Grein

Halldór Jónsson.
Halldór Jónsson.

| 22.11.2000 | 17:20Að hætti Ísfirðinga eru menn endanlega komnir í skotgrafir

Sú umræða sem á sér stað um Orkubúið þessa dagana er dæmigerð fyrir pólitík við Djúp. Þrátt fyrir að litlar sem engar upplýsingar hafi komið fram um málið eru menn þegar að hætti Ísfirðinga komnir í endanlegar skotgrafir sem engin rök munu ná mönnum upp úr. Því er næsta víst að röng ákvörðun verður tekin einfaldlega vegna þess að engin vitiborin umræða kemst að frekar en fyrri daginn.
Rétt er að staldra við nokkur atriði og varpa fram nokkrum spurningum.

Fyrir nokkrum árum var reynt að efna til umræðu um framtíð Orkubúsins vegna þess að fyrir lá að breytingar yrðu gerðar á starfsumhverfi orkufyrirtækja. Umræðan átti að leiða af sér að teknar yrðu ákvarðanir að vandlega athuguðu máli með hagsmuni fjórðungsins í heild að leiðarljósi. Því miður réð hinn þekkti sjúkdómur ,,stólahræðsla“ því að þessi tilraun var stöðvuð. Nú er orðinn stuttur tími til stefnu og eins og þekkt er má búast við röngum ákvörðunum þegar unnið er í tímaþröng.

Nú liggur fyrir að samkeppni hefst í orkugeiranum innan skamms hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Því er nauðsynlegt að fram komi hvernig Orkubúið í stakk búið til þess að mæta samkeppni í orkusölu.

Hver er til dæmis framleiðslukostnaður hjá Orkubúinu til samanburðar við önnur fyrirtæki ofl.? Í þessu sambandi verða að koma fram beinharðar staðreyndir en ekki óskhyggja manna sem sjá ekki út fyrir borðhornið. Þetta er lykilatriði því ef Orkubúið er ekki í stakk búið í samkeppni verður það sjálfkrafa verðlaust þegar samkeppni hefst og útvegar engum vinnu.

Menn mega ekki gleyma því að þegar að samkeppni hefst, er það ekki bara samanburðurinn við RARIK sem ræður, heldur öll orkufyrirtæki í landinu sem ræður nema að það eigi að skylda Vestfirðinga til þess að skipta við eitt ákveðið fyrirtæki.

Þegar þessar upplýsingar liggja fyrir geta menn farið að meta hvort hagkvæmt sé að selja Orkubúið eða ekki. Athygli vekur umsnúningur og þögn stjórnarformannsins. Hann taldi af og frá að selja Orkubúið í vor en er nú fremstur sölumanna án þess að fram hafi komið hvað breyttist hjá honum. Meira að segja starfsmenn OV hafa komið fram í fjölmiðlum og undrast þannig að stjórnarformaðurinn virðist ekki ræða málin þar innan dyra.

Hugsanleg sala Orkubúsins hefur í fjölmiðlum verið tengd uppgjöri á vanskilum í félagslega íbúðakerfinu. Þetta er mjög ógeðfelld hugmynd en kannski gat aldrei annað en ógeðfellt komið frá Páli Péturssyni. Bréfið frá ráðuneytisstjórunum virðist heldur vera almennara.

Sveitarstjórnarmenn verða að skýra almenningi með heiðarlegum hætti frá því í hvaða stöðu þeir eru komnir í gagnvart skuldastöðu sveitarfélaganna. Þingmenn hljóta að svara því hvort ætlunin sé að sveitarfélögin ein greiði herkostnaðinn af íbúðakerfi Jóhönnu.

Er þá komið að lokaspurningunni. Er í verðlagningu Orkubúsins innifalið yfirverð sem ætlað er til þess að breiða yfir hluta af ósómanum í félagslega kerfinu. Sé svo þarf það að koma fram.

Umfram allt kæru sveitungar. Komum upp úr skotgröfunum. Förum fram á tölur úr Orkubúinu og rök frá fulltrúum okkar í sveitarstjórn. Setjumst síðan niður og tökum rétta ákvörðun. Þetta gæti verið eitt síðasta tækifærið sem við fáum til þess að stuðla að bjartari framtíð á Vestfjörðum hvort sem niðurstaðan verður sú að selja eða ekki.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi