Grein

Úlfar Snæfjörð Ágústsson.
Úlfar Snæfjörð Ágústsson.

Úlfar S. Ágústsson | 03.03.2003 | 14:51Ísfirskt tónaflóð

Kjarkur og bjartsýni þeirra, sem nú eru að setja á svið á Ísafirði söngleikinn Sound of Music, er aðdáunarverður. Það er varla nema á færi stórra leikhúsa eða söngleikjahalla að eiga við verk af þessari stærðargráðu. Að sýningar skuli verða í gömlu fiskvinnsluhúsi gefur til kynna að aldeilis óhefðbundnar leiðir eru farnar undir faglegri stjórn okkar landsins bestu leik- og tónlistarstjórnenda. En til að náist að standa undir kostnaði þarf marga áhorfendur. Þótt við Ísfirðingar og nágrannar ætlum að mæta, þá er spurning hvort við getum ekki tekið undir með þessu bjartsýna fólki og reynt að fá gesti til að heimsækja okkur og koma á sýningu.
Hér vestra eru margs konar félagasamtök með tengla út um allt land. Hvernig væri að félög hér vestra eins og Lions, Kiwanis, Rótarý, JC, Zontur, Frímúrarar og Oddfellowar efndu til heimsókna? Tækju frá einhvern tiltekinn fjölda miða á einhverja sýninguna og hefðu það sem hluta af skemmtilegu helgarprógrammi fyrir tiltekið félag?

Þá er rétt að benda öllum átthagafélögunum á höfuðborgarsvæðinu á, að nú væri gaman að taka sig saman og skreppa vestur yfir helgi. Hitta ættingja og vini og njóta saman stórkostlegs listviðburðar. Hvernig væri að t.d. Vesturferðir settu saman pakka með gistingu, mat og miða og semdi við Flugfélagið og aðra þjónustuaðila um skemmtilega helgarferð?

Þetta framtak Litla leikklúbbsins og Tónlistarskóla Ísafjarðar er svo stórmerkilegt, að það beinlínis kallar á okkur hin að leggjast á árina með þeim.

Sjáum til þess að tónaflóðið fylli þéttskipaðan sal á öllum sýningum.

– Úlfar S. Ágústsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi