Grein

Halldór Halldórsson.
Halldór Halldórsson.

| 22.11.2000 | 17:26Orkubú Vestfjarða – málefni sveitarfélaga

Umræðan

Undanfarnar vikur hefur verið nokkur umræða um hugsanlega sölu á eignarhlut vestfirskra sveitarfélaga í Orkubúi Vestfjarða. Í umræðunni hefur komið fram gagnrýni á sveitarstjórnarmenn fyrir ýmislegt, m.a. fyrir að gefa ekki upplýsingar í málinu. Þá hefur farið fram netkönnun þar sem yfirgnæfandi meirihluti er gegn því að láta eignarhlut sveitarfélaga í Orkubúinu upp í skuldir og undirskriftarlistar liggja frammi þar sem sölu Orkubúsins er mótmælt.
Allt eru þetta eðlileg viðbrögð við hugsanlegum breytingum sem samfélagið telur geta orðið til hins verra fyrir framtíð þess. Hins vegar vantar enn miklar upplýsingar í málinu til að fólk geti tekið endanlega afstöðu til þess. Meðan umræðan er á núverandi nótum er ekki annars að vænta en að flestir greiði atkvæði gegn sölu í netkönnun og skrifi á undirskriftarlista gegn sölu á þeim forsendum að verið sé að selja verðmæta eign og ekkert komi í staðinn því söluverðið eigi að renna upp í skuldir.

Vonandi mun fyrirhugaður borgarafundur varpa skýrara ljósi á þetta mál en á fundinn mæta vonandi allir þeir sem telja ónógar upplýsingar liggja fyrir. Þar skiptir máli fjárhagsstaða sveitarfélaga, orkuverð, þróun í orkugeiranum vegna fyrirhugaðra nýrra raforkulaga o.s.frv.

Bréf viðræðunefndar

Fyrsta skriflega afstaða ríkisvaldsins til hugsanlegra kaupa á eignarhlut sveitarfélaga í O.V. var dagsett 7. nóvember sl. Bréfið hefur verið birt í heild sinni í fjölmiðlum svo undirritaður mun aðeins vitna í það hér. Þar til þetta bréf barst höfðu sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum ekki nægar upplýsingar um málið til að geta tjáð sig um það á opinberum vettvangi. Þær upplýsingar sem lágu fyrir fram að því voru frá fulltrúum Vestfirðinga í viðræðunefnd þeirri sem kosin var á aðalfundi O.V. sl. vor í þeim tilgangi að ræða við ríkisvaldið um hugsanlega sölu á eignarhluta O.V.

Í bréfi ríkisins er talað um að viðræðunefndin hafi heimild til að ganga út frá því að heildarverðmæti O.V. sé 4,6 milljarðar kr. og að söluverðmætinu verði varið til þess að greiða niður skuldir sveitarsjóða á Vestfjörðum og til lausnar bráðavanda sveitarfélaganna í félagslega íbúðakerfinu.

Skuldir sveitarsjóða á Vestfjörðum eru mismunandi en í mörgum tilfellum orðnar of miklar, það miklar að í óefni stefnir. Þar er ekki um að kenna slakri fjármálastjórn heldur hefur tekjulækkun orðið vegna samdráttar í atvinnulífi, fólksflutninga af svæðinu og aðkomu vestfirskra sveitarfélaga að atvinnulífinu, m.a. í formi ábyrgða. Það er því eðlilegt að sveitarfélög greiði niður skuldir sínar, gefist þeim færi á, og yrðu það að sjálfsögðu fyrstu aðgerðir þeirra flestra ef fjármagn fengist. Hvað varðar ákvæði um bráðavanda í félagslega íbúðakerfinu í bréfi ríkisins, telur undirritaður að einungis sé verið að ræða um vanskil, þar sem það á við. Þetta er túlkun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar sem má sjá í bókun bæjarstjórnar hér á eftir. Ekki er fallist á að blanda saman úrlausnum í félagslega íbúðakerfinu til framtíðar við hugsanlega sölu á O.V. enda virðist það almennt skoðun sveitarstjórnarmanna að það skuli leysa með sambærilegum hætti um allt land.

Fundur bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar

Hugsanleg breyting Orkubús Vestfjarða í hlutafélag og sala eignarhlutar því tengd var til umræðu á síðasta bæjarstjórnarfundi. Bókun bæjarstjórnar er hér að neðan og á bæjarráð eftir að ljúka við bréf til ríkisins á þeim forsendum þegar þetta er ritað. Það vakti athygli undirritaðs að enginn áheyrandi sat fundinn en það hefði verið upplagt til að verða sér úti um upplýsingar í málinu. Vonandi hafa einhverjir hlustað á beina útsendingu fundarins á Internetinu en þar getur reyndar takmarkaður fjöldi hlustað í einu.

Á bæjarstjórnarfundinum var eftirfarandi bókað:

Bæjarstjórn felur bæjarráði að svara bréfi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis dags. 7. nóvember sl., er varðar hugsanleg kaup ríkisins á eignarhluta sveitarfélaga í Orkubúi Vestfjarða. Svarið verði byggt á umræðum á 89. bæjarstjórnarfundi. Drög að svari samkvæmt 8. lið 223. fundar bæjarráðs verði notuð til grundvallar. Lögð verði sérstök áhersla á:

– Að Ísafjarðarbær samþykkir ekki að úrlausnum í félagslega íbúðakerfinu verði blandað saman við hugsanlega sölu.

– Að ríkisvaldið tryggi þá starfsemi sem nú er á vegum Orkubús Vestfjarða og að frekar verði bætt við hana.

– Að fallist verði á viðræður um leiðréttingu vanskila vegna óþingl


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi