Grein

Jón Fanndal Þórðarson.
Jón Fanndal Þórðarson.

Jón Fanndal Þórðarson | 26.02.2003 | 13:37Tökum stefnuna á jarðgöng og brú

Vinnuhópur um öryggismál Djúpvegar milli Súðavíkur og Bolungarvíkur hefur skilað skýrslu sinni. Ég ætla ekki að ræða skýrsluna í heild en geri alvarlegar athugasemdir við einn þátt hennar en það varðar endurbætur á veginum um Súðavíkurhlíð. Orðrétt segir í skýrslunni: „Hópurinn mælir með að ráðist verði í aðgerðir á Súðavíkurhlíð sem feli í sér að grafnir verði skápar í tuttugu gil á leiðinni frá Arnarnesi inn að Arnarneshamri en síðan verði reistir vegskálar undir Fjárgil og Djúpagil.“ Þetta er kölluð skápaleiðin. Hin leiðin eru jarðgöng frá Naustum yfir í Álftafjörð. Nefndin telur þann kost áhugaverðan en að því er virðist ekki raunhæfan.
Síðastliðið haust skrifaði ég grein í BB og vakti athygli á nauðsyn þess að fá jarðgöng yfir í Álftafjörð. Talsverður skriður virðist kominn á það mál og framar mínum björtustu vonum. Í grein minni benti ég á að Bolvíkingar höfnuðu jarðgöngum á sínum tíma og báðu um vegskála í staðinn. Nú hefur verið lagt það mikið fé í Óshlíðina að óhætt er að afskrifa jarðgöng til Bolungarvíkur. Þarna réð þröngsýnin ríkjum eins og oft vill verða. Menn sjá ekki nógu langt fram á veginn og það kemur þeim í koll síðar.

Nú er mælt með að það sama verði upp á teningnum hvað Súðavíkurhlíð varðar en nú nefnist þetta fyrirbrigði skápaleiðin. Nú til dags koma menn út úr skápunum en loka sig ekki inni í þeim. Þetta ætti skýrsluhöfundum og hreppsnefnd Súðavíkurhrepps að vera ljóst ef þeir fylgjast með tímanum. Hreppsnefnd Súðavíkurhrepps beinir þeim tilmælum til yfirstjórnar samgöngumála að nú þegar verði ráðist í hina svokölluðu skápaleið á Súðsvíkurhlíð. Ég vildi gjarnan heyra álit bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar á þessu máli. Ísafjarðarbær er lang stærsta sveitarfélagið og hefur mestra hagsmuna að gæta.

Ástæðan fyrir því að ég skrifa þessa grein er sú, að ég vil vara við því að það sama hendi hvað Súðavíkurhlíð og Kirkjubólshlíð varðar og gerðist á Óshlíðinni þegar meirihluti bæjarstjórnar hafnaði jarðgöngum en kaus vegskála í staðinn.Við þessu vil ég eindregið vara. Við verðum að setja stefnuna beint á jarðgöng og ekkert annað. Annars gæti svo farið, að það sama gerðist og gerðist á Óshlíðinni, að við sætum uppi með einhverja skápa og vegskála en enginn jarðgöng. Eðlilegt viðhald á Súðavíkurhlíð þar til jarðgöng koma er svo allt annað mál. Með jarðgöngum yfir í Álftafjörð vinnst margt. Ekki bara það að vegurinn styttist til muna og við losnum við tvær stórhættulegar snjóflóðahlíðar þar sem oft hafa orðið slys og mannskaðar af völdum sviptivinda.

Hér er alvörumál á ferðinni sem ekki verður leyst með einhverjum skápum. Þá má geta þess að með jarðgöngum opnast góður möguleiki á því að Súðavíkurhreppur sameinist Ísafjarðarbæ þar sem ekki verður nema 5 mínútna akstur milli sveitarfélaganna. Þótt ýmsir hafi verið andvígir sameiningu sveitarfélaganna sem mynda Ísafjarðarbæ fer þeim fækkandi. Menn sjá að sameinaðir stöndum vér. Hér er að skapast öflugur byggðakjarni sem ekki verður gengið fram hjá og á sér ótvíræða vaxtarmöguleika ef menn hafa trú á sínu byggðalagi og hætta öllu svartagaldursrausi en líta björtum og jákvæðum augum til framtíðar. Hér eru ótal jákvæðir hlutir að gerast.

Spakmæli eitt hljóðar svo: „Þú nærð ekki lengra en hugur þinn nær.“ Þetta skulum við hafa í huga og setja markið hátt og hvika hvergi en taka stefnuna á jarðgöng yfir í Álftafjörð og brú yfir Hestfjörð í fyrsta áfanga. Um aðrar brýr og jarðgöng skal ég ræða um síðar. Samgöngur er sá þáttur sem mestu ræður hvað búsetu varðar og er nánast lykilatriði fyrir því að fólk setjist hér að. Krafan er því sú að allt kapp verð lagt á að stytta vegalengdir eins og kostur er. Annað kemur ekki til mála. Þetta er vel hægt, og að þessu skulum við stefna.

Tækninni í jarðganga- og brúargerð fleygir hratt fram, svo að innan ekki alltof margra ára gæti þetta orðið að veruleika ef ekki verður gerð einhver vitleysan af heimamönnum. Að endingu þetta: Í guðanna bænum látið ekki sömu vitleysuna gerast á Súðavíkurhlíð og gerðist hvað varðar Óshlíðina.

22. febrúar 2003.
Jón F. Þórðarson.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi