibergsson, tölvunarfræðingur,
skipar 14. sæti á lista Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.


Heimildir:

Morgunblaðið 23. júlí 2002, bls. 35.
Bryndís Brandsdóttir, jarðeðlisfræðingur hjá Raunvísindastofnun.
Guðrún Helgadóttir, jarðfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.

Center for Coastal and Ocean Mapping

Swath-Sonar Related Sites

Ocean Floor Databases


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi