Grein

Þorsteinn Jóhannesson.
Þorsteinn Jóhannesson.

| 30.11.2000 | 15:45Af þursum, þverhausum og eliföntum

Undarleg tilviljun að með fimm ára millibili komi upp í hugann setning Hallgerðar langbrókar, sú er hún sagði við mann sinn: Tröll hafi þína vini. Í fyrra skiptið var það, þá undirritaður ásamt bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði steðjaði út af aðalfundi Orkubúsins árið 1995 eftir að uppástungu okkar um Halldór Jónsson sem fulltrúa í stjórn Orkubúsins var hafnað. Undirritaður, sem greinilega þekkti ekki í þann tíð eins vel og aðrir gamalreyndir sveitarstjórnarmenn pólitískt hugarþel Halldórs Jónssonar, fékk ekki skilið hvers vegna slíkum dáindismanni væri ekki tekið opnum örmum.
Í tímans rás hefur það orðið deginum ljósara, að það var ekki vegna stólahræðslu aðalfundarfulltrúa, að þeir höfnuðu stólagræðgi H.J. á þessum tímapunkti, heldur rökrétt ályktun, sem byggði á gamalli reynslu þeirra af honum. Þeir einfaldlega vildu ekki „elifant“ inn í stjórn fyrirtækisins.

Aftur kom þessi setning – tröll hafi þína vini – upp í hugann við lestur greinar H.J. í síðasta tölublaði BB: „Að hætti Ísfirðinga eru menn endanlega komnir í skotgrafirnar“. Þar segir hann að stjórnarformaður OV sé nú einn af aðalhvatamönnum að sölu OV. Undirritaður minnist þess ekki að hafa í seinni tíð tjáð sig við H.J. um málefni OV og skilur ekki hvaðan honum er komin sú vitneskja sem leyfir slíka fullyrðingu og meðan það liggur ekki ljóst fyrir er tekið undir áðurnefnda tilvitnun í Njáls sögu.

Upp í hugann kemur sagan af borgarstjóra í Þýskalandi, sem ásamt borgarbúum fagnaði komu fjölleikahúss til borgarinnar. Þá listamennirnir gengu undir hljóðfæraslætti um stræti borgarinnar tekur fíll (elifantur), sem hét því sígilda nafni Jumbó, sig út úr hópnum og slæmir rana sínum í höfuð borgarstjórans, sem átti sér einskis ills von. Uppi var fótur og fit en borgarstjórinn blessaður komst frá hildi þessari lítt meiddur á líkama. Að hætti þarlendra var málið skoðað niður í kjölinn. Menn vildu fá botn í þessa hegðan fílsins, sem í 25 ár eða frá fæðingu hafði verið hluti fjölleikahópsins og aldrei fyrr stigið víxlspor.

Ferill fjölleikahópsins var nú kannaður og kom í ljós að hann hafði komið 24 árum áður til borgarinnar, þegar Jumbó var ársgamall. Rifjaðist þá upp fyrir borgarstjóra að hann sem krakki hafi verið viðstaddur sýningu hópsins og rétt að litlum fílsunga jarðhnetu. En þá fílsunginn teygði ranann eftir henni stakk drengurinn hnetunni upp í sjálfan sig og tuggði af áfergju. Fílsunginn hinsvegar gekk í burtu súr á svip með ranann á milli fótanna. Þegar borgarstjóri greindi borgarráði frá þessu stóð öldungur upp og sagði: Já, þeir eiga það sammerkt, elifantar og þursar, að þeir gleyma aldrei því sem gert er á hlut þeirra og eru slíkir þverhausar að þeir láta einskis ófreistað til að hefna fyrri ófara.

Skyldu skrif H.J. um Orkubúið og málefni þess nú eiga nokkra samsvörun við framangreinda sögu?
Þorsteinn Jóhannesson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi