Grein

Einar Kristinn Guðfinnsson.
Einar Kristinn Guðfinnsson.

Einar K. Guðfinnsson | 04.03.2003 | 10:45Hvernig er hægt að lækka flutningskostnaðinn?

Því hefur oft verið haldið fram að hækkun flutningskostnaðar í landinu stafi af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á skattlagningu hins opinbera. Ný skýrsla sem var unnin fyrir Sturlu Böðvarsson samgönguráðherra og finna má í heild sinni á vef samgönguráðuneytisins, sýnir fram á að þetta er röng fullyrðing. Það verður að skýra breytingar á flutningskostnaði á allt annan hátt. Það er mjög mikilvægt að þetta liggi fyrir. Þess vegna er nauðsynlegt að árétta, að það sem þingmenn Samfylkingar og ýmsir fleiri hafa haldið fram í þessa veru er einfaldlega rangt. Tilraun til skýringa á mikilvægu og margslungnu máli með því að vísa í breytingar á skattheimtu ríkisins stenst einfaldlega ekki. Það dugar því ekki í þessari umræðu, fremur en öðrum, að veifa heldur röngu tré en öngvu.
Þjónustan hefur batnað

Það er ljóst mál að þjónusta flutningafyrirtækjanna í heild sinni hefur verið að batna. Stóru flutningafyrirtækin flytja vörur sínar daglega inn á 90 staði á landinu og í sumum tilvikum oftar en einu sinni á dag á hvern stað. Þetta vitum við landsbyggðarfólk. Af er sú tíð fyrir löngu, að menn þurfi að bíða langtímum saman eftir pökkum og sendingum. Panti menn vöru einn daginn berst hún okkur í flestum tilvikum hinn næsta. Þetta eru mikla framfarir og hafa meðal annars þær afleiðingar, að birgðahald verslana minnkar og fjármagnskostnaður einnig, sem ætti að öllu jöfnu að stuðla að hagstæðara vöruverði.

Flutningskostnaður hefur lækkað þar sem samkeppnin er hörð

Það liggur líka fyrir, að flutningskostnaður hefur lækkað á þeim mörkuðum þar sem mikil samkeppni hefur verið til staðar. Ferskfiskflutningar eru t.d. gott dæmi um þetta. Einnig liggja upplýsingar fyrir hvað varðar flutninga fyrir stóru matvörukeðjurnar. Það er eftirtektarvert að í skýrslu samgönguráðherra kemur fram, að flutningskostnaður af heildarsölu stóru matvörufyrirtækjanna á Vestfjörðum og Eyjafjarðarsvæðinu er innan við 1% af heildarsölunni. Þetta er mjög athyglisvert. Af þessu má sjá að það er í tilviki þeirra ekki flutningskostnaðurinn sem er ráðandi í verðmynduninni.

Þetta breytir því hins vegar ekki að víða er flutningskostnaðurinn mjög íþyngjandi. Minni aðilar njóta ekki sömu kjara og hinar stóru matvörukeðjur. Um það er hægt að nefna ótal dæmi.

Betri vegir – lægri flutningskostnaður

En þá er spurningin: Hvað ætlum við að gera? Hvað á að gera? Það sem skiptir auðvitað mestu máli til lengri tíma, er að við eflum og aukum samgöngubætur. Á þetta lögðum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins og samgönguráðherra mikla áherslu í umræðum á Alþingi þegar þessi mál voru þar til umfjöllunar. Þetta er einmitt verið að gera núna, með því mikla átaki sem stendur yfir í vegagerð, til dæmis á Vestfjörðum. Við erum að bæta vegakerfið, stytta flutningaleiðir þar sem það er hægt og bæta þannig samgöngurnar. Þetta dregur úr rekstrarkostnaði flutningsaðilanna og leiðir því til þess að flutningskostnaður mun lækka. Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði. Við vitum að afkoma flutningafyrirtækjanna er ekkert til að hrópa húrra yfir og því nauðsynlegt að hún geti batnað um leið og við bætum aðstæðurnar á vegum landsins. Vegaframkvæmdirnar hafa þess vegna meðal annars þennan tilgang og hann er ekki síst mikilvægur til þess að hafa áhrif á flutningskostnaðinn í landinu.

Hvað með endurgreiðslu flutningskostnaðar?

Við eigum líka að skoða leiðir til þess að endurgreiða flutningskostnað með beinum hætti, eins og raunar er bent á í skýrslunni. Þó er nauðsynlegt að halda því til haga, að í Noregi þar sem þessari aðferð er beitt, hefur þetta sjáanlega ekki afgerandi áhrif á flutningskostnaðinn. Í Noregi er ekki veitt nema tæpum 200 milljónum króna til þess arna og því augljóst að það hefur ekki afgerandi áhrif á flutningskostnað fyrirtækja og heimila.

Nú er unnið áfram að því að finna leiðir til lækkunar flutningskostnaðar. Stjórnvöld hafa því tekið þessi mál föstum tökum. Þetta er mikið hagsmunamál landsbyggðarinnar og því ástæða til þess að fagna því að unnið sé að því að bæta ástand sem er í dag ekki viðunandi.

– Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi