Grein

Myndin „Pétur gengur á sjó“, þarfnast viðgerðar og bíður þess að tekin verði ákvörðun um frekari varðveislu.
Myndin „Pétur gengur á sjó“, þarfnast viðgerðar og bíður þess að tekin verði ákvörðun um frekari varðveislu.

| 22.11.2000 | 17:17Hvar er altaristaflan úr Hesteyrarkirkju?

Ég varð ekki lítið hissa þegar ég las grein sr. Ágústar Sigurðssonar um Hesteyrarkirkju í blaðinu Degi frá 3. júní sl. Þar segir hann frá byggingu og sögu kirkjunnar þar til hún var komin á núverandi stað í Súðavík við Álftafjörð. Margt fróðlegt má lesa í þessari grein og hvet ég ykkur eindregið til að lesa hana. Þar segir m.a. frá áhrínskvæði því sem Jakobína Sigurðardóttir skáldkona (hún átti sókn til Hesteyrarkirkju á unglingsárum) hafði ort vegna heræfinga NATO úti fyrir Hornströndum. Allar umræður um flutning kirkjunnar eru mér minnisstæðar enda mjög heitar á sínum tíma. Ekki tók ég afstöðu til þeirra enda finnst mér kirkjan falleg þar sem hún er og sóma sér vel. Við erum fjögur fermingarsystkin hér vestra af sex og við fórum í fermingu til Súðavíkur á hálfrar aldar fermingarafmæli okkar. Það var mjög hátíðleg stund. En það sem ég undraðist í grein sr. Ágústar er eftirfarandi:
Það heyrði ég brátt á Ólafi Albertssyni [frænda mínum], að altaristöflunni hefði þó tekist að forða undan „ræningjunum“, rétt aðeins nógu snemma. Yrði aldrei sagt, hvar hún væri falin. Um það væri þögn og bræðrafélag.

Af þessu má ráða að altaristaflan hafi verið falin og hún nú týnd.

Ég hef allaf vitað hvar hún er niðurkomin og hélt satt að segja að allir Hesteyringar vissu það einnig. Henni var komið í geymslu á gamla bókasafninu hér á Ísafirði og þar hafði ég séð hana fyrir mörgum árum. Ég fór því á stúfana eftir lestur Dags til að fá það staðfest að altaristaflan væri þar enn.

Jóhann Hinriksson, forstöðumaður bókasafnsins, fór með mér upp á Sundhallarloftið og sýndi mér málverk sem legið hafði óhreyft í geymslu um árabil. Í því bar forstöðumann byggðasafnsins að og þegar hann var spurður um tilvist málverksins svaraði hann því til, að hann hefði vitað af því en staðið í þeirri trú að um leikmynd væri að ræða. Hvorugur þeirra vissi um uppruna verksins enda var gamli bókasafnsvörðurinn, sem hafði tekið við altaristöflunni ásamt fleiri gripum úr Hesteyrarkirkju og Staðarkirkju í Aðalvík, þ. á m. altaristöflu þeirrar kirkju, löngu dáinn.

Sem barn á Hesteyri man ég sérstaklega vel eftir þessu fallega málverki sem þakti mestallan gaflinn yfir altarinu.

Á aðalfundi Átthagafélags Sléttuhrepps, sem haldinn var nýlega, var mér sýndur listi yfir kirkjumuni úr Hesteyrarkirkju sem séra Sigurður Kristjánsson veitti móttöku. Þar á meðal var altaristaflan, orgel, sálmabækur, hökull, kaleikur o.fl. Ég veit að Sigmundur Guðmundsson keypti t.d. orgelið og gaf það síðan á Hlíf, íbúðir aldraðra hér í bæ, og er það í borðstofu hússins.

Með þessum línum fylgir ljósmynd af altaristöflunni. Ef einhver telur að hér sé byggt á misskilningi, þá þætti mér vænt um að fá að fá svar við þessu greinarkorni.

En reynist þetta vera rétt, hvað viljið þið þá gera, sveitungar góðir? Myndin, sem ber heitið „Pétur gengur á sjó“, þarfnast viðgerðar og bíður þess að tekin verði ákvörðun um frekari varðveislu.

Skrifað á Ísafirði 16. nóvember 2000. Guðný M. Einarsdóttir (Dúddý).


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi