Grein

Úlfar S. Ágústsson.
Úlfar S. Ágústsson.

Úlfar Snæfjörð Ágústsson | 21.02.2003 | 09:46Nú er lag fyrir slitlag

Það hlýtur að vera fagnaðarefni öllum Vestfirðingum, að einum milljarði króna skuli verða varið aukalega til vegamála í fjórðungnum á næstu misserum. Þetta er að vísu ekki há upphæð, eða álíka og kostnaður við ein mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu, en gæti þó skipt gríðarlegu máli fyrir þá mörgu Vestfirðinga, sem enn hafa ekki veg með bundnu slitlagi inn á aðalþjóðvegakerfi landsins, eftir að Vesturbyggð og Tálknafjörður hafa komist á bundið slitlag alla leið suður með því að nota Baldur.
Það er því afar mikilvægt nú, að fulltrúar Ísfirðinga, Bolvíkinga, Súðvíkinga og Strandamanna taki höndum saman til að finna leið til að samnýta þetta aukafjármagn og það sem í vegaáætlun er til að koma á ökufærum heilsársvegi innan fimm ára, eins og bæjarstjórinn á Ísafirði hefur lagt til.

Það kom mér nokkuð á óvart að sjá það í BB, að umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Ísafirði leggur mesta áherslu á að féð verði notað til vegabóta á Dynjandisheiði. Vegurinn milli norður- og suðursvæða Vestfjarða er mikilvægur, en leiðin um Djúp er miklu mikilvægari og þarf því að hafa algjöran forgang.

Ef skoðuð er vegaáætlunin til 2014 er athyglisvert að hærri upphæðum skal varið á áætlunartímanum í Austur-Barðastrandarsýslu (2,6 milljörðum) heldur en í Djúpveginn (1,9 milljarðar). Einhvern veginn læðist að manni sú hugsun, að þingmenn Vestfirðinga leggi meiri áherslu á að pota vesturleiðinni áfram, þótt það verði til þess seinka því um mörg ár að norðanverðir Vestfirðir fái tengingu með bundnu slitlagi.

Mjög athyglisverðar upplýsingar koma fram í ályktun bæjarstjórnar Bolungarvíkur nú fyrir fáum dögum um veg um Arnkötludal og Gautsdal. Sú vegagerð er ekki á áætlun Vegagerðarinnar og þingmenn hafa ekki sýnt henni nokkurn áhuga. Kannski þarf nú að leita til þeirra nýju þingmanna sem kjörnir verða í vor um stuðning við þetta lífsnauðsynlega hagsmunamál okkar Ísfirðinga.

Skoðanakönnun í BB fyrir skömmu sýndi að um 70% þátttakenda velja veginn um Djúp en 30% vesturleiðina.

Allavegana held ég að við séum andstæðir þeim stjórnmálamönnum sem ætla að halda okkur frá því enn um áratuga skeið, að hafa lágmarks samgöngur á landi við höfuðborgarsvæðið og Keflavíkurflugvöll. Þangað þurfum við daglega að senda fiskafurðir okkar í stórum flutningabílum og þaðan þurfum við að ná auknum fjölda ferðamanna til að tryggja framtíð vaxandi atvinnugreina.

Nú er lag. Ef allir leggjast á árina, þá er fær lending í sjónmáli.

– Úlfar Ágústsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi